Á vefnum allskonar.is má finna alveg frábærar uppskriftir, hér kemur ein frá Allskonar .
Sjúklega girnilegt!
Þú getur notað kanil í staðinn fyrir kardimommurnar í þessari uppskrift ef þú vilt hefðbundna kanilsnúða/hnúta.
Hnútana er einfalt að hnýta, deigið er smurt og svo brotið í tvennt. Þú skerð svo 1/2 cm ræmur úr deiginu. Hverja ræmu skerðu svo aftur í tvennt eftir ræmunni endilangri, tekur upp, snýrð upp á og hnýtir í hnút.
Uppskriftin er fyrir um 16 hnúta.
- 40 gr smjör
- 125 ml mjólk
- 7 gr þurrger
- 50 gr sykur
- 1 egg, slegið saman
- 320-375 gr hveiti( fer eftir stærðinni á egginu)
- 1/2 tsk salt
- –
- 75 gr smjör, mjúkt
- 1 tsk vanilludropar
- 2 msk sykur
- 2 tsk kardimommur, malaðar
- smá mjólk til að pensla hnútana
Undirbúningur: 5 mínútur
Hnoðun og hefun: 100 mínútur
Bakstur: 12-15 mínútur
Byrjaðu á að bræða smjörið í skaftpotti, helltu þar næst mjólkinni út í og slökktu undir.
Settu þurrger og sykur í stóra skál og helltu mjólkinni með smjörinu út í. Láttu standa þar til gerið fer að freyða.
Sláðu egginu saman með gaffli í skál og hrærðu varlega út í gerblönduna, helltu henni svo hægt og rólega út í hveitið og hnoðaðu. Það er best að byrja á 2/3 af hveitinu og bæta svo afgangnum hægt og rólega saman við þegar er hnoðað. Ekki svindla á að hnoða vel, hnoðaðu í um 10 mínútur þar til deigið er mjúkt og teygjanlegt. Láttu í stóra skál og settu eldhúsfilmu yfir. Láttu hefast á hlýjum stað í 1 klukkustund.
Þegar deigið hefur hefast þá breiðirðu varlega úr því með kökukefli, það á að vera um 1/2cm á þykkt. Hrærðu saman smjörinu, vanilludropunum, sykri og kardimommunum og smyrðu jafnt yfir allt deigið. Brjóttu deigið saman og skerðu það í 1/2cm ræmur. Gott er að taka hverja ræmu og skera hana aftur í tvennt eftir endilöngu. Hver ræma er tekin, snúin og bundin saman í hnút. Settu hnútana á bökunarpappír á plötu og leggðu viskustykki yfir. Láttu hefast í 30 mínútur.
Hitaðu ofninn í 200°C á meðan hnútarnir hefast.
Þegar hnútarnir hafa hefast vel þá penslarðu þá með örlítilli mjólk og bakar í miðjum ofninum í 12-15 mínútur. Láttu kólna í nokkrar mínútur á bökunargrind.
Dásamlegir með köldu mjólkurglasi, kaffi – eða hverju því sem þér finnst best.
Sjá einnig:Ristaðar möndlur með kanil
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!