Hvort er þetta flensa eða kvef?

Nú er sá tími að fara í hönd að kvefpestir og influenza fara að ganga manna á millli og sýkja hvern á fætur öðrum. Hnerrar, stíflað nef og særindi í hálsi er það sem flokkast sem kvef, en flensu fylgir svo aftur vöðvaverkir, hiti og hrollur, hósti og höfuðverkur ásamt mikilli þreytu og slappleika. Kvef er ein af algengustu ástæðum þess að fólk leitar læknis yfir vetrarmánuðina, og fær hver einstaklingur kvef um 2-4 sinnum á vetri.
Hvernig er hægt að greina á milli hvort um kvef eða influenzu er að ræða?

 

Einkenni Kvef Influenza
Hiti 39–40 C í 3–4 daga Sjaldgæfur Einkennandi
Höfuðverkur Vægur Einkennandi
Verkir í vöðvum og liðum Vægir Einkennandi, oft slæmir
Slappleiki og þreyta Væg Einkennandi, getur varað í 2–3 vikur
Stíflað nef Algengt Getur fylgt
Hnerrar Algengt Getur fylgt
Særindi í hálsi Algengt Getur fylgt
Þyngsli í brjóstkassa, hósti Þurr hósti Hósti, getur orðið mjög slæmur
Fylgikvillar Skútabólga, eyrnaverkur Barkabólga og jafnvel lungna-bólga, getur reynst lífshættulegt
Forvarnir Hreinlæti Árleg bólusetning að hausti, innúðalyfið Relenza í séstökum tilfellum
Meðferð Við einkennum Relenza, meðferð þarf að byrja í síðasta lagi 48 klst. eftir upphaf einkenna.

 

Er eitthvað hægt að gera til að fyrirbyggja kvef eða influenzu?

Báðir þessir sjúkdómar eru orsakaðir af veirum. Um er að ræða mikinn fjölda af mismunandi veirum sem ýmist valda kvefi eða influenzu og til að gera hlutina enn erfiðari breyta þær hjúpgerð sinni reglulega (bóluefni er framleitt eftir hjúpgerð) svo nánast útilokað er að framleiða bóluefni til að verjast þessum vágestum. Til er bóluefni til sem inniheldur nokkra stofna af þeim veirum sem valda influenzu , en það er aldrei 100% öruggt. Ekki er til neitt bóluefni gegn þeim veirum sem valda kvefi og er ekki fyrirsjáanlegt í nánustu framtíð að hægt verði að framleiða slíkt bóluefni.

Því er besta leiðin til að reyna að forðast það að sýkjast af kvefi eða influenzu að lifa heilbrigðu lífi og borða holla fæðu. Forðast stress, svefnleysi og að keyra sig út á vinnu, en þessir þættir eru þekktir að því að veikja virkni ónæmiskerfisins og þar með hæfni þess til að verjast sýkingum. Einnig getur hjálpað að taka fæðubótarefni og stuðla þannig að því að ónæmiskerfið sé sem best í stakk búið til að takast á við veirurnar ef þær komast inn í líkamann, einnig eru sum hver talin geta verkað deyðandi á veirur og bakteríur.

Sjá einnig: Er C-vítamín gott gegn kvefi?

Veirurnar berast með úðasmiti og geta einnig borist við snertingu. Því er mikilvægt að sýktur einstaklingur skýli öndunarfærum þegar hann hóstar eða hnerrar svo smitandi veirurnar berist ekki út í umhverfið og handþvottur er öllum mikilvægur.

Hvaða efni í fæðu eru talin geta virkað fyrirbyggjandi gegn veirusýkingum?

Alltaf er mikilvægt að neyta hollrar og góðrar fæðu. Fyrir þá sem eru veikir og sérstaklega fyrir þá sem hafa hita, er mikilvægt að fá nægilegt magn af hitaeiningum til að berjast gegn sýklunum. Borðið létta og holla fæðu, forðist próteinfríkar fæðutegundir, sælgæti og önnur matvæli sem innihalda mikið af fitu og mjólkurvörur, en þær auka gjarnan á stíflur í öndunarfærum. Hvað er þá hægt að fá sér? Það eru ýmsir kostir en samkvæmt nýjum rannsóknum er kjúklingasúpa eitt af því sem gæti virkað vel, gefur hitaeiningar og getur einnig virkað drepandi á sýklana!

