Þessi draumur byrjaði í febrúar þegar ég er 17 ára. Ég kynntist strák, í gegnum vinkonu. Hann var draumur, ég var á bleiku skýi. Við fórum að hittast og stuttu seinna byrjuðum við saman. Allt gekk vel og ég hafði aldrei verið hamingjusamari.
Allt breyttist
Svo var það ein helgin í júni, Sjómannadagshelgin, þá ákváðum við að fara vestur ásamt móður minni, yngri systur minni og kærasta hennar. Eftir stutta dvöl þar, fórum við suður aftur, það var ekkert að gera þarna og okkur langaði í bæinn. Við fjögur fórum suður, en móðir mín varð eftir fyrir vestan, hjá ömmu minni.
Þegar við erum komin í bæinn, ákváðum við að fara í ÁTVR en þar mættum við eldri systur okkar. Þar sér hún að settir eru tveir kassar af bjór í skottið. Hún vildi að við myndum gera eitthvað saman um kvöldið, öll fimm, en við fjögur vorum ekki alltof hrifin af því. Þegar kvöldar erum við fjögur heima og farin að drekka, síminn hringir og kærastinn minn segir mér að svara ekki, því jú við vildum bara vera fjögur. Hún hringir oft og aldrei svöruðum við símanum. Stuttu seinna er farið að hringja dyrabjöllunni, við máttum ekki svara, kærastinn minn tók alveg fyrir það. Skömmu seinna er barið á dyrum, einhver hafði hleypt henni inn í blokkina, hún kallar og kallar og kallar á kærastann minn og skipar honum að opna, en við máttum ekkert gera og alls ekki opna fyrir henni.
Ekki líður á löngu þar til við heyrum í löggunni fyrir utan og í talstöðinni hjá henni, samt er hurðin ekki opnuð, fyrr en lásasmiður er kallaður á svæðið. En þá erum við öll komin inní herbergið mitt og búin að læsa en kærastinn minn er frammi. Næsta sem heyrist er í eldri systur minni sem öskrar á kærastann minn og spyr hver andskotinn sé í gangi. Við heyrum eitthvern hávaða eins og einhver hafi lent á hurðinni minni, en það var víst lögreglumaður sem hafði endað á stól sem var þar hjá. Svo heyrum við að hann er spurður af hverju hann haldi á eitthverri spýtu þegar þau opnuðu hurðina, þá sagðist hann ekki vita hver hefði verið þarna fyrir utan og hélt þetta væri innbrotsþjófur eða eitthvað álíka heimskulegt. En þegar við heyrum að komið er til átaka þarna frammi, öskrum við og opnum hurðina. Sjáum við þá að foreldrar kærasta systur minnar eru þarna, eldri systir okkar, og fullt af lögreglufólki. Þessi helgi sem átti að vera svo ljúf, breyttist heldur betur.
Eftir þessa helgi, breyttist heldur betur andrúmsloftið á heimilinu. Það var oftar rifist, eldri bróðir minn var oft kallaður til, til að skakka leikinn og til að róa fólkið, fá botn í málið.
Enginn draumprins eftir allt saman
Draumaprinsinn fór svo heldur betur að breytast og þrengja að mér. Prívatið sem einstaklingur á að hafa, varð ekkert. Ég mátti ekki fara neitt og koma brosandi til baka þá varð hann að spyrja af hverju ég væri brosandi. Ég sagðist einu sinni hafa verið að tala við strák sem var með mér í skóla, þá varð hann svo rosalega abbó og fór í geðveika fýlu. Ég mátti ekki tala í símann, eða senda sms án þess að hann þyrfti að vita öll smáatriði. ÉG mátti EKKI fara á salernið ein. Þannig var þetta, alla daga.
Kvöld eitt í október fórum við kærastinn minn og yngri systir á rúntinn og í leiðinni ætluðum við að koma við í sjoppu og skila videóspólunni. En uppá Stöð hittum við tvo vini og æskuvinkonu mína, þau biðja mig um að koma með sér á rúntinn, bara mig. Ég var ekkert alveg of viss, hvort ég ætti að fara og hvort ég mætti það yfir höfuð, ég lít á kærastann minn og spyr hann hvort honum sé sama, og svo á systur mína og þau bara bæði já endilega, (systir mín ætlaði að fara að hitta vinkonur sínar og kærastinn minn ætlaði bara heim og horfa á tv.) Ég lét ekki segja mér það tvisvar. Við fórum á rúntinn og kíktum svo heim til mín, en þá var komin langt fram á nótt.
Þegar við komum heim til mín, var kærastinn minn, ber að ofan og í gallabuxum inni í herbergi, en var svo fljótur að fara í bol þegar við komum inn. Sum okkar fengu sér bjór. En fljótlega fór liðið heim, þar sem móðir mín vaknaði við umganginn og var ekkert alltof sátt. En þetta er kvöldið sem kærastinn minn, draumurinn minn, misnotaði systur mína kynferðislega á meðan ég var á rúntinum.
