Þessi dásamlegheit koma frá Eldhússystrum.
Ég ákvað að búa til karamellupoppkorn þar sem slík dásemd fæst varla í Svíþjóð og þegar maður finnur þá kostar það hálfan handlegg. Ég hugsaði með mér að það gæti ekki verið svo flókið að gera þetta bara sjálf – og viti menn! Það voru auðvitað til tíu þúsund mismunandi uppskriftir á internetinu. Ég notaði þessa hér.
Áður en þið látið vaða í að prófa þessa uppskrift þá vil ég bara vara ykkur við, þetta er gjörsamlega ávanabindandi og fullkomlega fáránlega gott. Búist til á eigin ábyrgð. Ég er kannski og kannski ekki að ljúga þegar ég segist mögulega hafa borðað þetta óvart í morgunmat daginn eftir að ég bjó þetta til…
Hráefni
2 lítrar (u.þ.b.) af poppuðu poppi
230 gr smjör (smjörlíki fyrir vegan uppskrift)
2,5 dl púðursykur
0,8 dl ljós sýróp
2 tsk sjávarsalt (meira ef vill)
Aðferð
Hitið ofninn í 180°c.
Poppið poppið. Setjið smjörið, púðursykurinn, sýrópið og saltið saman í pott á miðlungs hita. Látið suðuna koma upp. Sjóðið í 4 mínútur án þess að hræra í pottinum.
Hellið karamellunni yfir poppið og hrærið vel. Setjið bökunarpappír á ofnskúffu. Setjið poppið á ofnskúffuna og bakið í 30 mínútur. Hrærið 3-4 sinnum í poppinu á meðan það era ð bakast.
Látið kólna (ef þið getið hamið ykkur…)
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.