Íslenskukorn vikunnar – Að ganga til náða

books

Ég hef heyrt svolítið af því nýlega að margir séu að vanda sig við að tala íslenskt mál og vilji endilega læra orðatiltæki, orð og setningar sem eru á góðri íslensku. Kannski er það bara fólk í kringum mig, sem er komið á ákveðinn aldur, ég er ekki viss. Ég er enginn sérfræðingur eða prófessor en íslensk tunga hefur alltaf verið eitthvað sem ég hef haldið vel í og legg mig fram um að tala gott og skýrt íslenskt mál. Við erum svo fá í heiminum sem tölum þetta mál og þegar íslensk börn eru farin að tala betri ensku en íslensku þá er fokið í flest skjól.

Þess vegna hef ég ákveðið að byrja með nýjan, fastan lið hér á Hún.is sem heitir Íslenskukorn vikunnar. Þar mun ég deila orðum, orðatiltækjum, reglum og fleiru tengdu íslensku máli og ég mun gera mitt allra besta til að hafa þetta allt rétt og setja dæmi þar sem það á við. Ég mun lesa mér til um það sem ég er að skrifa áður en ég birti það hér og bið því um þið sýnið mér skilning. Ég geri mitt besta.

Fyrsta korn vikunnar er hér:

Að hafa fataskipti

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst það hljóma miklu meira „fullorðins“ að segjast ætla að hafa fataskipti heldur en að „skipta um föt“. Það hljómar líka einhvern veginn virðulegar heldur en hitt. Svona eins og þú sért með fataherbergi og veljir þér flík af kostgæfni, frekar en að grípa einhverja peysu af stólnum inni í herbergi og henda hinni peysunni á hinn sama stól.

 

Dæmi: Ég ætla bara að koma við heima og hafa fataskipti og hitti ykkur svo í bænum.

Að ganga til náða

Eins og í dæminu hér að ofan, finnst mér það „að ganga til náða“ hljóma virðulegar en að segjast ætla að fara að sofa, hátta sig eða annað álíka. Það er líka einhver friðsæld yfir því að segjast ætla að „ganga til náða“ sem er ekki í þessu daglega tali. Kannski „leggjast til hvílu“. En að ganga til náða finnst mér að eigi við um það að hátta sig, þvo sér og leggjast í rúmið, allt í einni setningu, ef þið skiljið mig. 

 

Dæmi: Ég ætla að ganga til náða og sé ykkur í fyrramálið.

Að gera úlfalda úr mýflugu

Þetta kannast eflaust flestir við en alls ekki allir. Ég notaði þetta nýlega og einstaklingar í kringum mig vissu ekki hvað ég var að meina. Að gera úlfalda úr mýflugu þýðir bara einfaldlega að gera stórt mál úr einhverju sem er bara mjög lítið mál. Einnig er talað um að gera úlfalda úr mýflugu þegar fólk ýkir svakalega. Þetta er talið koma úr dönsku en á dönskunni er talað um fíl en ekki úlfalda.

 

SHARE