Hvernig er best að frysta berin?

Það eru margir að tína ber þessa dagana, þrátt fyrir að sagt hafi verið frá því í fréttum að lítið væri  um ber þetta árið. Það er svo sannarlega rétt en það eru samt sem áður ber hér og þar um landið sem hægt er að tína.

 

Ég er algjör berjasjúklingur og hreinlega elska aðalbláber og krækiber. Mér finnst þau svo góð. Ég fer yfirleitt í heljarinnar berjamó í sveitinni minni en þetta árið hefur ekki viðrað vel á Ströndunum svo það hefur verið lítið um ber. Ég fór því bara í berjamó í nágrenni borgarinnar og fann alveg slatta af bláberjum og var nokkuð sátt bara. Ég er nefnilega að verða búin með uppskeru seinasta sumars en ég á alltaf bláber í frystinum yfir veturinn. Ég nota berin í boost, set í amerískar pönnukökur og borða þau stundum bara frosin úr glasi. MMMMmmmm! Það er ekkert betra.

 

Mig langaði að deila með ykkur frábærri aðferð til að frysta berin svo þau klessist ekki saman og verði að einu bláberjaklakabúnti. Þegar ég var að alast upp var oft settur sykur á berin áður en þau færu í frost sem átti að aftra því að þau festust saman. Mér finnst betra, til þess að þurfa ekki að sykra berin, að leggja þau í eldfast mót, eða ofnskúffu og frysta þannig.

20150829_222152

Mjög mikilvægt er að setja berin á smjörpappír. Setja bara einfalt lag af berjum, ekki láta berin vera í haug. Settu aðra umferð af smjörpappír, ber ofan á pappírinn og svo koll af kolli.

 

Þegar þau hafa verið í frysti yfir nótt geturðu svo einfaldlega tekið smjörpappírinn upp og sturtað ofan í ílát sem þú svo setur í frystinn aftur. Þau eru laus í sér og gaddfreðin. Algjör snilld.

Ég hugsa svolítið um umhverfið eins og mér var kennt í uppeldinu og þess vegna frysti ég berin helst í tómum mjólkurfernum. Ég opna þær alveg að ofan og skola og læt þorna yfir nótt á hvolfi. Svo helli ég berjunum ofan í og get svo brotið toppinn aftur saman og notað klemmu á endann. Ótrúlega handhægt og þægilegt að raða í frystinn og hella berjunum úr.

 

—————

Fylgstu með!

Kidda á Instagram

Hún.is á Instagram

Kidda á Snapchat: kiddasvarf

Hún.is á Snapchat: hun_snappar

 

 

SHARE