Til að fá fallegt og endingargott naglalakk er nauðsynlegt að fylgja nokkrum skrefum. Við byrjum á að þjala neglurnar og fjarlægja naglabandahimnuna sem er efst á nöglinni alveg við naglaböndin, það gerum við með naglabandaeyði og orange pinna. Setjum örlítið af naglabandaeyði efst á nöglina og leyfum því að virka í smá stund, nauðsynlegt að lesa leiðbeiningar sem fylgja eyðinum því þeir eru mjög missterkir.
Eftir hæfilegan tíma strjúkum við varlega yfir með pinna og passa að gera ekki of fast til að særa ekki nöglina eða naglaböndin. Þegar því er lokið fituhreinsum við nöglina með því að strjúka yfir hana með sótthreinsi, mér finnst best að nota tissue í stað bómullar því það vill oft festast á nöglinni leifar af bómullinni sem eyðileggur áferð lakksins. Því næst er sett undirlakk en það er notað til að nöglin drekki ekki í sig lit naglalakksins og til auka endingu því undirlökk bindast nöglinni betur en venjuleg lökk. Eftir það kemur litaða lakkið og til að fá sem fallegasta áferð er best að setja tvær þunnar umferðir.
Í fyrri umferðinni erum við aðallega að leggja áherslu á að fá fallegan boga upp við naglaböndin, áferðin í þeirri umferð skiptir ekki máli því hægt er að laga hana í næstu umferð. Því næst setjum við yfirlakk og það er notað til að auka endingu og fá fallegan glans. Til að endingin veriði sem allra best er nauðsynlegt að láta lakkið ná fram yfir brúnina.
Gleðilega naglalökkun!
Vilt þú senda fyrirspurn til snyrtifræðings? Sendu þá póst á inga@hun.is
Inga er fædd og uppalin í Reykjavík fyrir utan 2 ár sem hún bjó fyrir vestan í Bolungarvík. Þessi gifta, þriggja barna móðir er menntuð snyrtifræðingur og hefur unnið við það síðan 2006. Snyrtifræðin á stóran hluta af hug hennar og fagnaði hún þessu tækifæri að fá að skrifa greinar og jafnvel fá að aðstoða lesendur við vanda/spurningar sem þeir mögulega hafa.