Vísindamenn sem hafa rannsakað áhrif kjúklingasúpu komust að því hún virkar gegn kvefi. Rannsóknina gerðu þeir á blóði úr heilbrigðum einstaklingum sem þeir blönduðu við kjúklingasúpu og kvefveirur. Í blóðinu eru frumur sem kallast hvítblóðkorn sem vinna þannig að þegar bakteríur eða veirur ráðast inn í líkamann, losna ákveðin efni sem draga hvítublóðkornin á staðinn og hvítu blóðkornin ráðast þá á bakteríurnar og drepa þær. Þessi ferill veldur svo aftur kvefeinkennunum, nefstíflum, hósta og hnerra. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að einhver efni í kjúklingasúpunni hindruðu þennan feril og einkenni minnkuðu. Hvaða efni það eru er ekki þekkt og því frekari rannsókna þörf. Það sem veikir rannsóknina er að hún var gerð á blóðvökva einstaklinga en ekki prófuð &aacut e; þeim sjálfum. Önnur rannsókn á kjúklingasúpu sýndi að hún flýtir fyrir því að líkaminn losi sig við sýkta nefslímhúð og flýtir þannig fyrir að einstaklingurinn losni við einkennin. Rannsakaðar voru nokkrar tegundir af kjúklingasúpu og kom t.d. kjúklingasúpa frá Knorr og Campbell’s vel út, svo hversvegna ekki að prófa, það sakar alla vega ekki?

Hvítlaukur

Hvítlaukur er talinn hafa veiru- og bakteríudrepandi áhrif og geta þannig hjálpað til við að fyrirbyggja sýkingar af völdum þessara sýkla. Ekki er nauðsynlegt að innbyrða hvílaukinn gegnum þá fæðu sem við neytum og lykta daginn út og inn, heldur geta þeir sem vilja reyna, tekið fæðubótarefni sem inniheldur 350 mg af hvítlauksafleiðum tvisvar á dag, fyrirbyggjandi.

C-vítamín

Það eru mjög margir sem hafa mikila trú á C-vítamíninntöku til að fyrirbyggja veikindi. Lífefnafræðileg virkni C-vítamíns (ascorbic acid) er ekki að fullu þekkt. Þó er vitað að C-vítamín virkar sem vörn gegn oxun á vefjum líkamans og flokkast því sem andoxunarefni og byggist hluti af verkun vítamínsins á því að örva ákveðin efni sem stuðla að því að styrkja ónæmiskerfið.

Sjá einnig: Ertu að fá kvef? – 8 ráð til að hnekkja á flensupúkanum

Menn eru hinsvegar mjög ósammála um hversu mikið magn af vítamíninu þarf að taka. Í Norræru ráðleggingunum um næringarefni er ráðlagður dagskammtur af C-vítamíni 60 mg, aðrir ráðleggja 200–500 mg. Einhver munur er milli einstaklinga hversu þörfin er mikil, en ekki hefur verið sýnt fram á aðhærri skammtar virki betur enda skilur líkaminn umframmagn út með þvagi. Skammtar upp á þúsundir milligramma eins og sumir vilja halda fram að séu nauðsynlegir skila ekki meiri árangri, en skammtar yfir 1000 mg á dag valda hinsvegar aukaverkunum í smáþörmum hjá frískum fullorðnum einstaklingum og getur valdið niðurgangi. Auk þess verður mikill útskilnaður á ákveðnum efnum í þvagi sem eykur hættu á nýrnasteinum hjá næmum einstaklingum.

C-vítamín er mjög hvarfgjarnt efni og því er mikilvægt að töflurnar sem teknar eru séu nýjar, virkni gömlu taflanna frá í fyrra er verulega skert. Rétt er þó að minna á að besta C-vítamínið fæst úr fæðunni svo hvers vegna ekki að fá sér glas af Trópí og ná þannig dagskammtinum 60 mg.

