Langar þig að líta út fyrir landsteinana? Heillast þú af borgarferðum? Ekki viss hvert ætti að stefna? Hvað með hættustig? Öryggi á götum úti? Viltu vera viss um að peningunum sé vel varið áður en þú festir kaup á flugmiða?
Á vefsíðu Conde Nast Traveller má sjá athyglisverðar niðurstöður könnunar sem gerð var og spannar bæði þær vingjarnlegustu og mest fráhrindandi stórborgir sem heimurinn hýsir á þessu herrans ári, en hér fara þær borgir sem verma fimm efstu sætin á báðum listum árið 2014.
[new_line]
5. Sydney, Ástralía:
Það er næstum óskrifuð regla að allir tala vel um Sidney; höfuðborg þeirra sem eru hip og kúl. Allir brosa í Ástralíu og svo virðist sem ástin ráði ríkjum á hverju götuhorni. Fallegar strandir og guðdómleg smábátahöfn, vingjarnlegasta fólk heims og þá er maturinn óupptalinn …
[new_line]
4. Dublin, Írland:
Partýið er hafið og það er í Dublin! Borgin iðar af lífi og sköpun, grænir garðar eru á hverju götuhorni og svo eru Írarnir svo viðkunnalegir að það er næsta víst að þú eignast vini á næstu hverfiskrá ef þú staldrar við lengur en sólarhring.
[new_line]
3. Charleston, Suður Karólína, Bandaríkin
Þú hefur þó ekki hugleitt að heimsækja Bandaríkin í ár? Charleston er sögn guðdómlegur gimsteinn sem er að finna í suðurríkjunum og flestir þeir sem heimsótt hafa borgina og tóku þátt í könnuninni sögðust geta hugsað sér að flytja búferlum til Charleston. Borgin iðar af ríkri sögu og menningu, fegurð og tærleika ásamt undursamlegri matargerð, antíkverslunum og listasöfnum.
[new_line]
2. Viktoría, Kanada:
Kanadamenn eru ekki bara vingjarnlegir, heldur geymir borgin þessi ógrynni af dásemdum sem vert er að veita athygli. Lesendur Conde Nast sögðu þannig að kaffihúsin væru dásamleg, vínsmökkun væri á hverju horni og að innri höfnin væri svo falleg ásýndar að vel væri hægt a vafra þar um daglangt án þess að fá nokkru sinni botn í daginn.
[new_line]
1. Melbourne, Ástralía:
Oftlega sögð ein fágaðasta borg veraldar og stútfull af glæstum lystigörðum sem guðdómlegri götulist. Melbourne er falleg borg, íbúar hennar eru vingjarnlegir og þekktir fyrir skemmtilegt skopskyn sitt, að ekki sé minnst á litríkt næturlífið, matinn, hótelin og svalt yfirbragð þeirra sem borgina sækja heim.
En þar með er ekki öll sagan sögð, því þær borgir sem höfnuðu á skammarlista Conde Nast í ár eru einnig gullfallegar með eindæmum og státa af gríðarlega merkilegri menningarsögu. Þrátt fyrir langa sögu, þrungna merkisatburðum úr mannkynssögunni og gullfallegt yfirbragð rötuðu eftirtaldar borgir í fimm efstu sætin yfir erfiðustu stórborgir heims árið 2014:
[new_line]
5. Marseille, Frakkland:
Óhrein og yfirfull strandsvæði, glæpaalda og leiðinlega ágengir íbúar eru meðal þeirra atriða sem gera Marseille að óaðlaðandi og fráhrindandi áfangastað fyrir ferðalanga í ár. Há tíðni vasaþjófnaðar kastar skugga á borgina og í raun er best fyrir ferðamenn að halda sig utan helstu ferðamannasvæða innan borgarinnar. Sem svo aftur … er ekki spennandi tilhugsun.
[new_line]
4. París, Frakkland:
Borg ljósanna eða borg elskenda er hún oft kölluð og ekki að ástæðulausu; París er oftlega nefnd rómantískasti áfangastaður heims. En viðhorf íbúa til ferðamanna er kaldlyndislegt, hrokafullt og niðurdrepandi samkvæmt Conde Nast. Frakkar eru taldir dónalegir og beittir, óhjálplegir og er augljóslega í nöp við ferðafólk. Svo jafnvel er full ástæða til að taka með derhúfu, landakort og uppdjarft yfirlit ef ætlunin er að heimsækja París.
[new_line]
3. Moskva, Rússland:
Höfuðborg Rússlands er sögð hættuleg, kaldlyndisleg og íbúarnir gjarna árásargjarnir. Einhverjir telja jafnvel að um erfiðleika tengda tungumálahöftum sé um að kenna, en aðrir segja rússnesku þjóðarsálina margslungna, óútreiknanlega og ekki örugga ferðafólki. Engu að síður virðist það ekki hafa staðið í vegi fyrir öllum þeim fjölda ferðafólks sem leggur leið sína þangað árlega.
[new_line]
2. Cannes, Frakkland:
Og enn liggur leiðin til Frakklands, en tvær aðrar franskar borgir hafna á lista yfir lítt álitlegustu áfangastaði ferðafólks í ár. Cannes kann að hýsa eina frægustu kvikmyndahátíð heims á hverju ári, en borgin sjálf er sögð vera leiðigjörn, litlaus og óálitleg, hvað sem það nú merkir. Þá segir Conde Nast íbúa Cannes vera áhugalausa, viðbragðslata og óvingjarnlega með eindæmum. Dæmi hver fyrir sig …
[new_line]
1. Jóhannesarborg, suður Afríka:
Borgin er sögð vera ein sú fallegasta í heimi, en því er öðruvísi farið um öryggi íbúanna. Ekki er talið öruggt að vera einn á ferð í Jóhannesarborg og þannig listuðu lesendur Conde Nast borgina beinlínis hættulega ferðafólki; borgin mun vera margslungin, víðfemd og full andstæðna. Engu að síður er borgarlandslagið glæst, menningarlífið fjölþætt og magnað og verslunarleiðangrar geta snúist upp í sannkallað ævintýri.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.