Katrín Edda Þorsteinsdóttir, sem verður 24 ára í maí, býr í Þýskalandi þar sem hún er í mastersnámi í Karlsruhe Institute of Technology. Hún kláraði BSc í vélaverkfræði við HÍ sumarið 2012.
Hvenær byrjaðir þú á fullu í ræktinni og hvenær tókstu þá ákvörðun um að keppa í fitness?
Ég byrjaði fyrst í þjálfun hjá Röggu Nagla á 1. ári mínu í verkfræðinni, 2010, og hún eiginlega kynnti mig fyrir lóðaþjálfun og byrjaði ég að lyfta fyrir alvöru þá. Seinna það sama ár kepptu tvær vinkonur mínar í fitness og módelfitness og kviknaði áhuginn örlítið og ég ákvað að leita til sama þjálfara og þær höfðu verið hjá, Konráðs Vals Gíslasonar, í World Class, og hvatti hann mig til þess að keppa í á Íslandsmótinu í módelfitness 4 mánuðum síðar og hefur verið mín stoð og stytta í þessu öllu saman.
Lenti í sjöunda sæti á sínu fyrsta móti en hálfu ári síðar tók hún þátt í Bikarmótinu og varð bikarmeistari í sínum flokki!
Ég keppti á Íslandsmótinu 2010, óstyrk, stressuð og með lágt sjálfstraust og varð þá í 7. sæti. Hálfu ári síðar ákvað ég að taka þátt á Bikarmótinu 2010 og ákvað að bæta framkomuna mína til muna og passa að mér liði vel með sjálfa mig á sviðinu og varð ég þá bikarmeistari í mínum flokki.
Aðspurð hvernig best sé að undirbúa sig undir keppni sem þessa segir Katrín að mikilvægast sé að leita allra fyrst til þjálfara sem er fróður um keppnisundirbúning og mikilvægt sé að vera meðvitaður um hvernig ferlið gengur fyrir sig. Katrín segir:
Persónulega tel ég að best sé að taka sér ákveðinn tíma í uppbyggingu áður en kemur að niðurskurðinum svo einhverjir vöðvar séu til staðar þegar byrjað er í niðurskurðarprógramminu. Ég tek vanalega 12 vikur í undirbúning fyrir keppni og æfi þá ca. 12 sinnum í viku og er á afar hreinu mataræði.
Er það ekki mikill agi og vinna að halda sér í svona góðu formi allt árið?
Þegar maður nær að tileinka sér þennan lífstíl og þetta er orðið að rútínu er heilbrigt mataræði ásamt reglulegum æfingum orðið eins sjálfsagt og að bursta tennurnar á kvöldin. Mér líður svo miklu betur þegar mataræðið er hreint og ég fæ mína útrás af því að mæta á æfingar svo fyrir mér er þetta ekkert mál!
Mikið hefur verið rætt um vigtina og kílóafjölda, hér sýnir Katrín okkur muninn á sér, hún er þyngri á annari myndinni en samt sem áður í þrusuformi, kílóafjöldi segir svo sannarlega ekki allt!
Katrín er sælkeri og er einn mesti súkkulaðiunnandi sem fyrirfinnst að eigin sögn. Heldur skyndibita og gosi í lágmarki.
Ég er sennilega mesti súkkulaðiunnandi sem fyrirfinnst og er Nóa kropp og Milka súkkulaði minn helsti veikleiki! (Og ég tala ekki um páskaegg..) En ég reyni nú yfirleitt að halda nammideginum aðeins á laugardögum og verður tilhlökkunin alltaf mun meiri ef ég hef verið dugleg alla hina dagana og því mun skemmtilegra að geta leyft súkkulaðigrísnum að fá sína útrás á laugardagskvöldum.
Eftir að ég byrjaði að halda mataræðinu hreinu hef ég lært að kunna betur og betur að meta það sem mér finnst allra best er ég alveg hætt að snerta á því sem mér finnst minna gott eins og skyndibitamat, snakki, poppi, hlaupi, brjóstsykrum, gosi, samlokum ofl. ofl. Því það er einfaldlega ekki eins gott og Nóa kropp!
Tekur það á andlega að taka þátt í svona keppni?
Þetta getur tekið mikið á andlega, já. Maður þarf virkilega að vera búinn að huga að andlegu hliðinni áður en maður dembir sér í fitnessundirbúning. Ég hef til dæmis verið undir miklu álagi vegna verkfræðinámsins og tvöfaldri vinnu fyrir alla mína fyrrum undirbúninga fyrir fitness og sé núna að þegar ég er ekki að vinna með skóla og álagið er minna að mér líður mun betur andlega, gengur betur og er betur tilbúin undir það sem koma skal andlega og líkamlega.
