Jordan Belfort á Íslandi – Guð hjálpi okkur!

Yfirlýsing frá Yslandi sem stendur fyrir konu Jordan Belfort á Íslandi:

Jú, það er rétt að hinn illræmdi „Úlfur á Wall Street“ verður með söluráðstefnu á Íslandi þriðjudaginn 6.maí í Háskólabíói. Margir eru að spyrja sig hvers vegna og umræðan hefur verið litrík undanfarnar vikur í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Ef að skilyrði fyrir viðburðahaldi á Íslandi er flekklaus fortíð viðkomandi fyrirlesara eða listamanns þá væri takmarkað framboð af áhugaverðum viðburðum hér á landi – hvort sem væri með innlendum eða erlendum listamönnum. Miðað við heiftarleg viðbrögð og umræðu á netinu þá er eins gott að gera engin mistök í lífinu meðan sjálfskipaðir siðapostular samfélagsmiðlana tryggja sér vonandi um leið þykkara gler í glerhúsið sitt góða.

Ysland stendur fyrir viðburðum með athyglisverðu fólki sem höfða til fjölbreytts hóps áheyrenda og flytja boðskap sem hreyfir vonandi við ráðstefnugestum. Í síðustu viku voru það Joeri Van den Bergh og Mattias Behrer höfundar How Cool Brands Stay Hot bókarinnar og Oliver Luckett, samfélagsmiðla-snillingur og eigandi theAudience sem töluðu í Háskólabíói. Þann 6.maí er það hinn umdeildi og umtalaði Jordan Belfort. Á næstu mánuðum verður svo tilkynnt um enn fleiri erlenda gesti sem munu halda hér áhugaverða fyrirlestra. Þegar kemur að valinu er margt sem þarf að taka með í reikninginn, t.d. kostnaður, alþjóðleg skírskotun og orðspor viðkomandi, og það getur reynst þrautin þyngri að komast að niðurstöðu.  Ysland hefur fram að þessu valið fyrirlesara sem eru áhugaverðir en ögra engum, eins og góðra ráðstefnuhaldara er siður.

Þetta er augljóslega ekki raunin með Jordan Belfort. Kvikmyndin um uppátæki Jordans Belfort sló í gegn hjá áhorfendum og gagnrýnendum og fékk fjölda Óskarstilnefninga. Kastljós fjölmiðla hefur því aftur beinst að manninum sjálfum og umfjöllunin er ekki alltaf á jákvæðu nótunum.  Þó að Martin Scorsese og Leonardo DiCaprio hafi staðið vel að verki þegar þeir túlkuðu lífshlaup hans að hætti Hollywood má ekki gleyma að tilgangurinn með The Wolf of Wall Street var ekki síður að segja æsilega sögu. Markmið Yslands er að bjóða upp á viðburð sem hreyfir við áheyrendum. Þess vegna varð Belfort fyrir valinu. Ekki vegna þess að Ysland samþykki það sem hann gerði, heldur vegna þess að við getum svo sannarlega lært af honum.

Einnig hefur mikið verið rætt um miðaverðið á viðburðinn og að það kosti litlar 7000 kr á fyrirlestur hans í Danmörku, en þessir tveir viðburðir eru einfaldlega ekki sambærilegir og á samanburðurinn því ekki rétt á sér. Jordan Belfort heldur tveggja tíma fyrirlestur um líf sitt í Danmörku, ekkert annað. Jordan Belfort heldur klukkutíma fyrirlestur á Íslandi og þriggja klukkutíma Straight Line Persuasion sölunámskeið með spurt&svarað. Það er einfaldlega kostnaðarsamari útfærslu af því sem hann hefur upp á að bjóða, nálægð gesta og tenging við hann er mun meiri en stærsti þátturinn auðvitað kennsla á öflugasta sölukerfi sem völ er á þ.s þátttakendur fá grunnþjálfun í því sem þarf til að ná langt í viðskiptum, auk þess að læra sérstaka tækni og aðferðir til að ná árangri í uppbyggingu, stjórnun og vexti. Þetta þýðir að í Háskólabíói þennan dag fær fólk miklu meira út úr viðburðinum

