Hvers vegna er svona erfitt að búa saman?

Við búum í samfélagi, sem leggur áherslu á að fólk sé eðlilegt, að öðrum finnist maður eðlilegur að minnsta kosti, þar sem þess er krafist, að við séum glöð og hamingjusöm, annars ætti maður að skammast sín, þegar þvílík lífsgæði og velmegun eru innan seilingar. Lítum á annað fólk, sem virðist svífa um á hamingjuskýi. Fullkomin heimili þeirra, fullkomið útlitið, æskan, fegurðin, ríkidæmið, velheppnaðar veislur með frábærum mat, matreiddum í sérhönnuðum eldhúsum með gljáandi frönskum áhöldum. Hjá þeim er að sjálfsögðu enginn ágreiningur um kynjahlutverk. Þau keyptu saman í matinn og bjuggu hann til í ljúfri einingu. Allt gerist þetta á frumlegan og listfengan hátt og enginn hnýtir í annan. Börnin þeirra koma síðan hrein og hugguleg og bjóða kurteislega góða nótt.

Hvers vegna finnst mér mitt líf ekki vera þannig? Hvers vegna rífumst við? Hvers vegna eru börnin mín ekki til fyrirmyndar og líða gegn um skólaárin vandræðalaust? Hvers vegna eru þau svona frek og gagnrýnin? Finnst þeim við foreldrarnir vera gamlir, skilningslausir steingervingar?

En það er ekki í tísku að vera óhamingjusamur? Þá hlýtur að vera eitthvað að manni, nema raunveruleg áðstæða sé fyrir óhamingjunni, dauðsfall, atvinnuleysi eða önnur ósköp, t.d. ógn um skilnað.

Okkur hefur verið innrætt, að það sé óeðlilegt að vera óhamingjusamur, svo að við þorum ekki að tala um raunverulega líðan okkar. Þess í stað kvörtum við yfir sköttunum, þjóðfélaginu, ríkisstjórninni og útlendingum finnst við vera fúl. Þetta er afneitun. Óánægjunni er varpað á eitthvað utanaðkomandi – en ekki horfst í augu við hana.

Við göngum um með leyndarmál og sektarkennd. samviskubit, ófullnægðar þarfir og vaxandi einmanaleika. Það hlýtur eitthvað að vara að okkur sjálfum, ef við erum ekki nógu hamingjusöm. Ég hef það ekki verra en aðrir en það er minna í mig varið en annað fólk.

En ef til vill er raunveruleg ástæða fyrir óhamingjunni og vansældinni, en okkur skortir kjark eða vilja til að grafast fyrir um ástæðuna, eða við getum ekki horfst í augu við raunveruleikann. Það gæti þýtt að við þyrftum að taka óæskilegum afleiðingum, t.d. taka frumkvæðið og ræða við makann, eða fara okkar leið.

En lífið er ekki rólegt og átakalaust. Átök eru nauðsynleg fyrir breytingu og þroska. Ég staðhæfi að allar manneskjur lifi einhvern tíma tímabil, þegar allt er öfugsnúiði og virðist tilgangslaust, þegar tilveran snýst gegn þeim og ekki er hægt að njóta eftirsóknarverðrar hamingju í ró og næði.

Flestum hjónaböndum er hætt við að springa.

Mörg hjón leggja það líka í vana sinn að hóta hvort öðru með skilnaði. Það getur verið hættulegur leikur. Sá, sem verður fyrir slíkum hótunum gæti endað með því einn daginn að taka hinn á orðinu og hafa sjálfur frumkvæðið að skilnaði.

tilfinningar milli hjóa ganga gjarnan í bylgjum. Á stundum eru þau ástfangin, síðan koma kuldaskeið og svo koma tímabil þegar dólað er á lygnum sjó. Sveiflan er að sjálfsögðu mismikil hjá fólki og fyrir kemur að það er aðeins annar makinn, sem finnur fyrir þessu og lætur jafnvel ekki lífsförunautinn vita af því.

Þeir eru líka til, sem láta sig dreyma um hið fullkomna morð á maka sínum. Ást og hatur eru vitanlega náskyld fyrirbæri.

Ég hef orðið vitni að hjónabandserjum, þegar hjón hegða sér eins og smábörn og nota setningar eins og „Hvað með mig?, „Hvað með mitt hús?, „Börnin mín? eins og makinn sé skyndilega ekki lengur til. Síðan koma óvandaðar árásir á hinn aðilann.

