Eins mikið og ég elska föndur að þá elska ég líka að stytta mér leið, að gera lífið aðeins auðveldara. Hey, ég er útivinnandi mamma með 2 börn, ef það eru leiðir þarna úti sem geta gefið mér meiri tíma til að föndra, þá stekk ég á þær.
1. Að losna við límmiða.
Ég endurnýti glerkrukkur mikið, og það er óskup auðvelt að losna við límmiða af þeim, bara láta krukkuna liggja í heitu vatni og sápu og svo er það bara skrúbburinn sem gildir. En þegar miðinn sem þú vilt losna við er á tréskilti þá vandast málið. En með því að sækja hárþurrkuna þína og láta blása á miðann í nokkrar mínútur þá verður miklu auðveldara að kroppa hann af. Hárþurrkan þín verður líka besta vinkona þín ef þú ert að flýta þér og þarft að láta málingu þorna extra fljótt.
2. Tíminn þinn er dýrmætur, skipulegðu hann.
Þetta er eitt af því sem ég geri alltaf. Ef þú ert t.d. að mála eitthvað og þarft að fara aðra umferð, reyndu þá að fara fyrri umferðina t.d. áður en þú eldar kvöldmatinn. Svo þegar þið eruð búin að borða og ganga frá þá og börnin söfnuð er komið að því að fara seinni umferðina og þú þarft ekki að eyða tíma í að horfa á málingu þorna.
3. Ekki vera hrædd(ur) við að hugsa út fyrir kassann.
Ok, þetta ráð er kannski ekki til að flýta fyrir en þetta er samt föndur-ráðlegging og þess vegna læt ég það fljóta með. Ef þú sérð eitthvað og hugsar “gæti ég notað þetta öðruvísi?”, prófaðu bara. Ég hef keypt kertastjaka og aldrei notað þá sem slíka, ég hef keypt ótrúlega marga ramma og aldrei látið mynd í þá. Og veistu, ég hef alltaf verið svo ánægð með árangurinn.
4. Notaðu það sem þú átt heima.
Vissir þú t.d. að þú getur notað hringinn ofan af gosdósum til að festa upp skilti? Bara taka hann af dósinni, beygja hann aðeins til, finna miðjuna aftan á skiltinu og setja svo nóg af heitu lími. Þetta heldur ekki þungum skiltum en virkar mjög vel á lítil létt skilti. Og það besta er, þú eyddir ekki krónu, þú þurftir ekki einu sinni að fara út í búð.
5. Þegar þú ert ekki viss.
Ef þú ert ekki viss um eitthvað, t.d. hvort að þessi borði passi við þennan lit, eða hvort að þú eigir að bæta blúndu við verkefnið sem þú ert að vinna við, prófaðu þá að setja þetta saman eins og þú ætlar (kannski) að hafa það og labbaðu í burtu. Komndu svo aftur eftir smá tíma og þá sérðu e.t.v. betur hvort að hlutirnir passi saman eða ekki. Ég geri þetta mikið, aðallega þegar ég er að skrappa. Þá set ég upp síðuna án þess að líma nokkuð niður, þegar ég kem aftur þá sé ég oftast hvort að þetta virki saman eða ekki.
6. Sparaðu þegar þú málar.
Ég elska að mála,ég elska að spara og ég elska að fara á kaffihús. Núna ertu líklegast að hugsa hvað þetta eigi sameiginlegt. Sko, þú veist litlu tréprikin á kaffihúsunum sem þú getur fengið til að hræra í kaffinu þínu eða teinu? Þau virka fullkomlega til að hræra í málingunni þinni. Og ef þú ert að vinna í einhverju litlu verkefni, þá mæli ég með prufudósunum í málingarbúðunum. Ég mæli hinsvegar ekki með að hálfloka málinguardós áður en þú gengur frá henni niður í skúffu.
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.