Það er margt sem getur ruglað í höfðinu á manni; margir mjög sterkir keppendur, margt að huga að og hef ég reynt að temja mér að hugsa einungis um sjálfa mig og mína framkomu á mótsdag og ákveða að gera bara mitt besta því ég get ekki gert neitt meir.
Það er aldrei hægt að ráða hvað dómararnir sjá og hvernig hinir keppendurnir mæta.
Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Þegar ég er ekki að undirbúa mig fyrir mót vakna ég, borða morgunmat, fer í skólann og kem heim seinni part dags. Ég fer á lyftingaræfingu og elda svo kvöldmat með kærastanum mínum, læri heima og fer að sofa.
Í niðurskurði er dagurinn mjög svipaður nema ég vakna 2 klukkustundum fyrr og fer á brennsluæfingu og svo um kvöldið útbý ég nesti fyrir næsta dag.
Hvað æfir þú oft á dag?
Þegar ég er ekki að undirbúa mig fyrir mót æfi ég 5-6 sinnum í viku.
Þegar þú ert ekki að undirbúa þig undir mót, breytist rútínan mikið eða heldur þú henni nokkurnveginn út árið?
Hún er mjög svipuð. Eina sem breytist er að mataræðið verður stífara og morgunbrennslan bætist inn í.
Hvernig er týpískur matseðill yfir daginn hjá þér?
Morgunmatur hafragrautur með súkkulaðipróteini.
Millimál: prótein/hreint skyr og banani.
Hádegismatur: Kjúklingur, salat og brún hrísgrjón.
Millimál: prótein/skyr og epli.
Fyrir æfingu: Hafragrautur með próteini.
Eftir æfingu: Lax, salat og grænmeti.
Fyrir svefn: Kaseinprótein/skyr.
Svo breytist matseðillinn eftir því hvort ég sé að skera fyrir mót eða ekki. Ég leyfi mér oft meira haframjöl, hnetusmjör, hrökkbrauð, meiri ávexti, grjón, sætar kartöflur og fleira ef ég er ekki í niðurskurði.
Hvað myndir þú ráðleggja stelpum sem vilja ná langt í fitness og langar að byrja að feta sín fyrstu fótspor?
Taka sér sinn tíma. Tala við þjálfara og fá ráð. Byrja að lyfta lóðum og bæta á sig vöðvum og læra að temja sér hreint mataræði. Þá verður mun auðveldara þegar kemur að ströngu mataræði í niðurskurðinum.
Stefnir þú á fleiri keppnir?
Ég hef ekki enn gert það upp við mig en ég hefði áhuga á að prófa að keppa á móti í Þýskalandi á meðan ég bý þar.
Er ekki erfitt að vera í námi og að keppa?
Jú, það getur reynt á. Lykillinn er skipulagning og aftur skipulagning og aðalatriðið er auðvitað að hafa gaman að þessu og líða vel á meðan á undirbúning stendur. Fitnessið er líka svo ótrúlega ólíkt náminu mínu að það er gott að geta tekið sér stundum pínu frí frá verkfræðinni og hugsað um fitnessið eða tekið sér frí frá fitnessinu og farið að diffra eða heilda í verkfræðinni.
Hvað er uppáhaldsmaturinn þinn á svindldegi? En drykkur?
Uppáhaldsskyndibitamaturinn er líklega Saffran kjúklingur eða Tex Mex vefja á Ginger en ég er samt allra hrifnust af heimatilbúinni mexíkóskri kjúklingasúpu sem tengdamamma mín gerir. Og að sjálfsögðu eitthvað gott súkkulaði í eftirrétt. Uppáhaldsdrykkurinn minn er alltaf vatn og drekk ég ógrynnin öll af því á hverjum degi hvort sem það er nammidagur eður ei.
Hver eru helstu áhugamál þín?
Ég hef náttúrulega mikinn áhuga á líkamsrækt og öllu sem viðkemur henni. Einnig hef ég alltaf haft mikinn áhuga á næringarfræði og finnst mjög gaman að lesa mér til um öll helstu bætiefni, vítamín, matvæli og fleira. Ég elska öll dýr, stór sem smá og hef mjög gaman að þeim öllum og eru kettir í uppáhaldi og hundar þar á eftir. Ferðalög, vísindi, útivera, bækur, kvikmyndir og fleira eru einnig á listanum.
Við þökkum Katrínu fyrir að leyfa okkur að fá smá innsýn inn í líf sitt og óskum henni velgengni í lífinu og á komandi mótum!
Hér getur þú svo séð myndir í fullri stærð.