Árið 1998 var Belfort ákærður fyrir fjársvik og peningaþvætti. Hann lék á kerfið og hafði milljónir dala af hundruðum fjárfesta. Framferði hans var bæði ólöglegt og siðlaust. Öfugt við fjárglæframenn Íslands sem fóru hér hamförum fyrir hrun þá hlaut Jordan Belfort sinn dóm, sat 22 mánuði í fangelsi og var skipað að endurgreiða þeim sem hann hafði svikið yfir 110 milljónir dala. Nú er honum skylt að láta hluta tekna sinna af hendi til að standa skil á skuldum sínum við ríkið og endurgreiðslum til fórnarlamba sinna. Hann lætur allar tekjur sem hann fær af kvikmyndinni, bókum sínum og fyrirlestrum renna til þessa skuldbindinga og fer í einu og öllu eftir úrskurðum dómstóla.

Valið á Jordan Belfort sem fyrirlesara hefur vakið gríðarlega mikla athygli og umtal.  Sumir sem hafa séð myndina eru skelfingu lostnir. Aðrir spenntir. Þó að atburðir á hvíta tjaldinu endurspegli ekki alltaf raunveruleikann líta samt margir á Belfort sem illmenni.

Sannleikurinn er þó ekki svo einfaldur. Saga Belforts er víti til varnaðar um svikastarfsemi sem er látin óáreitt, en það er málefni sem hefur verið áberandi í umræðunni eftir hrunið 2008. Þrátt fyrir skuggalega fortíð Belforts er óumdeilanlegt að þeir sem starfa við áhættustýringu og sölumennsku geta mikið lært af viðskiptaviti, samskiptafærni, sölugetu og forystuhæfileikum hans, um leið og þeir forðast að falla í sömu gryfjur á framabrautinni.

Ef eitthvað þá hefði Jordan Belfort átt að koma hérna einhverjum árum fyrir hrun og lesa yfir svokölluðum “útrásarvíkingum” sem rændu þjóðina – þeir hefðu allir haft gott af því að læra af þeim mistökum sem hann gerði mörgum árum áður.

En auðvitað er langbest að láta Jordan Belfort segja þetta sjálfan eins og fram kom í viðtali Morgunblaðsins við hann:

„Ég held að besta fólkið til að læra af, í hverju sem er, hvort sem það tengist viðskiptalífinu, siðfræði, sölutækni eða samböndum, sé fólk sem gert hefur mistök. Ef ég vildi læra á viðskiptalífið, myndi ég trúlega vilja læra af einhverjum sem gert hefur nóg af mistökum á því sviði, dregið lærdóm af þeim og fer rétt að í dag. Maður getur jafnt dregið lærdóm af því sem fór vel og því sem fór miður.

Sú staðreynd að mér tókst að vinna mig upp úr þessu og öðlast farsælt líf getur reynst öðrum andlega hvetjandi. Sú hugmynd að taka einhvern sér til fyrirmyndar snýst ekki aðeins um að taka það góða úr lífi þeirrar manneskju og tileinka sér það eftir heldur jafnframt að skoða mistök viðkomandi og læra af þeim.

Ég held að fólk eigi eftir að tengja auðveldlega við það sem ég hef fram að færa. Ég veit að Íslendingar hafa þurft að glíma við meiriháttar vandamál. Það er örugglega mikil reiði út í bankaumhverfið og það er réttlát reiði. Ég tel að á Íslandi sé fólk sem geti verið reitt út í mig, sem fulltrúa þessa kerfis. Ég vona að það sama fólk, sem er hleypidómalaust, komi og sjái mig af því að ég held að þegar það heyrir hvað ég hef fram að færa skilji það tilgang ferða minna. Vonandi get ég veitt því innblástur og sýnt því að sama hvað hefur gengið á þá er alltaf hægt að vinna sig út úr því.“

Undirritaður er landsstjóri Yslands.

SHARE