Hveiti- og sykurlaust bananabrauð

Jæja, við erum hvað flest ennþá með glassúrslefuna í munnvikinu eftir gærdaginn. Mögulega búin að hneppa frá buxunum fyrir saltkjötsveislu kvöldsins. Og klár í að hnupla sælgæti frá börnunum okkar á morgun.

Er ekki tilvalið að hræra í einn meinhollan brauðhleif svona inn á milli þess sem við sjúgum í okkur salt, sælgæti og rjóma? Jú, ég hefði nú haldið það. Þessi ljúffenga uppskrift kemur af blogginu hennar Tinnu Bjargar – sem ég hvet ykkur auðvitað til þess að fylgjast með. Bananabrauðið sem um ræðir inniheldur hvorki hveiti né sykur en er samt sem áður ofboðslega mjúkt sætt og gott – gefur þeim sykruðu svo sannarlega ekkert eftir.

IMG_8206

Hveiti- og sykurlaust bananabrauð

1 dl Sukrin

2 egg

1 tsk salt

1/2 tsk matarsódi

3-4 stappaðir bananar

5 dl malað haframjöl

handfylli heslihnetur

  • Hrærið Sukrin og eggjum saman í skál ásamt salti og matarsóda. Blandið stöppuðum bönunum og möluðu haframjöli saman við. Smyrjið brauðform, smyrjið deiginu í og sáldrið heslihnetum jafnt yfir. Bakið við 180° í 45-50 mínútur eða þar til bananabrauðið verður svolítið dökkt.
  • Athugið að haframjölið er fínmalað í blandara eða matvinnsluvél áður en það er mælt.
  • Þeir sem vilja hafa bananabrauðið mjög sætt setja 4 banana í deigið, mér finnst nægja að hafa þá 3 eða 3 og 1/2. Heslihneturnar ofan á brauðinu þykja mér ómissandi. Þær ristast í ofninum og verða svo dásamlega stökkar og bragðgóðar.

Tengdar greinar:

Sykurlaus eplakaka með pekanhnetukurli – uppskrift

8 leiðir til að gera kaffið þitt súperhollt

Dásamleg súkkulaðikaka án hveitis

SHARE