Hvað hefur þú að segja á netinu?

Stundum þoli ég ekki facebook, finnst hún alger tímaþjófur og draga úr eðlilegum samskiptum milli fólks. Sakna þess að detta inn í kaffi hjá öðrum og að aðrir detti inn í kaffi hjá mér, að eiga samskipti andlit í andlit en ekki á þessari andlitsbók á veraldarvefnum.

Ég er alveg sek um að hanga alltof mikið á þessari vefrænu andlitsbók og eiga samskipti við fólk í gegnum hana. Vitið þið, mér finnst það ekkert fullnægjandi samskiptaform og mig langar að það breytist.

Þannig að það er mitt að breyta því en það er ekki mitt að dæma andlitsbókina og notendur hennar, einungis að taka mínar ákvarðanir varðandi mína notkun.

Vó!

Hér er ég bara búin að játa á mig ofnotkun á andlitsbókinni og segja ykkur að ég sakna svona gamaldags samskipta þar sem fólk hittist og talaði saman, það var eiginlega ekki það sem þessi pistill átti að fjalla um en „anyways“ leyfi þessu bara að byrja svona.

Ég hafði hugsað mér að nefna kosti andlitsbókarinnar því jú allt hefur sína plúsa og mínusa. Kanski gott að byrja á mínusnum og ljúka á plúsnum, þannig sendi ég lesandann með plús frá pistlinum!

Jæja að efninu.

Mér finnst gaman að því að skoða minningabankann á andlitsbókinni og rifja upp það sem ég hef sett fram þar, algerlega misgáfulegt og stundum ekki svo skemmtilegt en oftar eitthvað jákvætt og hressandi.

Í morgun skaust upp minningin um pistill sem ég skrifaði fyrir ári síðan um mikilvægi þess að lifa núna. Jebb fyrir ári síðan tók ég ákvörðun um að gerast aftur pistlahöfundur og gera það sem ég elska, að skrifa. Skrifa um allt og ekkert, mín reynsla er sú að það að skrifa er svo ótrúlega magnað fyrirbæri.

Að skrifa um eigin reynslu og deila því með öðrum er þvílíkt heilandi. Við eigum öll einhverja reynslu sem er annað hvort sár eða hamingjurík og þessi reynsla okkar getur verið einhverjum öðrum svo stór gjöf.

Ég hef tekist á við allskonar í lífinu rétt eins og allir aðrir og mér hefur fundist svo ótrúlega dýrmætt að lesa um reynslu annara því það hefur svo oft verið mér ótrúleg gjöf.

Í alvöru prófið þið að skrifa ykkur frá hlutunum eða bara skrifa sögu eða ljóð eða bara hvað sem ykkur dettur í hug.

Innra með sérhverri manneskju er saga sem getur nýst annari manneskju til góða, pælið í því!

Pælið líka í því hvað andlitsbókin væri falleg ef allir skrifuðu fallega statusa.

 

Njótið og munið lífið er núna.

SHARE