Grófar og tilfinningaþrungnar ásakanir, sem liggja í loftinu milli hjóna og andrúmsloftið er þrungið umkvörtunum og innbyrgðu hatri brýst fram við slíkar aðstæður. „Þú hugsar bara um sjálfan þig, þú hugsar aldrei um aðra! eða „Það eru mörg ár síðan þú heyrðir hvað ég er að segja, þú hlustar aldrei á mig! „Þú hugsar bara um vinnuna og þér er skítsama um okkur hérna heima. „Þú hefur aldrei áhuga á því, sem ég er að gera, eða tekur þátt í því, sem ég hef áhuga á. „Það er ekki hægt að tala við þig, það er eins og að tala við steininn“.

Þú gerir aldrei, þú gerir alltaf. Annað ræðst á hitt og hitt snýst til varnar með gagnárás. Tveir óðir hundar gelta hvor á annan og hlaupa í hringi. Hvorugur hlustar á hinn.

Það, sem eitt sinn var gott milli hjónanna er horfið, sem dögg fyrir sólu. Aðeins biturð vegna þeirrar ósanngirni, sem þau búa við og undir kraumar hatrið. Ef rifrildið heldur áfram, koma upp á yfirborðið öll fáránlegu smáatriðin og allt hversdagslegur pirringur, allur sá hroði, sem er búinn að gerjast árum saman, gýs upp.

Hjón ein höfðu verið gift í 26 ár. Maðurinn vildi fara frá konunni, en hafði litlar áhyggjur af því hvernig henni farnaðist fjárhagslega ef hún yrði ein, en hún hafði aldrei unnið utan heimilsins. Fjögur börn þeirra voru komin vel á legg. Viðtalið hófst á faglegum og yfirveguðum nótum, þar sem maðurinn lék hinn „fágaða mann, eins og konan orðaði það, mann sem gjarnan vildi koma vel fyrir.

En að endingu þoldi hún ekki lengur sjónarspilið, hún spratt á fætur, sveiflaði öskubakkanum, svo að askan þyrlaðist framan í okkur og öskraði: „Ég hef látið mig hafa það að komið sé fram við mig sem ambátt og gólfþurrku í 26 ár. Í öll þessi ár hef ég sleppt öllum mínum áhugamálum og fórnað mér fyrir þig og börnin, og hverjar eru þakkirnar? Þú yfirgefur mig og situr síðan hér og þusar.

Maðurinn var líka stokkinn á fætur og hrópaði: „Jæja, á ég að þakka þér? Þakka þér fyrir hvað, ef mér leyfist að spyrja? Þakka þér fyrir eilíft þras og fýlu, og samviskubitið sem hefur nagað mig í öll þessi 26 ár, fyrir að mér fannst ég ekki hjálpa þér nóg, en ég var úrvinda þegar ég kom heim af verkstæðinu. Þú hefur aldrei gefið mér ást, þú hefur bara fórnað þér. Þú hefur raunverulega aldrei elskað mig og þú hefur beitt óþverrabrögðum til að fá börnin á þitt band. Þú hefðir átt að vera farin frá mér fyrir löngu fyrst þú ert svona óánægð með mig. Mér hefur alltaf liðið eins og marklausum utangarðsmanni, sem enginn reiknaði með, en nú er ég búinn að fá mig fullsaddan -skilurðu, nú er það búið. Ég vil ekki meira.

Því næst þrammaði hann út um dyrnar og stóð við orð sín. Hann lét hana fá húsið og sendi henni peninga fyrsta hvers mánaðar, en flutti sjálfur í annað bæjarfélag.

En á hvaða tímabilum er mest hættan á brotsjó, hvenær er mest hætta á að hjónabandið gliðni í sundur? Það væri gott að vita, til að koma í veg fyrir slysið.

Þessi hættutímabil geta komið hvenær sem er, en miðað við skilnaðartölur er mest hætta á ferðum 0-4 árum eftir giftingu, og aftur eftir 5-9 ár og að lokum eftir 20-30 ára hjónaband, þegar „silfurbrúðkaupsskelfingin hellist yfir. Eða eins og kallað er: „síðasti séns fyrir lokun!.

 doktor.is logo

Tengdar greinar:

Skilnaðarbörn tjá sig – Myndband

„Ég bý við þá staðreynd að hafa misst manninn minn til annarar konu“

Það sem ég vildi að ég hefði vitað fyrir skilnað – Einlæg frásögn karlmanns og ráð hans til eiginmanna

SHARE