Hvalfjörður, í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar, hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar, í flokki stuttmynda. Guðmundur er einnig handritshöfundur og annar framleiðenda myndarinnar ásamt Antoni Mána Svanssyni. Meðframleiðendur eru Sagafilm, Danirnir Darin Mailand-Mercado og Jacob Oliver Krarup ásamt Rúnari Rúnarssyni. Með aðalhlutverk fara Ágúst Örn B. Wigum og Einar Jóhann Valsson.
3500 stuttmyndir frá 132 löndum voru sendar inn með það að markmiði að komast í aðalkeppnina. Aðeins 9 voru að lokum valdar til keppni og er Hvalfjörður ein þeirra. Hvalfjörður keppir því um Gullpálmann í ár.
Um myndina
Hvalfjörður sýnir sterkt samband tveggja bræðra sem búa á litlum sveitabæ ásamt foreldrum sínum. Áhorfendur fá að skyggnast inn í heim þeirra út frá sjónarhorni yngri bróðurins og fylgja honum í gegnum örlagaríka daga sem marka þáttaskil í lífi bræðranna.
Cannes kvikmyndahátíðin fer fram í 66. skipti dagana 15. – 26. maí. Formaður dómnefndar í aðalkeppni í flokki kvikmynda í fullri lengd er enginn annar en bandaríski leikstjórinn Steven Spielberg og formaður dómnefndar í aðalkeppni í flokki stuttmynda er nýsjálenski leikstjórinn Jane Campion.
Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur íslendinga og óskum við þeim góðs gengis!