Ég hef heyrt svolítið af því nýlega að margir séu að vanda sig við að tala íslenskt mál og vilji endilega læra orðatiltæki, orð og setningar sem eru á góðri íslensku. Kannski er það bara fólk í kringum mig, sem er komið á ákveðinn aldur, ég er ekki viss. Ég er enginn sérfræðingur eða prófessor en íslensk tunga hefur alltaf verið eitthvað sem ég hef haldið vel í og legg mig fram um að tala gott og skýrt íslenskt mál. Við erum svo fá í heiminum sem tölum þetta mál og þegar íslensk börn eru farin að tala betri ensku en íslensku þá er fokið í flest skjól.
Þess vegna hef ég ákveðið að byrja með nýjan, fastan lið hér á Hún.is sem heitir Íslenskukorn vikunnar. Þar mun ég deila orðum, orðatiltækjum, reglum og fleiru tengdu íslensku máli og ég mun gera mitt allra besta til að hafa þetta allt rétt og setja dæmi þar sem það á við. Ég mun lesa mér til um það sem ég er að skrifa áður en ég birti það hér og bið því um þið sýnið mér skilning. Ég geri mitt besta.
Ég man eftir því þegar ég var lítil að þegar einhver hafði hjálpað öðrum eða komið til aðstoðar við eitthvað verkefni að það var sagt: „Já hann Rúnar var sko betri en enginn“
Mér fannst þetta alltaf hljóma frekar illa, svolítið eins og baktal, frekar en hrós. Að viðkomandi hafi meira verið að flækjast fyrir en gera mikið gagn. Ég komst svo að því að þetta er hrós. Einhvern tímann maldaði ég í móinn við einhvern og sagði að „hann hefði nú alveg verið duglegur“ og þá fékk ég að heyra það að þetta þýddi akkúrat það. Að manneskjan hefði komið til hjálpar og verið til gagns og sagt á jákvæðan hátt. Ég nota þetta ekki sjálf og myndi alltaf velja eitthvað jákvæðara ef ég myndi ætla að hrósa einhverjum fyrir aðstoðina, en þetta er kannski eitthvað sem gamla, harða kynslóðin, ákvað að væri nógu gott fyrir hjálparhelluna, að hún væri betri en enginn.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.