Sink

Margar rannsóknir hafa verið gerðar með það fyrir augum að skoða fyrirbyggjandi áhrif sinks á veirur, sumar hafa sýnt jákvæðar niðurstöður, aðrar ekki. Hugmyndir eru uppi um að sink geti myndað hjúp utan um þær veirur sem valda kvefi og koma þannig í veg fyrir að þær valdi sýkingum í öndunarfærum en einnig er sink talið geta stytt sjúkdómstímann. Rálagt er að taka sink guconat eða acetat en ekki picolinate eða citrar, því sink binst þessum efnum og efnin því ekki eins virk. Norrænu ráðleggingarnar um næringarefnin ráðleggja að dagskammtur af sinki sé 7 mg fyrir konur og 9 mg fyrir karla, svo hvers vegna ekki að tryggja að við höfum nægilegt magn af sinki í kroppnum.

Glutathione

Nýlegar rannsóknir sem enn hafa ekki skilað endanlegum niðurstöðum beinast að áhrifum glutathions. Glutathione er andoxunarefni sem er að finna í kjöti, grænmeti og ávöxtum og sýndu fyrstu rannsóknir að ef þessu efni var blandað í drykkjarvatn músa og þær svo sýktar með influenzuveirum kom í ljós að þær sem fengu glutathione í drykkjarvatninu höfðu færri veirur í öndunarfærum en hinar sem ekkert glutathion fengu í drykkjarvatninu.

Sólhattur

Það eru engar rannsóknir sem gerðar hafa verið sem staðfesta að það virki fyrirbyggjandi gegn veirusýkingum að taka sólhatt, hinsvegar eru til rannsóknir sem leiða að því líkur að ef sólhattur sé tekinn lengi í langan tíma, veiki það varnir ónæmiskerfisins.

Þeir sem hafa tröllatrú á sólhatti, geta reynt fyrir sér með því að taka hann þegar einkenni kvefs gera vart við sig og sjá hvort einkennin minnka. Ekki er ráðlagt að taka hann í meira en 8 daga í röð.

Hvað er hægt að gera til að minnka einkenni ef einstaklingur er þegar sýktur?

Hvíld og verkjastillandi lyf
Þau lyf sem mest eru notuð til að minnkað óþægindi, s.s. höfuðverk og beinverki, eru ibufen, parasetamól og asperín. Rétt er þó að vara við notkun asperíns hjá börnum vegna hættu á aukvaverkunum.

Saltvatnsskolun á nefgöngum
Til að fá réttu blönduna er gott að leysa 1 tsk af matarsalti upp í einum bolla af soðnu vatni og nota þessa blöndu til að skola nefgöngin með. Hægt er að kaupa plastbelgi í apótekum sem auðvelda skolunina, en allar líkur eru á að saltvatnið fari einnig niður í hálsinn, svo vertu viðbúinn að þurfa að spýta. Rannsóknir hafa sýnt að skolun á nefgöngum með saltvatni styttir sjúkdómstímann.

Nefdropar
Í lyfjaverslunum fást án lyfseðils nefdropar sem minnka nefstíflur. Einnig eru í sumum tilfellum notuð andhistamínlyf til að minnka rennsli úr nefi og augum en þau eru lyfseðilsskyld.

Skola hálsinn með asperíni
Taktu eina töflu af magnyl og myldu og settu út í soðið vatn, einungis um einn sopi. Súptu svo á og láttu blönduna gutla í hálsinum eins lengi og þú getur og kyngdu svo. Þetta er í lagi að gera tvisvar á dag og minnka þá óþægindin.

Gufa
Sú fullyrðing aðð það að anda að sér heitri gufu fækki veirum &i acute; slímhúðinni hjá sýktum einstaklingi er ekki rétt, en hinsvegar léttir á nefstíflum við að anda að sér heitri gufu og sjúklingnum líður betur. Svo hvers vegna ekki að setjast yfir gufunna í 10–15 mín. nokkrum sinnum yfir daginn.

Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

SHARE