Hvað má segja á Facebook? – Þjóðarsálin

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Hef aðeins verið að velta fyrir mér hvaða „statusa“ ég má setja inn á Facebook sem Íslendingur í útlöndum án þess að særa samlanda mína. Ástæðan? Jú tökum dæmi:

Setti inn um daginn: Vorið mætt hlýtt og yndislegt 😉 jákvætt? Ekki spurning. „Kommentin“ jaaa……

Nr. 1. Vertu ekki að strá salti í sárin, (snjósárin)
Nr. 2. Bítt´í þig
Nr. 3 hold mund
Jákvæð svörun, varla. Fannst eins og ég væri vond við landa mína ad sitja í sól meðan þeir væru á kafi í snjó heima.

Í vetur (þegar komu nokkur snjókorn) var sett inn mynd og sagt „nei sko snjór“ og broskall á eftir. Jákvætt? Myndi nú halda það. „kommentin”…..

Nr. 1 Snjór??? Haahaaaa
Nr.2 Ertu að grínast kallarðu þetta snjó?
Nr.3 móðgun að kalla þetta SNJÓ.

Síðan komu ritgerðir um snjómagn og erfiðleika samfara íslenskum vetri. Fannst eins og ég væri orðin að einhverju viðundri sem kallaði allt sem er hvítt snjó.

Þetta eru tvö dæmi um neikvæða svörun á mínu venjulega lífi í útlöndum. Öllum finnst æðislegt þegar Íslendingar setja inn myndir af sér og sínum í daglegu lífi í sól og blíðu á sumrin, sitjandi á pallinum í sumarbústaðnum, öll stórfjölskyldan (foreldrar, systkini og fjölskyldur) og vinir saman. Eða á skíðum í góðu veðri á veturnar. Þá eru „kommentin“ æðislegt, geggjað og magnað. Ég hef ekki sumarbústað til að sitja í á sumrin og hef oftast nær bara MÍNA fjölskyldu ( hún er reyndar mjög fín) og íslensku vinirnir mættu alveg vera duglegri að koma í heimsókn.

Ég get ekki tekið þá ákvörðun eftir vinnu að hoppa upp í bíl og keyra upp í Hlíðarfjall eða í Bláfjöll og skreppa á skíði. En ég er sátt með mitt og mína. Ég gleðst með fólki í kringum mig (á Facebook) og hef ekki þörf á að henda inn neikvæðum „kommentum“ þó svo að ég myndi alveg vilja vera í sporum margra sem setja inn skemmtileg atvik lífs síns.
Hættum að láta eins og það sem sett er t.d á Facebook sé sett þar bara til að ergja okkur og gleðjumst yfir því sem við höfum og fyrir hönd annarra.

Kveðja frá útlöndum.

SHARE