Hver er í fjölskyldunni?

 

Stundum hreykir fólk sér af frændsemi og tengslum við aðra sem þótt hefur skara fram úr. Hafi viðkomandi  til dæmis unnið til verðlauna vegna andlegs atgerfis eða útlits er hann gjarnan „meira“ tengdur  viðkomandi,  en sá sem hefur sýnt hegðun sem ekki þykir til eftirbreytni.  Það er þó ekki algilt frekar en annað.  Kannski skiptir tíminn einhverju máli í því samhengi.  Það þykir til að mynda frekar fínt í Ástralíu að geta rakið ættir sínar til „glæpamannanna“ sem Bretar losuðu sig við á sínum tíma.  Stundum var eini „glæpur“  þeirra, fátækt.

Sjá einnig: Stjúptengsl: Í Matador með lúdóreglum

Þegar kemur að því að velta fyrir okkur hver tilheyrir frændgarði  okkar og fjölskyldu vefst það síður  fyrir fólki sem ekki hefur reynslu af skilnað eða sambandsslitum en þeim sem hafa þá reynslu í farteskinu.  Börnin, hvort sem þau eru ung eða fullorðin, tilheyra fjölskyldu foreldra sinna og foreldarnir  fjölskyldu barna sinna.   Ef einhver þykir hafa sýnt óviðeigandi lífsstíl eða hegðun er hann í versta falli  talinn vera „svarti sauðurinn“ í fjölskyldunni og fáir myndu gera athugasemd við það þó hann vildi vera með á fjölskyldumyndinni á ættarmótinu fyrir austan.  Makar,  tengdaforeldrar og tengdabörn,  teljast líka venjulega til fjölskyldunnar  hvort sem samskiptin þykja  góð og uppbyggileg eða erfið og niðurrífandi.

Óhjákvæmilega fylgja breytingar skilnaði og nýju sambandi. Sumar eru nokkuð fyrirsjáanlegar en aðrar koma á óvart eins og  að börn og foreldrar skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en áður. Ástæðan er sú að sjaldnast nefna fyrrverandi makar hvorn annan sem hluta af fjölskyldu sinni en tilheyra þó oftast áfram fjölskyldu barna sinna.  Þegar foreldrar fara í nýja sambúð eða hjónaband bætist við maki og stundum börn hans,  sem verður til þess að margir skilgreina fjölskyldu sína upp á nýtt. Það er hinsvegar ekki  sjálfgefið að þótt fólk deili heimili að það telji hvort annað til fjölskyldu sinnar. Ef börnum líkar til að mynda ekki við stjúpforeldri sitt eða ef stjúpforeldrið hefur ekki náð að tengjast stjúpbarninu eru minni líkur á að viðkomandi teljist til fjölskyldu þess en ella.  Að upplifa sig útundan er vond tilfinning, á það bæði við um börn og fullorðna. Við þurfum öll á viðurkenningu að halda. Það kann að koma sumum á óvart að viðkenning stjúpbarna skiptir stjúpforeldra máli og að þeir hafa trú á því í fyrstu að stjúpfjölskyldur verði nánari með tímanum.  Börn eru hinsvegar mistilbúin til þess í fyrstu að taka þeim og þá er hætta á að stjúpforeldri sem reynt hefur eftir bestu geti að tengjast þeim,  upplif höfnun séu þau ekki reiðbúin.   Séu samskipti maka stjúpforeldrisins við fyrrverandi maka líka erfið eru meiri líkur á að stjúpforeldrið finnist  barnið og allt sem því  viðkemur smá saman verða vandamál og vill sem minnst af því vita. Jafnframt fylgir streita þessum aðstæðum sem  bitnar bæði á börnum og fullorðnum. Hætta er á að sá stuðningur sem mögulega var fyrir hendi í fyrstu minnki eða hverfi en tengsl segja til um hversu mikinn eða lítils stuðnings er að vænta af viðkomandi og hvort fólk treysti sér til að leita eftir honum þegar á þarf að halda.

Sjá einnig: Ófullkomnar stjúpmæður – Bréf frá stjúpu

Stjúpfjölskyldur þurfa stuðning og að vita hvað er normalt fyrir þær, í stað þess að reyna bera sig saman við fjölskyldur þar sem öll börn eru sameiginleg. Jafnfram þarf að vinna í að koma á góðum samskiptum við fyrrverandi maka/barnsföður eða –móður,  séu þau ekki í lagi.

Meiri líkur eru á að stjúpforeldrar – og börn fái stuðning og veiti stuðning séu góð tengsl fyrir hendi. Stundum þarf fólk að læra hvað hjálpar þannig að þétta megi tengslanetið og fleiri fái að tilheyra fjölskyldu viðkomandi. Það ber því að fagna þeirri vinnu sem farin er af stað hjá hinu opinbera að móta fjölskyldustefnu sem tekur mið af margbreytileikanum – og ekki síst auknum áhuga almennings á málefninu.

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi MA

Upplýsingar um námskeið og fleira er að finna á stjuptengsl@stjuptengsl.is

Fleiri greinar um stjúpfjölskyldur eru á stjuptengsl

SHARE