Íris Lind segir ekki farir sínar sléttar eftir að hafa verið stoppuð af lögreglunni í gær. „Ég var stoppuð af lögreglunni sem var í ómerktum bíl og sökuð um að vera undir einhverskonar áhrifum,“ segir Íris í færslu sinni á Facebook. „Ég sagði: „Bíddu þið eruð að djóka er það ekki?“ og þeir kröfðust þess að ég kæmi með þeim niður á stöð til þess að taka pissutest og ég mátti alls ekki leggja í stæði. Lyklarnir voru teknir af mér og tekin þvagprufa.“ Íris er á lyfinu Elvance við ADHD og sagði þeim frá því og segir að svarið við því hafi verið: „Jæja það kemur í ljós hvort þú ert að segja satt þegar kemur niðurstaða úr prufunni.“ Þegar niðurstaðan er orðin ljós kemur strik í kassann fyrir amfetamín en ekki í kassann fyrir lyf.
Íris segir að lögreglan hafi þar með bannað henni að fara í bílinn sinn vegna niðurstaðnanna og heimtaði að fá að fara í blóðprufu: „Ég hef ekkert að fela. Ég er óvirkur fíkill og mun eiga þriggja ára edrúafmæli þann 22. nóvember,“ segir Íris.
„Mér finnst svolítið súrt að ekki séu marktækar þvagprufurnar sem eru teknar á stöðinni og verið er að saka saklausa manneskju um að vera að brjóta lög, en ég fylgdi öllum umferðarlögum, með ljósin kveikt og á nöglum.“
Íris segir að lokum að til að kóróna allt taki 6 vikur að fá niðurstöður úr prufunni.