Þessi lax er guðdómslegur frá Ljúfmeti.com
Ítalskur lax með fetaostasósu
- 600 g lax (eða blanda af laxi og þorski)
- sólþurrkaðir tómatar í olíu, magn eftir smekk
- 1 hvítlauksrif
- gróft salt
- 10 kartöflur
- klettasalat
Hitið ofninn í 225°. Afhýðið kartöflurnar, skerið þær í bita og dreifið úr þeim á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Setjið hálfan dl af olíunni frá sólþurrkuðu tómötunum í skál og pressið hvítlauksrifið í olíuna. Hellið olíunni yfir kartöflurnar og setjið í ofninn í um 20 mínútur.
Skerið laxinn (og þorskinn sé hann notaður) í bita sem eru um 2×2 cm að stærð. Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 20 mínútur er laxinum bætt á ofnplötuna, nokkrar matskeiðar af olíunni frá sólþurrkuðu tómötunum sáldrað yfir ásamt grófu salti og sett aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar. Þegar laxinn og kartöflurnar koma úr ofninum er hökkuðum sólþurrkuðum tómötum stráð yfir ásamt klettasalati. Setjið réttinn á fallegt fat og berið fram með fetaostasósu.
Fetaostasósa
- 1 dl sýrður rjómi
- 100 g fetakubbur
- 1/2 hvítlauksrif, pressað
- salt
- ítalskt salatkrydd
Myljið fetaostinn og hrærið saman við sýrða rjómann. Pressið hvítlaukinn saman við og smakkið til með salti og ítölsku salatkryddi. Geymið í ísskáp þar til sósan er borin fram.