Flestir hafa líklega upplifað það einhverntímann að reynt sé að draga úr þeim með einhverju móti, hvort sem það er að einhver segi þér að þú getir ekki eitthvað eða bara að þú finnir að fólk hafi enga trú á þér & því sem þú tekur þér fyrir hendur það skiptið. Þegar ég hef fundið fyrir því að einhver hafi ekki trú á mér eða jafnvel einhver reynir að rífa mig niður, hef ég alltaf litið á það sem hvatningu. Ég hugsa “ég skal sko sýna þér!” það er svo ótrúlega góð tilfinning þegar markmiðinu er náð. Ég hef alltaf sett mér markmið. Ég skrifa niður á blað – sem enginn sér, ever nema ég, ég segi oftast fáum eða engum hvert markmiðið er og byrja svo að vinna mig í átt að markmiðinu. Það skiptir ekki máli hversu ómerkilegt eða lítið einhverjum finnst markmiðið, ég held að það sé alltaf mikilvægt að setja sér markmið, þá hefur þú eitthvað að stefna að og þér líður svo ótrúlega vel þegar þú nærð því.
Ég get sko aldeilis skilið líðan fólks sem hefur verið rifið niður og sagt að það geti ekki eitthvað, ég hef kynnst því sjálf & það fyndna er að oftast er það frá fólki sem hefur jafnvel aldrei hitt mig eða þekkir mig afar lítið. Þegar ég byrjaði að skrifa pistla 18 ára gömul á vefmiðlum héldu líklega einhverjir að það hefði bara gerst af sjálfu sér, svo var auðvitað ekki, ég fékk alveg, 18 ára gömul leiðindarummæli frá einhverjum & var satt að segja lögð í einelti af krökkum (ég segi krökkum en er líka að tala um fólk sem var flest um og yfir tvítugt, sumir jafnvel orðnir um þrítugt) sem eru frá smábæ sem ég ólst upp í. Mér datt þó ekki í hug að láta einhverja örfáa einstaklinga hafa áhrif á mig & hélt ótrauð áfram, ég lét þetta sem vind um eyru þjóta þó að auðvitað finnist engum svona lagað gaman, ég var bara 18 ára á þessum tíma. Svo fór það að gerast að pistlarnir urðu vinsælari með hverjum mánuðinum & ég fór að fá yndisleg skilaboð úr ýmsum áttum, eftir því sem ég varð meira áberandi jókst eineltið frá þessum sömu aðilum hinsvegar en á þeim tíma var ég einfaldlega farin að vorkenna gerendum. Af hverju? vegna þess að fólk sem hefur ekkert annað að gera en að rífa manneskju niður getur ekki verið ánægt með sinn stað í lífinu, eða hvað?
Eineltið gekk svo langt að þessir krakkar (úr bænum sem ég ólst upp í) gerðu facbook síðu tileinkaða mér, auðvitað ekki á góðan hátt. Mér datt ekki í hug að láta þetta hafa áhrif á mig enda gekk mér vel & fór að ganga betur eftir því sem tíminn leið. Í dag á ég fyrirtæki & vinn við það sem mig langar, það er eitt af því sem ég stefndi alltaf að, og ég vann að því að láta það gerast & nú er það orðið að raunveruleika. Mig langaði að vinna í fjölmiðlum & í förðunarbransanum & það eru markmið sem ég hef náð & það er eitthvað sem enginn getur tekið af þér, þegar ÞÚ hefur náð markmiðinu sem þú settir þér. Í dag er ég svo með allskyns markmið sem ég hef skrifað niður & nú er ég að vinna að þeim, eitt af þeim markmiðum er að klára námið sem ég er í & kláraði ég fyrstu önnina í því námi fyrir viku, náði öllum áföngum & útskrifaðist af fyrstu önn, nú er það bara næsta önn, skref fyrir skref.
Ekki láta NEINN segja þér að þú getir ekki eitthvað. Ekki leyfa neinum að rífa þig niður, taktu því sem hvatningu ef einhver óprúttinn aðili segir þér að þú getir ekki eitthvað & stattu þig með glans! þú getur allt sem þú ætlar þér & “the sky is the limit!”