Konan mín er tvíburi. Það er sem sagt til annað eintak af henni og stundum kemur það eintak í heimsókn til okkar. Þegar þær systur voru yngri léku þær sér að því að vera eins klæddar og hræða fólk, en sem betur fer þá eru þær nú hættar því. Systir konunnar minnar er mikið hörkutól og skipulagðari en andskotinn og amma hans. Hún hefur verið einhleyp um árabil en lætur það ekki stoppa sig á nokkurn máta. Hún hringir reyndar stundum í mig til að fá leiðbeiningar en vill ekki heyra á það minnst að ég komi og hjálpi henni. Síðasta sumar var hún ein á ferðalagi um Vestfirðina og, eins og gerist, þá sprakk á bílnum hjá henni. Þar sem hún var, á Barðaströnd, er ekki mikið símasamband, en þó á nesi einu skammt utan við Gufudal. Því miður sprakk á bílnum hjá henni en hún er alvön að bjarga sér og var ekki lengi að tjakka upp bílinn og rífa sprungna dekkið undan. Í öllum hamaganginum eyðilagði hún hins vegar eina felguróna. Þar sem hún var ekki viss um hvort óhætt væri að aka bílnum þannig, gekk hún þessa tæpa 10 kílómetra út á nesið og hringdi í mig.
Ég verð að viðurkenna að það tók mig allnokkra hríð að átta mig almennilega á sambandi þeirra systra. Þó að þær væru ekki alltaf saman þá var engu að síður aldrei langt á milli þeirra, þ.e. þær vissu alltaf hvor af annarri og oft rak ég mig á það að konan mín bar ákvarðanir okkar undir systur sína og fékk samþykki fyrir þeim þar. Fyrsta sumarið okkar saman ákváðum við að fara til Spánar, þá vorum við enn barnlaus og ég sá fyrir mér að liggja á sundlaugarbakka með bjór alla daga þennan hálfa mánuð og fara út að skemmta mér á kvöldin. Þegar konan mín komst að því að ég hefði ekki gert ráð fyrir systur hennar í ferðinni þá varð hún fyrir miklum vonbrigðum og hélt langa tölu um hve mikilvægt væri að systir sín væri ekki skilin út undan. Draumaferðin mín breyttist því úr óskipulögðu afslappelsi og skemmtun í endalaust þramm á milli misskemmtilegra safna og ferðamannastaða ásamt því að vera þess heiðurs aðnjótandi að fá að halda á pokum þeirra systra í mörgum ferðum þeirra upp og niður eftir verslunargötunni. Sú þolinmæði sem ég sýndi þá hefur reyndar margborgað sig, svo ég sé nú ekki bara neikvæður, því systirin er dugleg að gæta gríslinganna og að vissu leyti mætti segja að hún sé þeim eins konar skámamma.
Þær systur eru hins vegar líkar með það að hvorug þeirra skilur kaldhæðni og ég þarf því oft að bíta í tunguna á mér og halda aftur af húmornum sem ég annars nota innan um félagana. Ég er kannski svona illa innrættur en það kemur alveg fyrir að ég skemmti mér yfir viðbrögðum þeirra við einhverju sem ég segi í kaldhæðni. Það er svo sem ekki illa meint, maður er manns gaman og allt það. En svo það sé á hreinu, þær eru ekki vitlausar, heldur þvert á móti, báðar flugklárar og frábærar manneskjur en eiga bara erfitt með að ná utan um svona samskipti þar sem orðin merkja ekki endilega nákvæmlega það sem þau merkja.
Hvað um það, nú kom systirin í heimsókn sem endranær fyrir helgi. Ég var að elda mitt víðfræga Chilli con carne þegar hún arkaði inn í eldhús, blés hárið frá andliti sínu og sagði:
„Friðrik, þú veist svo margt um bíla!“
„Líka svona,“ svaraði ég og hélt áfram að fræhreinsa chillibelgi.
„Hvað má ég aka lengi með olíuljósið logandi?“ spurði hún. Ég leit eitt andartak á hana og brosti út í annað.
„Ekki mikið lengur en mánuð, myndi ég halda,“ svaraði ég og hló mig máttlausan, en bara í hljóði, því ég vildi ekki styggja hana. Ég teygði mig hins vegar í hníf og tók að skera niður chillibelgina.
„Gott að heyra,“ sagði hún og skenkti sér mjólk í glas.
„Nú?“
„Æ, það hefur logað í mælaborðinu undanfarnar þrjár vikur!“
Ég skar næstum af mér þrjá fingur. Án þess að segja nokkuð rétti ég henni hnífinn, greip bíllyklana hennar af forstofuskenknum og arkaði út á bílastæði, þar sem ljósgráa Swift tíkin hennar stóð. Þar reif ég upp bíldyrnar og hlammaði mér ökumannssætið. Þá teygði ég mig í hanskahólfið og fann smurbókina. Jú, það kom á daginn að bíllinn hafði ekki verið smurður í næstum 25 þúsund kílómetra, eða síðan hún keypti vesalings farartækið. Ég tók bókina, skellti bílhurðinni á eftir mér og stormaði inn.
„Hefurðu aldrei farið með bílinn í smurningu!?“ spurði ég og ekki var laust við að ég væri örlítið pirraður.
„Smurningu? Nei, það held ég ekki,“ svaraði systirin.
„Ertu alveg galin? Þú þarft að láta setja nýja olíu á hann á svona 5000 kílómetra fresti,“ sagði ég og ætlaði að halda langan fyrirlestur um viðhalda bíla. En maður skyldi aldrei efast um hæfileika þeirra systra til að slá öll vopn úr höndum manns og í þetta skipti var það aðeins ein setning.
„En þú sagðir þegar ég keypti bílinn að hann væri svo lítill og sparneytinn að hann hlyti að framleiða sína eigin olíu!“
„Já, það er rétt,“ bætti konan mín við, „ég man vel eftir því. Þú sagðir það.“
Ég stóð og horfði á þær um stund. Ég opnaði munninn og ætlaði að svara þeim en af svipnum á andlitum þeirra að dæma þá var það til einskis. Ég var búinn að tapa. Þetta var mér að kenna. Ég lagði því smurbókina á borðið fyrir framan systurina og fór aftur inn í eldhús. Úr því ég hafði klúðrað þessu, þá var eins gott að ég klúðraði ekki líka kvöldmatnum.
Friðrik Vestdal er tveggja barna faðir í austurborginni og á hann börnin með tveimur konum. Hann er með meistaragráðu í iðngrein og hefur gaman af íþróttum. Friðrik er á fertugsaldri og þarf að fást við öll þau vandamál sem venjulegt fólk þarf að takast á við.