Hvað mótar neysluvenjur barna?
Flestir foreldrar (uppalendur) hafa einhvern tímann áhyggjur af því að barn þeirra borði ekki rétt. Áhyggjur sem þessar eru eðlilegar. Hafa skal hugfast að neysluvenjur barns markast að miklu leyti af því þroskaferli sem það gengur í gegnum. Barnið virðist stundum botnlaust og á öðrum tímabilum virðist það lifa á vatni og lofti einu saman. Þrátt fyrir þetta er orkuefnaneysla flestra barna ótrúlega stöðug þar sem orkuneyslan helst í hendur við líkamlega þörf. Börn sem eiga við ofþyngdarvanda að stríða skera sig þó úr þar sem þau borða gjarnan vegna áhrifa ytri áreita og því líklegri til að borða yfir sig. Dæmi um ytri áreiti er gott bragð (barnið hættir ekki að borða þó það sé orðið satt) og hvatning foreldra um að klára matinn. Barn sem hefur eðlilegan „neyslustoppara“ hunsar slíkar hvatningar en barn sem hneigist til ofþyngdar klárar matinn möglunarlaust foreldrum oft til mikillar ánægju!
Sjá einnig: Þvagfærasýkingar hjá börnum
Foreldrar eiga að stjórna
Hlutverk foreldra felst fyrst og fremst í því að gera börnum kleift að nærast reglulega og bjóða upp á fjölbreytni þar sem mataræði í anda manneldisstefnunnar er haft að leiðarljósi. Með öðrum orðum, þá ákveða foreldrar hvað á að borða en barnið ákveður sjálft hvort og hve mikið það borðar. Ef eðlilegur „neyslustoppari“ er ekki til staðar hjá barninu á þessi regla hins vegar ekki við. Grípa þarf þá til markviss aðhalds. Foreldrar eiga að stjórna því hvað börnin borða þar sem flest börn myndu velja mat samkvæmt bragði en ekki „hollustugildi“. Sykurbragðið höfðar mjög sterkt til barna og því er líklegt að fæðan sem yrði fyrir valinu væri dísæt. Í einni rannsókn var börnum gert kleift að velja sér sjálf af gnægtarborði. Í ljós kom að hlutfall sykurs nam heilum 25% sem augljóslega er langt umfram þau 10% sem talin er eðlileg hámarks sykurneysla. Þrátt fyrir að „hófleg“ sykurneysla sé ekki beinlínis skaðleg heilsu kann óhófsneysla á sykurríkum og næringarefnasnauðum mat að hafa neikvæð áhrif og meðal annars stuðlað að næringarefnaskorti og offitu.
Hvað veldur sykurlöngun barna?
Ein skýring á mikilli sykurlöngun barna tengist því að frumur eins og heilafrumur nærast mestmegnis á sykri (glúkósa). Heili barna er jafnstór heila fullorðinna en aftur á móti er lifur þeirra mun minni. Þegar haft er í huga að lifrin geymir glúkósa í formi kolvetnategundarinnar glýkógens sem aftur er brotið niður í glúkósa eftir þörfum ætti öllum að vera ljóst að það er mikilvægt að borða kolvetnaríkan mat reglubundið. Sykur er dæmi um kolvetni og finnst ríkulega í fæðu sem flestum finnst afskaplega bragðgóð eins og kökum, sætu kexi, ís og gosi. Lifur barns (að minnsta kosti upp að tíu ára aldri) nær einvörðungu að geyma kolvetni sem endist í um 4 klukkustundir og því er mikilvægt að þau borði reglubundið og byrji daginn á góðum morgunverði. Sterk tengsl eru á milli bætts námsárangurs og morgunverðarneyslu og börn sem neyta morgnunverðar eru almennt betur nærð en þau sem sleppa honum. Ástæðan tengist lágum blóðsykri sem meðal annars lýsir sér í þreytu, slappleika, einbeitingarskorti og eirðarleysi.
Dæmi: Barn sem fer að sofa klukkan 22:00 og borðar ekkert fyrr en um hádegisbil næsta dag þjáist líklega af lágum blóðsykri. Sykurbirgðir lifur eru uppurnar og þar með hefur blóðsykurinn fallið óeðlilega.
Sjá einnig: Kvíðaraskanir hjá börnum og unglingum
Foreldrar eru fyrirmynd
Foreldrar eru í flestum tilfellum helstu mótendur barna sinna og því er mikilvægt að þeir geri jákvæðar breytingar (ef þörf er á) á mataræði- og hreyfivenjum sínum því að annars taka börnin ekkert mark á þeim. Hvaða foreldri getur til að mynda ætlast til þess að barnið fái sér epli ef mamman/pabbinn eru á sama tíma að gæða sér á súkkulaði eða kartöfluflögum? Ef foreldrar hafa tileinkað sér gott mataræði eru allar líkur á því að börn þeirra geri slíkt hið sama.
Heimild:
Lífsþróttur – næringarfræði almennings. Hólar.
Lestu fleiri áhugaverðar greinar á