Íslenskur hönnuður hannar nærföt fyrir allar konur

Nærföt eru ekki bara nærföt, í það minnsta ekki í augum okkar kvenna. Við eigum flestar nokkra liti, mynstur, blúndu og bómull, strengi, þvengi og venjulegar nærbuxur. Það er gaman að vera í fallegum nærfötum og í hinum fullkomna heimi ætti maður heilan skáp með samstæðum nærbuxum og gæti skipt eins og maður vill

Valensia eru með breiða línu af brjóstahöldurum og nærbuxum og stærsta stærðin er 110E. Verðin hjá þeim eru mjög góð og allar konur og stúlkur ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það sem margir vita ekki er að Valensia er íslensk hönnun og það er hún Herdís Hrönn Árnadóttir sem hefur hannað fyrir vörumerkið síðastliðin ár.

Screen Shot 2015-09-16 at 4.16.40 PM

 

Í verslunum Hagkaups sáum við fallegu haustlínuna frá Valensia og í framhaldi af því ákváðum við að tala við hana Herdísi.  Herdís hefur verið að hanna fyrir Hagkaup frá árinu 2000 en hefur starfað við margskonar hönnun frá árinu 1995.  Hún segir að margir hafi rekið upp stór augu þegar hún sagðist vera að fara að læra fatahönnun á sínum tíma og sögðu að hún myndi ekki fá vinnu í þessu fagi.

„Þegar ég kom heim var svo bara ekkert mál að fá vinnu,“ segir Herdís en hún hefur hannað fyrir vörumerkið True frá Hagkaup og fyrir tæpum 4 árum fór hún að hanna fyrir Valensia. Upp á síðkastið hefur Herdís verið að hanna fyrir búsáhaldadeildina og hannar þar handklæði, púða fyrir RAX, sængurfatnað og fleira.

 

Viðskiptavinir á öllum aldri

Valensia hefur verið til í 20 ár og í fyrstu var bara Basic lína í merkinu en það eru svona 10-12 ár síðan farið var að hanna tískulínu inn í merkið.

Auk þess sem Valensia er fáanlegt í Hagkaupsverslunum er hægt að panta fatnaðinn á netinu og segir Herdís að það er greinilegt að konur nýta sér það mikið. „Konur eru farnar að þekkja vöruna og þær sem búa úti á landi panta sér bara vöruna heim að dyrum, en við erum með viðskiptavini frá svona 17 ára og uppúr.“

 

Haustlínan undir áhrifum frá Fifty Shades of Grey

Haustlína Valensia er mjög falleg og Herdís segir að eftir að Fifty Shades of Grey kom út hafi tískan í nærfatnaði breyst svolítið. „Það eru vissulega áhrif frá þessu æði sem fylgdi bókinni í hönnuninni en við erum frekar íhaldssöm og förum ekkert of langt í þessu,“ segir Herdís.

Nú þegar haustlínan er komin í búðir segist Herdís vera farin að skoða línur og sækja sér innblástur fyrir haustlínu næsta árs: „Það er aðeins erfiðara að skoða það sem er í tísku í nærfatnaði en venjulegum fatnaði,“ segir Herdís og hlær. „Fólk gengur í fötum úti um allt en nærfötin sjást mun síður.“

 

 

 

SHARE