Já, ég horfði á klámmynd!

Ég er að verða stoltari af því með hverjum deginum sem líður að geta kallað mig feminista. Síðasta vetur virtist allt snúast um ísumbúðir, hverjir væru þess verðir að mega kalla sig feminista, legokubba, karlmenn sem hata konur o.fl. mál í þeim dúr. Í dag virðist umræðan komin á annað stig. Klámvæðingin hefur verið áberandi umræðuefni sem og staðalímyndir stjarnanna. Að mínu mati eru þetta málefni sem mikil þörf er á að ræða, þá sérstaklega klámvæðingin.
Ég settist niður um daginn og horfði á klámmynd. Nokkrar meira að segja. Mér fannst ég ekki geta gagnrýnt án þess að kynna mér málið almennilega og jú, smá forvitni átti líka þátt í að ég lét vaða í þetta verkefni. Mig grunar að þessar myndir sem ég sá hafi fallið undir “soft porn” þó ég hafi alls ekki upplifað þær þannig. Það átti að vera söguþráður þó ég hafi ekki verið neitt sérstaklega vör við hann. En gott og vel.
Þetta byrjaði á saklausum samtölum og allt í lagi með það. Allt “ferlið” semí eðlilegt svosem og ég var ekki alveg að skilja öll þessi læti sem hafa verið út af kláminu. En þá kom það.
Verulega niðurlægjandi athugasemdum byrjaði að rigna yfir konuna á meðan hún var með munninn fullan og gat því ekki svarað. Hártoganir, kinnhestar og að lokum fékk konan gusuna yfir andlitið og karlinn hélt kjaftinum á henni opnum og hún leit út fyrir að njóta þessarar aðfarar karlmannsins svona líka mikið (það er enginn að segja mér að þetta sé draumastarfið).
Ég sýni því fullan skilning að sumt fólk lifir svona kynlífi og ekkert út á það að setja. Sumar konur njóta jafnvel svona aðfara eða mildari útgáfu þeirra, ekkert að því. Það er ekki vandamálið.
Vandamálið er að ef að ungir drengir og ungar stúlkur eru að sjá svona klám þá halda þau að þetta sé normið. Hverjar eru afleiðingarnar? Jú, strákarnir halda að stelpur njóti þess að vera niðurlægðar og stelpurnar halda að þær eigi að njóta þess. Þær jafnvel upplifa sig utanveltu ef þær njóta þess ekki og hugsa hvað sé að þeim. Og við erum í þessu tilviki að tala um ljósbláa saklausa klámmynd á nútímamælikvarða.
Ég hélt áfram að horfa og alls staðar var sama sagan. Þetta byrjaði erótískt og eðlilegt en færðist hægt og rólega út í eitthvað allt annað en kynlíf tveggja jafningja, alltaf var konan niðurlægð á einn eða annan hátt, hlutgerð og ýtt undir þá hugsun að ekki ætti að líta á konur sem manneskju með tilfinningar heldur einungis “fucktubes” eða “cum dumpsters”.
En hvað er hægt að gera? Ekki er klámið að fara neitt, það vitum við öll. Þá fór ég að hugsa um forvarnirnar. Eru einhverjar forvarnir gagnvart klámi sérstaklega? Umræðurnar eiga sér sannarlega stað í fjölmiðlum og meðal almennings en er talað um klám í grunnskólum og ýkta útgáfu kynlífs sem birtist þar? Vita krakkar almennt að þetta er ekki það sem kynlíf snýst endilega um? Vita þau að þau þurfa ekki að láta eins og leikararnir í þessum myndum?
Eða er þetta mál ennþá tabú eða talið of gróft fyrir grunnskóla landsins?

Höfundur greinar: Margrét Gísladóttir

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here