Í brúðarskokk

photo by Surachai
photo by Surachai

Fyrir nokkrum mánuðum bað ég kærustu minnar. Í raun var það af algjörri slysni. Við vorum á leið heim úr partýi og sátum aftur í leigubíl. Hún var eitthvað að tala um vinafólk okkar, hvað allt gengi nú vel hjá þeim og hve hamingjusöm þau væru eftir að þau trúlofuðu sig.

„Já, við ættum þá kannski bara að gifta okkur,“ sagði ég í hálfkæringi. Þó að margt gott megi segja um tilvonandi eiginkonu mína þá var hún fjarverandi þegar skilningi á kaldhæðni var úthlutað á vöggustofunni. Þessi elskulega kona leit hins vegar á mig þarna í aftursætinu, ljómaði í framan og kyssti mig. Í fyrstu skildi ég ekki hvers vegna hún brást svona við brandaranum mínum en skömmu síðar rann það upp fyrir mér og ég skildi í hvers lags vandræði ég hafði komið mér.

Næstu daga birtust brúðarblöð og hvers kyns þessháttar tímarit á náttborðinu hennar og ég var þráspurður um hvaða litir mér þættu fallegir, hvort ég vildi stóra veislu eða litla, hvort ég vildi giftingu í kirkju ásamt því að sitja undir löngum einræðum um hverjar hugmyndir hennar voru. Nú hef ég alveg gaman af giftingum, svo lengi sem um er að ræða annarra manna giftingar, en guð minn eini, þegar hún bar undir mig það sem hún kallaði litaspjald og spurði hvaða hvíti litur mér þætti fallegastur, var mér nær öllum lokið. Ég sá bara hvítt A4 blað og þó að ég væri kominn á fremsta hlunn með að upplýsa hana um að ég hefði bara verið að grínast, þá fékk ég mig ekki til þess. Tilhlökkunin og gleðin sem skein úr augum hennar var einlæg og þrátt fyrir að hafa þurft að þola linnulausar pínslir og kvalir vegna brúðkaupsundirbúnings hennar, þá hreinlega gat ég ekki eyðilagt þetta fyrir henni. Ég benti því á nokkurn veginn mitt blaðið.

„Við erum svo lík,“ sagði hún sigri hrósandi, „ég valdi líka marmarahvítt.“ Síðan kyssti hún mig og hélt áfram að fletta í litaspjaldinu. Ég hef reyndar ekki ennþá hugmynd um hvaða tilgangi það þjónaði.

Ég brosti bara og hélt áfram að horfa á fótboltaleikinn í sjónvarpinu.

Svo kom upp úr dúrnum að bráðnauðsynlegt væri að fara til New York til að finna brúðarkjól. Við skulum hafa eitt á hreinu, að ferðast til landa þar sem er ekki spilaður fótbolti af einhverju viti er með öllu heimskulegt og tilgangslaust, en það var sama hve ég reyndi að sannfæra tilvonandi eiginkonu mína um að velja frekar einhverja borg sem væri nær Íslandi, t.d. Liverpool, þá kom allt fyrir ekki. Henni varð ekki haggað, til New York skildi farið, hvort sem mér líkaði betur eða verr. Ég gaf að lokum eftir.

Í New York fékk ég að þramma á milli alltof margra búða en kærastan var himinlifandi. Hún hafði valið eitthvað ægilega fínt hótel á miðri Manhattan en ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að spyrja hvað nóttin kostaði, en eitt er víst, hún var ekki ókeypis. Jæja, eftir 3 ömurlega daga, ég var með blöðrur á tánum, mig verkjaði í bakið og þráði ekkert heitar en sófann minn, kaldan bjór og frið til að horfa á góðan fótboltaleik í sjónvarpinu, eftir það sem mér fannst vera eilífð fann kærasta mín loksins draumakjólinn. Og jú, svo ég sé nú alveg hreinskilinn, hún var gullfalleg í honum.

„Og hann kostar ekki nema 1299 dollara, Friðrik,“ sagði hún af sömu einskærri gleði og hún hafði sýnt í leigubílnum kvöldið afdrifaríka. Ég saup hveljur inni í mér og taldi í huganum hversu margir yfirvinnutímar það væru.

„Ekki nema?“ spurði ég og reyndi að brosa.

„Já, hugsaðu þér,“ svaraði hún, starði á sjálfa sig í speglinum og sneri sér í hringi.

„Sko, elskan, þú veist að ég elska þig, en gætirðu kannski hugsað þér að vera í einhverju örlítið ódýrara,“ sagði ég. „Kannski dragt, pilsi eða skokk?“ bætti ég við og taldi upp nær öll þau orð sem ég mundi og tengjast kvenfatnaði.

„Í brúðarskokk? Veistu, Friðrik, stundum finnst mér eins og þú sért ekki taka þetta alvarlega. Þetta er brúðarkjóllinn minn,“ svaraði hún og starði á mig með þessum svip sem aðeins konur geta galdrað fram á andlit sitt, svip sem segir í senn að umræðunni sé lokið og allar tilraunir til að halda henni áfram muni leiða til alvarlegra líkamsmeiðinga og aflimunar. Ég sá því sæng mína útbreidda, tók upp kortið og rétti amerísku afgreiðslukonunni, sem virtist þrátt fyrir að heilt úthaf skilji að þessi tvö lönd vita mætavel hvað okkur hafði farið á milli. Hún tók við kortinu mínu alvörugefin á svip, en í augum hennar var blik sem sagði mér allt sem ég þurfti að vita og þess vegna ákvað ég að gefa henni ekkert þjórfé. Það var eini sigur minn í þessari verslunarferð og mér fannst ég örlítið meiri karlmaður fyrir vikið.

Þessi dagur var þó ekki með öllu afleitur, því tilvonandi eiginkona mín var svo ánægð með kjólinn að hún bauð mér í Madison Square Garden á NBA-leik og það bjargaði eiginlega ferðinni fyrir mér.

SHARE