Þegar þessar línur eru settar á blað er aðventan að ganga í garð og brátt styttist í jólin. Um stræti og torg eru allir á ferð og flugi með hugann við jóla undirbúninginn, það er verið að baka og kaupa og skreyta og gleðjast með vinum og vandamönnum og jólastemmningin margrómaða læðist að. En það er ekki einber hamingja á öllum heimilum. Þegar líða tekur að jólum og jólaljósin ljóma um borg og sveit er nefnilega ekki laust við að ákveðins kvíða taki að gæta hjá mörgum er bíða eftir hátíðinni. Það geta verið margar ástæður fyrir þessum kvíða, aðrar en jóla stressið sem einkennir hina glaðværu hjörð er hleypur búð úr búð í leit að jólagjöfum vikurnar fyrir jól. Reyndar er það spurning hvort sú glaðværð sé ekki líka kvíðablandin hjá mörgum. Jólin eiga að vera fullkominn, en það er eins og með leikföngin sem aldrei eru eins flott þegar þau koma upp úr pökkunum og þau voru í auglýsingunum ; hamingjan fæst ekki keypt og það vitum við ósköp vel.
En það var þetta með kvíðann. Sumir hafa orðið fyrir óbætanlegum missi á árinu sem er að líða og sorgin sem fylgir missinum magnast upp þegar jólaljósin ljóma. Missirinn getur verið margskonar. Þau sem misst hafa ástvin sinn eiga erfitt með að horfa til jólahaldsins án hans. Allir siðirnir og venjurnar sem tengjast jólunum minna á þann sem horfinn er. Aðrir hafa e.t.v. lent í skilnaði, hafa þannig misst fjölskyldu sína og kvíða fyrir því að halda jól í fyrsta sinn eftir skilnaðinn . Hugurinn reikar til horfinna jóla þegar allt lék í lyndi og spurningin um það hvernig jólin verði undir þessum nýju kringumstæðum lætur mann ekki í friði. Enn aðrir hafa orðið fyrir fjárhagslegum missi eða hafa misst heilsuna af einhverjum ástæðum og kvíða þess vegna því sem í vændum er. Svo má ekki gleyma öllum þeim mörgu sem óttast það að hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa í einhverju jólahaldi. Það stefnir í að aldrei hafi eins margir þurft á aðstoð að halda á undanförnum árum eins og einmitt um þessi jól. Á jólum og áramótum er fátt erfiðara en að sitja hjá sökum fátæktar, eiga ekki fyrir hátíðahaldi, geta ekki veitt börnunum sínum þau jól sem öll börn eiga skilið. Þennan hóp fylla öryrkjar, sjúkir og einstæðir bara svo nokkur dæmi séu nefnd.
Og svo eru það hinir sem sjá fram á að verða svo örmagna um jólahátíðina af vinnu að engir kraftar verði eftir til þess að halda eigin jól. Ætli afgreiðslufólk verslana sé í miklu jólastuði svo dæmi sé tekið, þegar jólavertíðinni lýkur? Svona mætti lengi telja. Auðvitað er engin einföld lausn til á öllum þeim atvikum og aðstæðum lífsins sem valda svo mörgum kvíða og áhyggjum fyrir jólin. Sorginni vegna ástvinamissis eða skilnaðar verður t.d. ekki sópað undir jólatréð svona rétt yfir hátíðarnar. En það er gott að gera sér grein fyrir því, á miðri jólaföstu, þegar jólakvíðinn sækir að, að maður er ekki einn á báti. Það er hægt að leita sér stuðnings og aðstoðar annarra sem hafa upplifað svipaðar tilfinningar í kringum jólin. Margir stuðningshópar eru starfandi sem taka öllum opnum örmum. Fyrsta skrefið er kannski að gera sér grein fyrir því að jólahald þarf ekki að vera í föstum skorðum. Nýjar leiðir í breyttum aðstæðum til að halda hátíð án þess að lítið sé gert úr hinu liðna losar marga undan óttanum við jólin og glæða jafnvel jólatilfinninguna nýju lífi. Hitt er annað að enginn ætti að þurfa að kvíða hátíðanna vegna fátæktar eða ofþreytu. Það væri glæsileg jóla og nýársgjöf til okkar sjálfra Íslensdinga, ef við tækjum höndum saman gegn slíkri þjóðfélagslegri niðurlægingu. Í þeim málum sem öðrum er vilji allt sem þarf.
Ég minntist hér fyrst á jólastemmninguna og þar með jólarómantíkina. Fátt er rómantískara en jólalögin og jólaljósin og jólahátíðin þegar vel tekst til. Rómantík er hugtak sem felur í sér eitthvað gott, einhverja sælu, einhverja hamingju sem gefur lífinu gildi. Þessi sæla verður að jólasælu um jólin. En því miður þá leyfum við rómantíkinni allt of sjaldan að blómstra í lífi okkar. Og þess vegna förum við allt of oft á mis við hamingjuna og sæluna sem rómantíkin gefur okkur. Oft er það svo að of margar stundir hverfa í annríki daganna. Það á líka við í jólastressinu miðju. Til að vega upp á móti þreytu og stressi á aðventunni flýja margir á náðir flöskunnar. Áfengisneyslan bætist þá ofan á önnur vandamál sem íþyngja fjölskyldunni og eykur þreytuna, peningaleysið og lífsleiðann. Ætli það séu ekki mörg börn sem kvíða helgum aðventunnar þegar drykkjan tekur völdin í lífi fjölskyldunnar?
Ég er að velta því fyrir mér hvort ekki væri hægt fyrir þau sem eiga í erfiðleikum og leita á náðir áfengis þegar jólakvíðinn sækir að, að nota nú tækifærið um þessi jól til að gera hlutina öðruvísi en venjulega. Hvernig væri að einsetja sér að gera jólin rómantísk og notaleg fyrir alla fjölskylduna, hvort sem við erum hjón, í sambúð eða búum ein með börnunum okkar? Og áramótin með! Fyrsta skrefið til þess er að taka ákvörðun um að forgangsraða á nýjan hátt. Jólin búa yfir öllu því sem til þarf að styrkja og efla sambandið og hamingjunna innan fjölskyldunar:, friði, kertaljósum, góðum mat og jóla rómantík. Það er að segja, ef við látum ekki æsinginn í kringum okkur spilla fyrir okkur jóla friðnum og ræna frá okkur tímanum. Og ef við látum ekki áfengið taka völdin á hátíðinni. Sumir telja sér reyndar trú um að þeir geti ekki gefið jóla rómantíkinni lausan tauminn nema áfengi sé notað til þess að brjóta niður einhverja múra. En áfengi er mesti óvinur jólahamingjunnar. Og ef hamingjan er í molum er heimilislífið í molum. Á mörgum heimilum ógnar áfengisneysla jólafriðnum, því áfengið er notað sem flóttaleið frá vandanum sem býr undir niðri. Það er því best að láta áfengið eiga sig og gefa jólarómantíkinni tækifæri til að blómstra af fúsum og frjálsum vilja. Og hver veit, ef vel tekst til, þá geta einmitt þessi jól orðið upphafið að nýju og farsælu ævintýri í ykkar fjölskyldu.
Gleðileg , jóla-rómantísk, óstressuð og áfengislaus jól.