Ég hef heyrt svolítið af því nýlega að margir séu að vanda sig við að tala íslenskt mál og vilji endilega læra orðatiltæki, orð og setningar sem eru á góðri íslensku. Kannski er það bara fólk í kringum mig, sem er komið á ákveðinn aldur, ég er ekki viss. Ég er enginn sérfræðingur eða prófessor en íslensk tunga hefur alltaf verið eitthvað sem ég hef haldið vel í og legg mig fram um að tala gott og skýrt íslenskt mál. Við erum svo fá í heiminum sem tölum þetta mál og þegar íslensk börn eru farin að tala betri ensku en íslensku þá er fokið í flest skjól.
Þess vegna hef ég ákveðið að byrja með nýjan, fastan lið hér á Hún.is sem heitir Íslenskukorn vikunnar. Þar mun ég deila orðum, orðatiltækjum, reglum og fleiru tengdu íslensku máli og ég mun gera mitt allra besta til að hafa þetta allt rétt og setja dæmi þar sem það á við. Ég mun lesa mér til um það sem ég er að skrifa áður en ég birti það hér og bið því um þið sýnið mér skilning. Ég geri mitt besta.
Íslenskukorn vikunnar er varðandi þetta orð sem ég heyri allsstaðar og mjög oft, hvort sem það er í hópi af fólki eða í sjónvarpi, það virðast „allir“ nota þetta orð annað slagið:
Móment
Dæmi um notkun á orðinu:
„Við vorum að eiga svo gott „móment““
„Þetta var ekki alveg rétta „mómentið““
Við eigum svo fallegt orð sem í flestum tilfellum er hægt að nota í staðinn fyrir „móment“ og það er orðið „augnablik“ og í sumum tilfellum er gott að nota orðið „stund“. Stundum eru þessi orð ekki alveg lýsandi fyrir það sem fólk er nota orðið „móment“ til að lýsa. Þá getur verið gott að nota lýsingarorð fyrir framan eins og „skemmtilegt augnablik“ eða „notaleg stund“.
Sjá einnig:
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.