Pottréttur er svo góður og ekki sakar að hann sé einfaldur að búa hann til. Hér er æðislegur írskur nautakjötspottréttur frá Allskonar.is
Uppskrift fyrir 4
Þú þarft að nota pönnu eða pott sem þolir að fara inn í heitan ofn með loki, 3-4L pottur dugar vel.
- 750gr nautakjöt, í bitum
- 4 msk hveiti
- 1 tsk svartur pipar
- 1 tsk cayenne pipar
- 2 tsk salt
- 2 msk olía
- 4 gulrætur, skornar í stóra bita
- 3 sellerístilkar, skornir í stóra bita
- 5 skallottulaukar, flysjaðir og skornir í tvennt
- 3 hvítlauksrif, marin
- 3 msk tómatpúrra
- 6 msk balsam edik
- 2 msk Worchestershire sósa
- 2 lárviðarlauf
- 8 dl vatn
- 2 teningar nautakjötkraftur
- 1 tsk timian, þurrkað (eða 1 grein, ferskt)
- 8 litlar kartöflur, flysjaðar
Undirbúningur: 20 mínútur
Eldunartími: 3 1/2 klukkustund
Byrjaðu á að hita ofninn í 170°C.
Blandaðu saman í djúpan disk hveitinu, salti, pipar og cayenne piparnum. Veltu kjötbitunum upp úr hveitiblöndunni.
Hitaðu olíu á meðal hita í pönnu og brúnaðu kjötið, í 4-5 mínútur. Þú gætir þurft að gera þetta í nokkrum skömmtum ef potturinn er ekki mjög stór.
Settu kjötið til hliðar og bættu örlítilli olíu við í pönnuna, settu gulræturnar, sellerí, lauk og hvítlauk út í og brúnaðu, þetta tekur um 10 mínútur.
Ýttu grænmetinu örlítið til hliðar í pottinum og settu nú tómatpúrruna út í, steiktu hana í hálfa mínútu eða svo og hrærðu svo öllu vel saman þannig að púrran blandist vel um allt grænmetið.
Bættu balsam ediki við og láttu malla í 2-3 mínútur. Settu nú Worchestershire sósuna, lárviðarlaufin, timian, vatn og kjötkraft í pottinn og láttu suðuna koma upp. Settu lok á pönnuna, slökktu undir og færðu inn í ofninn miðjan. Láttu eldast í ofninum í 2 1/2 – 3 klst.
Settu kartöflurnar út í þegar eru 40 mínútur eftir af eldunartímanum – þú getur líka soðið þær sér ef það hentar betur, og bætt út í þegar þú tekur pottréttinn út úr ofninum.
Berðu fram í djúpum diskum – og ekki er verra ef til er nýbakað brauð til að þurrka upp sósuna.
Við mælum með góðri rauðvínsflösku eins og Campo Viejo Reserva til að setja punktinn yfir i-ið.
Verði ykkur að góðu!
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.