ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS
Ég er 14 að verða 15 ára gömul stúlka og bý í Reykjavík. Mér finnst ég alltaf vera útundan. Nú er nokkuð liðið á unglingsárin hjá mér, og mér finnst ég alltaf vera útundan af því ég klæði mig ekki í allt of „sexy“ föt eins og aðrar stelpur, heldur reyni ég að klæða mig í þægileg og flott föt.
Ég mála mig ekki heldur, því ég æfi sund og hverjum finnst ekki asnalegt að fara í sund með maskara og hann lekur svo út um allt? Til hvers þá að mála sig bara til þess að fara í skólann og fara svo heim í flýti og ná málningunni af sér til þess að fara á æfingu? Kallast það ekki sóun á góðum snyrtivörum? Ég mála mig reyndar þegar ég fer eitthvað fínt svo ég er ekki alveg úr tísku.
Líkamlega er ég hraust og með flottan líkama, en samt líður mér alltaf eins og ég sé of feit miðað við aðrar stelpur t.d. stelpurnar í bekknum. Jú okey ég verð að viðurkenna að ég er dálítið mjaðmamikil og lít því út eins og ég sé með dálítið spik á lærum, mjöðmum og baki. En samt er ég með „næstum“ flatan maga og með smá „sixpack“ og er sátt með það. En hvaða unglingsstúlkur eru ekki byrjaðar að bera sig saman við aðrar stelpur og spá í útlit sitt á þessum aldri? Það væri geðveikt ef maður væri ekki alltaf að reyna að laga línunnar og bera sig saman við aðrar stelpur.
Hvaða stelpur og jafnvel fullorðnar konur kannast ekki við það mánaðalega vandamál sem kallast á einfaldri í íslensku „blæðingar“. Jú auðvitað er þetta hluti af lífi ALLRA kvenna en vá hvað þetta er pirrandi tímabil. Manni líður alltaf eins og maður sé ógeðslega óhrein og ekki búin að fara í sturtu í svona 2 daga. Það fyndna er samt að þegar ég fer á túr reyni ég ósjálfrátt að labba eins og spýtukarl og er alltaf að hafa áhyggjur af hvort það hafi farið blóð út fyrir dömubindið og í gegnum buxurnar. En ég meina svona er lífið. Eigum við eitthvað að þurfa að tala um túrverkina, nei ég hélt ekki, ég vissi nú fyrir að allar stúlkur könnuðust við þá.
Ég hef oft spáð í framtíðina t.d. hvernig verður maki minn, en börnin mín og atvinna mín? Oft þegar stúlkur og jafnvel strákar eru komin í efstu bekki grunnskóla fara þau oft að spá í framtíðinni. Því jú þú ert að verða búin í grunnskóla og svo ferðu bara í framhaldsskóla og svo í rauninni er lífið bara byrjað. Eins og ég hef oft heyrt eru unglingsárin skemmtilegur tími því þú ert að þroskast og mynda þér vonir um framtíðinna. Eins og núna er ég í 10. bekk og er næst að fara í framhaldsskóla og er strax spennt fyrir framtíð minni.
Ég vona að þið stúlkur sem lesið þetta hafið lært það allar erum við missjafnar og þetta var einungis brot úr lífi unglingsstúlku frá minni reynslu. Ef einhverjir drengir hafa lesið þetta þá vona ég að þeir hafi haft gaman af þessu og hafa fengið tækifæri til að skyggnast inn í braot af lífi unglingsstúlku.