“Þetta er bara skemmtilegt starf, er unnið í hreinum kærleika og sjálfar erum við allar mæður eða jógakennarar. Við vinnum yogastarfið með börnunum frá hjartanu.”
“Öll skipulagning að baki starfinu er rekin í sjálfboðavinnu, en við höfum óbifandi trú á innri ávinningi yogaiðkunar” svarar Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir, yogakennari aðspurð um starfsemi Jógahjartans, en Arnbjörg er ein af verndurum Jógahjartans.
Verndarar Jógahjartans eru átta alls
Arnbjörg, sem í samstarfi við sjö aðrar konur, sem allar eiga það sammerkt að iðka og kenna yoga, segir aðalmarkmið Jógagahjartans vera að veita börnum aðgengi að yogaiðkun, íhugun og slökun í tengslum við grunnskólastarf. “Okkur þykir mikilvægt að börn hafi aðgang að þessari þekkingu, fái þjálfun og öðlist tækifæri til að prófa strax á fyrstu stigum grunnskóla. Sjálfar höfum við allar vaxið sem einstaklingar og styrkt okkar innri sannleika, öðlast meiri liðleika, betri öndun og yfirvegun. Þess vegna viljum við veita börnum tækifæri á að læra að höndla þessi verkfæri sem vinna gegn streitu.”
Tilraunaverkefni innan Hörðuvallarskóla fer af stað í haust
Hörðuvallarskóli í Kópavogi er þegar kominn í formlegt samstarf við Jógahjartað, en ætlunin er að innleiða stutta íhugun og slökun í átta skipti hjá fyrstu fjórðu bekkjum skólans á nýju skólaári. “Við erum þegar farnar að sækja eftir styrkjum og í því samhengi vil ég benda á að hægt er að gerast félagi Jógahjartans gegnum vefsíðu okkar, þar sem hægt er að lesa til um æfingar, tækni og fylgjast grannt með starfinu. Við viljum að vefsíðan verði vettvangur þar sem foreldrar geta nálgast æfingar og lært einfaldla hugleiðslutækni með börnum sínum, svo kennslan fari ekki bara fram á skólatíma,” bætir Arnbjörg jafnframt við og hlær. “Það er alveg tilvalið að taka æfingarnar með sér heim og prófa! Yoga er ekki bara alvarleg æfingatækni, heldur líka alveg stórskemmtileg afþreying.”
Drauminn sá að hugleiðsla verði sjálfsagður hluti af almennri námsskrá
En hvaða viðtökur hafa þær stöllur fengið í grunnskólakerfinu? Hleypa stjórnendur ekki í brúnirnar þegar minnst er á hugleiðslutækni á skólatíma? Arnbjörg segir verkefninu hafa verið vel tekið þar sem þær hafi sóst eftir samstarfi og að þær hafi alls staðar mætt jákvæðum viðhorfum. “Skólastjórinn í Hörðuvallarskóla var alveg himinlifandi þegar við bárum hugmyndina upp og þáði boð okkar með þökkum. Þetta verður í fyrsta sinn sem við erum að koma inn í skólana og byggjum okkar starf alfarið á styrkjum, en við viljum með þessu móti bjóða fram hjálp okkar svo fólk sjái og geti metið reynsluna sjálft. Okkar starf er enn á kynningarstigi, en draumur okkar er sá að eftir fáein ár verði hugleiðsla orðinn sjálfsagður hluti af skólastarfinu og almennri námsskrá.”
Innan Hjallastefnunnar hefst hver dagur á jógaæfingum barna
Þegar spjall okkar ber upp er Arnbjörg nýstigin út af fundi með Evu Rún Þorgeirsdóttur, jógakennara og barnabókahöfundi, en Eva Rún starfar sem jógakennari innan Hjallastefnunnar. “Við hittumst nú í morgun, en ég og Eygló Lilja, sem einnig er verndari Jógahjartans erum í góðu samstarfi við Evu Rún. Við erum átta alls, en við erum með lengri jógatíma einu sinni í viku. Sú hugleiðslutækni sem við kennum börnunum innifelur hins vegar tíu mínútna hugleiðslu og er alveg stórkostleg. Í Hjallastefnunni hefst hver dagur á léttum jógaæfingum, en í barna- og leikskóla Hjallastefnunnar við Nauthólsveg hefst hver dagur á 10 mínútna jógaæfingum. Þau sjá jákvæð áhrif þess á börnin og ætla að halda því áfram.”
Vilja einnig bjóða upp á námskeið fyrir kennara
Og Arnbjörg segist bjartsýn á starfið sem framundan er. “Ég trúi því að þetta sé gerlegt en starf okkar byggir á því að skólarnir hafi áhuga á því að kynna þetta fyrir þeim börnum sem eru í grunnskóla. Við í Jógahjartanu viljum einnig bjóða upp á námskeið fyrir kennara ef vilji verður fyrir hendi, þar sem farið verður í grunnatriði hugleiðslu, öndunartækni og aðrar skemmtilegar jógaæfingar fyrir börn.”
Áhugasömum er bent á Facebook síðu Jógahjartans: Smellið HÉR en á vefsíðu Jógahjartans má lesa um frekari upplýsingar, sækja jógaæfingar fyrir foreldra og börn og gerast meðlimur: Smellið HÉR
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.