Þessi æðisgengna uppskrift kemur frá Allskonar.is! Æðislega góð!
Það er ótrúlega einfalt að útbúa paneer heima. Þetta er réttur sem mun koma þér á óvart, frábært bragð, einfalt að útbúa, og alla langar alltaf í örlítið meira.
Hér er uppskrift af steiktum paneer í kryddsósu eins og Putul Baniprossono frá Norður Indlandi kenndi mér að búa til.
Uppskriftin er fyrir 2 sem aðalréttur, en fyrir 4 ef þú ert með hrísgrjón og Pooribrauð með.
Tilvalið á indverska veisluborðið.
Paneer fyrir 4
- OSTUR
- 3L nýmjólk
- safi úr 1 sítrónu
- 1 dl olía til steikingar
- SÓSA
- 2 msk olía
- 4 heilar kardimommur, marðar
- 2 negulnaglar
- 1 lárviðarlauf
- 1/2 kanilstöng
- 2 hvítlauksrif
- 2 cm engiferrót, rifin
- 1 laukur, mjög fínt saxaður
- 4 tómatar, saxaðir
- 1/2 tsk turmerik
- 1/2 tsk cumin, malað
- 1/4 tsk chiliduft
- salt
- 4 msk rjómi
- 1tsk hunang
- 3 msk smjör
Undirbúningur: 1 klst
Eldunartími: 35 mínútur
Byrjaðu á að útbúa ostinn.
Settu mjólkina í stóran pott og láttu suðu koma rólega upp. Hrærðu vel í annað slagið til að brenni ekki við á meðan að suðan er að koma upp. Þegar mjólkin byrjar að sjóða setur þú safann úr sítrónunni út í og lætur sjóða í 2-3 mínútur. Mjólkin fer að ysta og á meðan hún sýður þá þéttist allt og vökvinn verður hreinni. Þegar vökvinn er orðinn næstum glær, eða ekki mjólkurlitaður, og mjólkin komin í góð stykki þá hellirðu úr pottinum í sigti sem er klætt að innan með grisjuklút. Það er mjög sniðugt að geyma vökvann, þú getur notað hann til að þynna sósuna í réttinum á eftir – þú getur líka kælt hann, hrært pínu hunangi út í og drukkið með klaka. Mjög hollt!
Þegar þú ert búin/n að setja ostinn í klútinn þá þarftu að skola ostinn til að ná úr honum sítrónunni. Vittu upp á klútinn og láttu kalt vatn renna í gegnum ostinn í 3-4 mínútur. Kreistu vökvann úr ostinum á meðan.
Nú er komið að því að pressa ostinn. Þú þarft að vinda vel allan vökva úr honum, koma honum svo fyrir á bretti eða disk og fergja. Mér finnst ágætt að setja annað þungt bretti ofan á og svo þar ofan á steikarpönnu eða þungan pott.
Þetta þarf að pressast svona í 30-45 mínútur.
Þú getur valið að gera ostinn daginn áður en þú eldar, eða rétt á undan.
Þegar osturinn er tilbúinn þá tekur þú hann úr grisjuklútnum og skerð í litla bita.
Hitaðu um 1 dl olíu í pönnu. Þegar hún er orðin vel heit þá steikirðu ostbitana. Þú þarft að hafa snarar hendur og snúa bitunum í olíunni svo þeir brúnist jafnt á öllum hliðum. Taktu þá úr olíunni og leggðu á eldhúspappír til að mesta olían renni af þeim.
Nú er komið að því að gera sósuna.
Byrjaðu á því að fínsaxa laukinn, merja hvítlaukinn og rífa engiferrótina. Settu í skál til hliðar. Þú getur líka sett þetta allt í matvinnsluvél með 3-4 msk af vatni og hakkað, því fínni sem laukurinn er, því fíngerðari er sósan.
Settu olíu í pönnu (þú getur notað 2 msk af olíunni sem þú steiktir ostinn í).
Settu kardimommur, negulnagla, kanilstöng og lárviðarlauf út í olíuna og steiktu í um 1 mínútur eða þar til fer að ilma.
Láttu nú lauk/hvítlauk/engifer út í pönnuna og steiktu þar til laukurinn hættir að verða hrár, það tekur um 4-5 mínútur. Ef þér finnst að þetta festist við pönnuna þá bætirðu bara smá vatni út í hana.
Skerðu tómatana í litla bita og settu út í, bættu við turmeriki, cumin og chili og steiktu í 2-3 mínútur eða þar til tómatarnir eru mjúkir. Smakkaðu til með salti. Athugaðu að þú átt eftir að setja hunang út í seinna, þannig að ef þér finnst þetta vera súrt þá á það alveg eftir að hverfa.
Láttu malla í 5 mínútur, hrærðu annaðslagið í.
Settu nú hunang og rjóma út í og blandaðu vel saman.
Bættu smjörinu við og hrærðu vel. Settu ostabitana út í og veltu um í sósunni svo að allt blandist vel saman.
Berðu fram með hrísgrjónum, flatkökum eða hvaða indverska mat sem þig langar í.
Endilega smellið einu like-i á Facebook síðu Allskonar
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.