Gríðarleg afbrýðisemi
Þegar hann vildi stunda kynlíf, en ég ekki, þá kom orðið „máta“ eins og hann passaði ekki! Og til þess að hann hætti að suða eins og krakki að þá lét ég undan.
Í byrjun desembermánaðar finnum við okkur íbúðarhúsnæði og hefjum okkar búskap. Aðallega til að losna við allt rifildi og þras sem var á heimilinu, sem var orðið daglegt brauð. Ég finn mér vinnu og hann líka, en alltaf komu upp eitthvað vesen upp hjá honum í vinnunni, eins og útivinnan sem hann sótti um, það var of kalt, eða hinar vinnurnar hentuðu ekki. Þannig að ég endaði á að borga allan brúsann. Þetta var of mikið. En á þessum tíma, leið mér hryllilega andlega.
Sjá einnig: 14 játningar frá fólki í sambandi
Í einni heimsókninni til mömmu, segja mamma og yngri systir mín mér, hvað hann hafi gert henni, kvöldið sem ég hafi farið á rúntinn með vinum og vinkonu. Ég fór í sjokk, ég bjó með þessum manni og hvað gat ég gert? En samt var þessi togstreitan á milli þess að vilja vera með honum, hr. Draumi eða vera hjá móður minni og systkinum, því, eins asnalegt og það var að þá elskaði ég hann ennþá á þessum tímapunkti. Hann hætti að fara með mér til mömmu, þar sem þeim samdi ekki og hvað þá við yngri bróður minn. En það var líka takmarkað hvað ég mátti fara og vera lengi, ef hann var ekki á staðnum. Svo þegar ég kom heim að þá byrjaði yfirheyrslan.
Það var svo í apríl að ég fór í heimsókn til mömmu, ein, að ég fer að tala við hana og segi henni frá því hvernig mér líður. Ég hringi í kærastann minn og spyr hann hvað hann sé að gera, hann segist bara vera heima og taka til, og segir að yngri systir sín sé hjá sér. Ég spyr hann hvort hann geti komið með dótið mitt, hann játar því.
Nauðgað af kærastanum fyrrverandi
Eftir að ég flutti heim, heyrði ég ekki í honum í nokkra daga. Það var gott, að fá að vera ég sjálf. En svo fór ég að hitta hann aftur, fannst það rangt en gerði það engu að síður.
Í júní, flutti hann í atvinnuhúsnæði sem foreldrar hans voru með. Ég flutti hálfpartinn með honum þarna. Ég hjálpaði honum að flytja og koma dótinu fyrir, en samt var það ekki ég sem var að flytja. Það var svo í þessum mánuði sem það gerðist. Við höfðum verið eitthvað úti, ég var í gráum jogging buxum, rauðri rúllukragapeysu og gráum flísjakka. Við komum inn, stofan og herbergið var sama rýmið, hann ýtir mér á rúmið og byrjar. Ég bið hann um að hætta en hann hættir ekki, hann klárar sig af. Í huga minn kom „þér hefur verið nauðgað“. Ég var svo dofin, samt fer ég fram í eldhús og sæki plastpoka og set dótið sem ég var með hjá honum í pokann. Það sem hann gerir eftir þetta er að setjast í sófann og fer að hágráta. Ég vildi losna þaðan í burtu og segi honum að hætta að gráta. Hugsaði bara með mér að mig langaði bara að komast heim og ekki var ég með bílpróf, svo ég bið hann um að skutla mér heim, sem hann og gerir.
Þegar við erum komin fyrir utan heima segist hann hafa gleymt símanum sínum heima og þurfi að hringja í mömmu sína. Ég rétti honum símann en sé hvað hann er eitthvað lengi að pikka inn númerið. Þá hreytir hann út úr sér að ég sé ekki lengi að byrja að tala við eitthverja aðra stráka. Ég ríf af honum símann og spyr hvern djöfulinn það komi honum við.
Sjá einnig: 5 merki um að þú búir við andlegt ofbeldi
Ég fer inn og er loks laus við þennan mann. Ég hætti að svara í símann þegar hann hringir og sendir sms. Í sms-unum spurði hann af hverju ég vildi ekki tala við sig, hann vissi ekki hvað hann hafði gert rangt.
Svo var það stuttu eftir þetta að mamma mín biður mig um að fara til nágrannans og fá lánaðan dósaopnara, ég neita því, fann það á mér að hann væri þarna frammi. Og ég bið yngri bróður minn um að gera það, honum fannst það ekkert mál og fer. Kemur stuttu seinna og spyr mig hvað sá fyrrverandi sé að gera fyrir utan, guð hvað ég var þakklát að hafa ekki farið fram á gang.
Núna 11 árum síðar, er ég ekki enn búin að vinna mig úr þessu, en með því að segja sögu mína vona ég að ég fái frið í sálinni minni.
ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS
Viltu senda inn þína reynslu til að miðla til annarra? Sendu þá söguna þína á thjodarsalin@hun.is