Þetta er sá líkamshluti sem er flestum karlmönnum hvað mikilvægastur svo það er áríðandi að halda honum hreinum og heilbrigðum svo hann geti þjónað sínum tilgangi sem best. Með því að annast þennan líkamshluta vel gagnast það ekki eingöngu sjálfum þér vel heldur bólfélaganum líka.
Það eru ótrúlega margir karlmenn sem eru ekki að þrífa vel undir forhúðinni og lenda þannig í því að fá sýkingar og önnur vandamál auk þess sem það getur verið mjög óaðlaðandi fyrir bólfélagann.
Þvoðu typpið og kónginn vandlega með volgu vatni á hverjum degi þegar þú ferð í sturtu eða bað. Íslenskir karlmenn eru sjaldan umskornir og þurfa því að gæta þess að draga forhúðina tilbaka og þvo undir henni.
Ef það er ekki gert safnast saman hvítleit skán sem líkist smurosti og er kölluð á ensku „smegma“
Smegma er náttúrulegt sleipiefni sem heldur húiðnni á kónginum rakri og auðveldar hreyfingu á forhúðinni. Ef það safnast saman og er ekki þvegið burt fer það að lykta illa, það verður erfiðara að draga forhúðina tilbaka og það geta myndast kjöraðstæður fyrir bakteríur. Þetta getur svo valdið sýkingu sem kallast „balanitis“
Gott hreinlæti er mikilvægt en of mikil sápa eða sturtugel getur valdið ertingu, roða og sársauka.
Volgt vatn dugar og sápa er óþörf ef þú þværð þér daglega. Ef þú vilt endilega nota sápu þá þarf að gæta þess að nota hana sparlega , nota ilmefnalausa og helst ofnæmisprófaða sápu og skola hana vel af til að draga úr hættu á ertingu. Aldrei má setja púður eða lyktareyðandi af neinu tagi undir forhúðina því það veldur ertingu.
Umskornir karlmenn þurfa að þrífa sig daglega með sama hætti, nota vatn dag og helst enga sápu.
Fyrir kynþroska
Það á aldrei að þvínga forhúð tilbaka á ungabarni eða ungum drengjum vegna þess að það getur verið sárt og valdið skaða. Forhúðin getur verið föst við kónginn og dregst þannig ekki tilbaka að fullu. Það er ekki þörf á að þrífa undir forhúð hjá ungum drengjum.
Pungur, og nárasvæði
Ekki má gleyma að þvo punginn og nárasvæðið, þar sem vond lykt og sviti getur festst í hárunum og á húðinni og kallað fram vonda lykt rétt eins og í handarkrikanum. Þetta svæði þarf að þvo reglulega til að koma í veg fyrir uppsöfnun á svita og dauðum húðflögum sérstaklega vegna þess að þau eru umlukin nærfatnaði meirihluta sólarhringsins. Gæta þarf vel að því að þvo líka svæðið frá pung og aftur að endaþarmi.
Sjálfskoðun á eistum
Góð regla er svo að þreifa eistun í sturtu einu sinni í mánuði rétt eins og konur þreifa brjóstin.
Sjálfskoðun á eistum er mikilvæg leið til að finna einkenni um krabbamein í eistum snemma. Með því að skoða eistun reglulega áttarðu þig á því hvernig þau eru venjulega. Þannig tekurðu fyrr eftir því ef einhverjar breytingar verða.
Þannig framkvæmir þú sjálfskoðun eistna:
• Skoðaðu eistun einu sinni í mánuði.
• Best er að skoða eistun í eða strax eftir bað/sturtu því að þá er pungurinn slakur.
• Stattu fyrir framan spegil og athugaðu hvort þú sérð bólgu eða eitthvað annað óvenjulegt í pungnum.
• Skoðaðu annað eistað í einu.
• Taktu punginn í lófann og finndu stærð og lögun eistnanna.
• Taktu utan um annað eistað með þumalfingri og vísifingri beggja handa.
• Rúllaðu eistanu milli fingranna og leitaðu að hnút í eða utan á eistanu.
• Endurtaktu skoðunina á hinu eistanu.
Athugaðu að:
• Annað eistað er líklega stærra en hitt og liggur lægra. Það er eðlilegt.
• Hnútur í eista getur verið mjög smár, eins og baun eða hrísgrjón.
• Ofan á bakhlið eistans liggur eistnalyppan. Mikilvægt er að læra að þekkja hana til aðgreiningar frá hugsanlegum hnútum. Eistað er almennt slétt og mjúkt viðkomu. Eistnalyppan er hins vegar óregluleg og jafnvel aum viðkomu.
Heimildir:
http://www.nhs.uk/Livewell/penis-health/Pages/how-to-wash-a-penis.aspx
http://www.krabb.is/Assets/fraedsla/fraedslurit/20110530gagnlegarupplysingarumkrabbameinieistum.pdf
Birt með góðfúslegu leyfi Doktor.is