Hvaða stjórnmálaflokkar vilja foreldrajafnrétti?

“Foreldrajafnrétti er mannréttindafélag sem stendur fyrir rétti barna til beggja foreldra sinna og jöfnum rétti foreldra til að sinna foreldrahlutverki sínu óháð fjölskyldugerð. Félagið vill stuðla að málefnalegri og upplýstri umræðu um stöðu barna og foreldra, á þann hátt að löggjafinn, framkvæmda- og dómsvaldið tryggi börnum þann rétt að alast upp með báðum foreldrum.” Þetta segir á síðu samtakana en samtökin hafa barist fyrir þeim einföldu mannréttindum barna að fá að umgangast báða foreldra sína. Samtökin vilja að leggja áherslu á að báðir foreldrar fái að sinna uppeldi og þroska barna sinna burtséð frá því hvort þau búi saman eða ekki.

Samtökin um foreldrajafnrétti vilja jafna búsetu skilnaðarbarna eða tvöfalt lögheimili, en mikið hefur verið rætt um það að faðir sem á barn sem á lögheimili hjá móður er ekki skráður faðir í kerfinu.

Feður sem hafa barnið jafn mikið og móðir þurfa í dag að borga meðlag til móður og lögheimilisforeldri fær einnig barnabætur. Þarna er aðstaðan mjög slæm vegna þess að faðir sem þarf alveg jafn mikinn stuðning og móðir, ef umgengni er 50/50 á engan rétt á barnabótum né meðlagi, hann þarf hinsvegar að borga það! Í sumum tilfellum geta foreldrar gert samning sín á milli en það er því miður ekki alltaf til boða og ef samningur er gerður er hann heldur ekki löglegur svo ef móðir skiptir um skoðun getur hún krafið föður um meðlag nokkra mánuði aftur í tímann. Þessu þarf að breyta.

Samtökin sendu öllum flokkum í framboði nokkrar spurningar og hafa fengið svör frá nokkrum sem þeir hafa birt á Facebook síðu sinni. Þú getur séð svörin hér.

Vinstri grænir er sá flokkur sem kom verst út úr þessum spurningum og virðast þessi mál ekki vera ofarlega  í forgangsröðinni. Svar þeirra við fyrstu spurningu hljóðar svona:

1. Að börn geti verið með skráð lögheimili á tveimur heimilum ?

Hvergi á Norðurlöndunum tíðkast að foreldrar geti samið um að barn eigi tvöfalt lögheimili. Vandamál við slíkt fyrirkomulag hér á landi getur tengst skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga, s.s. fræðsluskyldu og fjárhagsaðstoð sem bundin er sveitarfélagi. Hagsmunir barna eru að enginn vafi leiki á um þessa þætti.

Vinstri grænir vilja einnig að lögheimilisforeldri hafi þann rétt að flytja lögheimili barns og umgengnisforeldri geti ekki komið í veg fyrir það. Svar þeirra hljóðar svona:

4. Að takmarka lögheimilisflutninga barns sem hefur umgengni?

Í áðurnefndu frumvarpi að breytingum á barnalögum er ekki gert ráð fyrir að umgengnisforeldri geti komið í veg fyrir flutning lögheimlisforeldris og barns og er það að norskri og danskri fyrirmynd. Barni er talið fyrir bestu að lögheimilisforeldri hafi ákveðinn sveigjanleika í lífi sínu og barnsins, s.s. vegna breytinga á atvinnu eða vegna nýrrar fjölskyldu. Hins vegar er báðum foreldrum, ef fyrir liggur samningur eða dómur um umgengni, gert að tilkynna hinu um flutning með sex vikna fyrirvara svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir um breytingar á umgengni. Í greinargerð með frumvarpinu segir jafnframt: „Í þessu sambandi er vert að árétta að hagsmunum barns er almennt best borgið þegar foreldrum tekst að hafa jákvæð og uppbyggileg samskipti um öll atriði sem hafa afgerandi áhrif á líf barnsins. Hvetja verður báða foreldra til að taka ríkt tillit til hagsmuna barns áður en tekin er ákvörðun um að flytja, meta hvaða áhrif það hafi á stöðu barnsins, leggja sig fram um að ræða þessi atriði og að leita lausna ef þörf krefur með eins góðum fyrirvara og unnt er.“

Björt framtíð var flokkurinn sem kom einna best út, en Steingrímur Guðmundsson hefur barist fyrir því að lögheimili barna geti verið tvö og þetta er honum hjartans mál. Hér er svar Guðmundar við fyrstu spurningu:

