Julia Roberts mun kynna vorlínu tískuhúss Givenchy árið 2015 og hefur djarft val Riccardo Tisci, sem er leiðandi fyrir tískuhúsið vakið ómælda athygli alþjóðamiðla. Leikkonan, sem er 48 ára gömul, mun vera einkar varkár í yfirlýsingum og er ekki virk á samskiptamiðlum, né heldur hefur hún haldið úti neinu bloggi sem undirstrikar áhrif hennar í tískuheiminum og síður en svo er Julia gjörn á að veita blaðamönnum upplýsingar um einkahagi sína.
Engu að síður hefur Julia talsverð ítök í heimi hátískunnar og var þannig andlit Lancomé um árabil, er virt leikkona í henni stóru Hollywood og er enn rómuð fyrir hlutverk sitt sem blessunarlega óreynd vændiskona í 90’s smellinum Pretty Woman sem skilaði henni viðurkenningu og vegsæmd. Þá ber Julia lágmarks farða á ljósmyndum sem Tisci birti á Instagram reikning sínum fyrir fáeinum sólarhringum, hún hefur alvarlegt yfirbragð og er íklædd kjólfatnaði á einni myndinni sem ljáir henni nær karlmannlegt og gífurlega sterkt yfirbragð.
.
.
Sjálfur hefur Tisci unnið með ekki ómerkari fyrirmyndum innan hátískuheimsins en Kanye West svo eitthvað sé nefnt og hannaði þannig plötuumslagið á albúmi West og Jay Z, Watch the Throne. Tisci hannaði einnig brúðarkjól Kim Kardashian og var ábyrgur fyrir klæðavali Kanye þegar þau gengu upp að altarinu; hann fékk einnig ofurmódelið Joan Smalls til samstarfs meðan hún er enn tiltölulega óþekkt nafn í hátískuheiminum og hefur ljósmyndað söngdívuna Erykah Badu.
.
.
Af þessu má lesa að Tisci fetar ekki troðna stígu þegar að vali á viðfangsefnum kemur og sjálfur segist hann leita í faðm náinna vina þegar að vali á fyrirsætum fyrir tískuhúsið kemur, en hann er náinn vinur Juliu Roberts og fer ekki í grafgötur með aðdáun sína á yfirvegun hennar, klassísku yfirbragði og jarðfestu leikkonunnar sem giftist óþekktum kvikmyndatökumanni fyrir mörgum árum síðan og hefur allar götur síðan haldi einkalífi sínu og starfsvettvangi vandlega aðskildum.
.
.
Færri vita þó að Tisci er einlægur aðdáandi níunda áratugarins og hreifst fyrst af Juliu þegar hún fór með hlutverk í fyrrgreindri mynd, Pretty Woman og að besta senan í huga Tisci, sem er ítalskur að ættum vann sig upp úr sárri fátækt og upp á toppinn á einungis tíu árum, er einmitt senan þar sem Julia Roberts – í hlutverki óreyndu vændiskonunnar Vivian – gengur inn í hátískuverslunina Rodeo Drive á Manhattan og segir afgreiðslustúlkunni, sem fær greitt í samræmi við sölu – að sú hin sama hafi gert skelfileg mistök þegar hún rak ungu stúlkuna út úr versluninni deginum áður á þeim forsendum að hún væri ekki nægilega fín til að eiga viðskipti við verslunina:
.
Sjálfur hefur Tisci ollið straumhvörfum innan tískuhússins síðan hann tók við sem aðalhönnuður Givenchy og þykir hafa fært tískuna nær götunni, ef svo má að orði komast ásamt því að höfða sterkt til yngri kynslóðanna með djörfu vali á mynstrum sem áprentunum, en rómantíska undiröldu má þó enn greina í línum hátískuhússins. Tisci er hógvær í orðavali þegar talið berst að velgengni hans og segist þakklátur þeirri staðreynd að hann var valinn til að hanna fyrir Givenchy, kvöldklæðnað sem lúxusvarning annars vegar og klæðnað sem hæfir götutísku hins vegar.
.
.
„Ég er mjög lánsamur maður og er þakklátur þeim heiðri sem mér hefur hlotnast í starfi. Ég hef fengið tækifæri á að hanna krókódílaveski og glæsta kvöldkjóla samhliða hefðbundinni hversdagstísku. En einu mun ég aldrei gleyma og það eru áhrif götunnar. Þau áhrif ber ég í blóðinu og mun allar götur gera.”
.
Um samstarfið við Juliu Roberts segir þessi hugrakki hátískuhönnuður sem hefur margoft skorað staðalmyndir kynjanna á hólm með vali sínu á fyrirsætum, að hann sé algerlega í skýjunum.
.
.
„Ég fékk gæsahúð um allan líkamann meðan á tökunum sjálfum stóð. Fyrir tíu árum síðan átti ég ekki einu sinni peninga til að kaupa mér föt sjálfur. Áratug seinna er ég viðstaddur hátískutöku með sjálfri Juliu Roberts.”
Heimild: Guardian
Tengdar fréttir:
Fáklædd Madonna (56) í fantaformi kynnir vorlínu Versace fyrir 2015
Munúðarfull Candice Huffine elskar að vera módel í yfirstærð
Kyntáknið Shaun Ross: Fallega ljóti albínóinn frá Bronx
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.