Hver er ofurkrafturinn þinn?

Ég var á alþjóðlegri ráðstefnu um fatlanir og margbreytileika á Hawaii í apríl og þar hlustaði ég á marga áhugaverða fyrirlestra og sannfærðist enn frekar um þá trú mína að það býr sterkur einstaklingur inn í okkur öllum. Stundum þarf fólk bara aðstoð við að ná styrkinum fram.

Ég sat fyrirlestur hjá ungum strák sem var í hjólastól og þessi ungi strákur talaði svo fallega um það hvernig það var erfitt þegar hann var yngri að vera „öðruvísi“ s.s í hjólastól og alla þá vanlíðan sem hann hafði upplifað, litla sjálfsmatið og ekki svo spennandi framtíð.

En aðaláherslan hans var á að hann hefði þroskast og sjálfsmyndin hans styrkst með hjálp góðs fólks og að í dag vissi hann að hann gæti allt sem hann langaði til að gera og allar hindranir væru hans eigin tilbúningur. Hann væri heppinn að hjólastóllinn væri hans eigin fætur.

Í dag er hann búin að elta draumana sína. Hann gerðist leikari og lék í kvikmynd. Áður hefði brotna sjálfið hans ekki einu sinni leyft honum að láta sig dreyma um eitthvað svona stórt!

Það sem gerði fyrirlesturinn enn magnaðri var að með honum var aðstoðamaður hans en það var miðaldra karlamaður sem hafði misst sjónina þegar hann gegndi herþjónustu í Afganistan.

Þessi blindi aðstoðamaður hans sagði okkur frá áfallinu og niðurbrotinu, uppgjöfinni og öllum erfiðu tilfinningunum sem hann fór í gegnum þegar hann missti sjónina.

Sjá einnig: Efldu sjálfsmynd barnsins þíns

En líkt og hjá unga stráknum var aðaláhersla hans á það hvernig hann vann að því að takast á við breyttar aðstæður og fékk hjálp við að byggja upp sjálfið og fá trú á eigin getu. Hann stefnir að því að verða kennari, sér enga hindrun í því að kennari sé blindur.

Báðir þessir menn snertu virkilega við hjarta mínu og staðfestu þá trú mína að sterk sjálfsmynd er algerlega grunnurinn að góðum lífsgæðum.

Ungi maðurinn skildi svo allan hópin sem sat á fyrirlestrinum eftir með þessa spurningu:

„Hver er þinn ofurkraftur?“

Mögnuð spurning því öll eigum við einhvern ofurkraft innra með okkur, þar liggur styrkurinn.

Kristín Snorradóttir

Heimasíða Sterk saman og Facebook.

SHARE