1. Að börn geti verið með skráð lögheimili á tveimur heimilum?

Formaður Bjartrar framtíðar, Guðmundur Steingrímsson, lagði fram þingsályktunartillögu um þetta mál á síðasta þingi og mun beita sér fyrir þessu máli áfram. Fjölmörg börn búa á tveimur heimilum í raun. Rannsóknir sýna að það er börnum mjög til velfarnaðar að umgangast báða foreldra sína ríkulega eftir sambúðarslit. Löggjafinn á því að styðja þá foreldra sem kjósa að ala upp börnin sín saman eftir skilnað. Svarið er því já. Þó er Björt framtíð einnig opin fyrir því að smíðað verði sérstakt lagalegt hugtak um jafna búsetu sem næði sömu markmiðum og ef börn væru með tvö lögheimili. Jafnframt þarf að ræða hvað skilyrðum jöfn búseta/tvöfalt lögheimili eigi að vera háð. Það hljómar t.d. skynsamlega að gera það að skilyrði að báðir foreldrar séu sáttir við fyrirkomulagið og einnig að búseta foreldra geri barninu kleift að vera í einum skóla.

Guðmundur gaf einnig gott svar við annarri spurningu:

2. Að bæði heimili barns fái efnislegan stuðning vegna framfærslu þess?

Já. Það er alltof mikill mismunur á milli umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra. Að baki býr gömul og úrelt kynjamynd, þar sem gert er ráð fyrir að faðirinn hverfi nánast úr lífi barnsins eftir skilnað, en börnin verði eftir hjá móður, sem þurfi stuðning. Svona er veruleikinn ekki. Það er barni fyrir bestu að aðstaða umgengnis- og lögheimilisforeldra sé jöfnuð sem mest. Formaður Bjartrar framtíðar lagði fram þingsályktun á síðasta þingi um það, að umgengnisforeldrar yrðu skráðir í Þjóðskrá sem foreldrar. Það yrði fyrsta skrefið í átt að skynsamlegri stefnumörkun í þessum málum, og í raun ótrúlegt að fólk sem jafnvel hefur börn sín hjá sér hálft árið, eða aðra hverja viku, skuli ekki verið skráðir foreldrar í opinberum bókum. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á alla stefnumörkun í þessum málum, til hins verra.

Flokkurinn Dögun voru frekar afstöðulausir og svöruðu flestum spurningum á þá leið að þeir hefðu ekki tekið afstöðu til þessara mála. Flest svörin hlóðuðu svona: Ekki hefur verið tekin bein afstaða til þessa.

Sjálfstæðisflokkurinn kom vel út úr þessum spurningum og virðast þeir vilja að þessi mál séu endurskoðuð. Svar þeirra við spurningu:

2. Að bæði heimili barns fái efnislegan stuðning vegna framfærslu þess?

Sjálfstæðisflokkurinn telur að í lögum ætti sú meginregla að gilda við sameiginlega forsjá að kostnaður vegna umgengni skiptist jafnt á milli foreldra nema þeir ákveði annað í samningi eða sýslumaður úrskurði annað.

Framsóknarflokkurinn segist styðja fjölbreytt fjölskyldumynstur:

3. Að meðlag taki mið af umgengni?

Fjölskyldan í fjölbreyttri mynd er meginstoð og hornsteinn íslensks samfélags. Framsókn styður við fjölbreytileg fjölskyldumynstur. Ef tvöfalt lögheimili barna verður að veruleika líkt og framsóknarmenn vilja er vert að athuga hvort lög varðandi meðlög séu endurskoðað í kjölfarið.

Samfylkingin kom vel út líka og þetta er svar þeirra við mikilvægri spurningu er varðar tálmun:

8. Að núverandi löggjöf til að sporna við tilefnislausum tálmunum sé óásættanleg ?

Tilefnislausar tálmanir ættu að afnema. Þegar um er að ræða flókin mál og sem krefjast sér-úrlausna ætti að sjálfsögðu að vera einhver laga / reglugrunnur til að vísa í. Það er sjálfsagt hugmyndin með þessu. En almennt séð ættu reglur að vera skýrar og einfaltar svo framarlega sem það er hægt.

Þetta eru einu flokkarnir sem hafa svarað og samkvæmt þessu komu Björt Framtíð einna best út enda hefur Guðmundur Steingrímsson lagt fram ályktun um breytingar á þessum lögum. Vinstri grænir komu verst út fyrir þá sem berjast fyrir foreldrajafnrétti og vilja að eitthvað sé gert í þessum málum.

Við bendum á að þú getur lesið öll svörin á síðu Foreldrajafnréttis – https://www.facebook.com/Foreldrajafnretti

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here