Kennararnir í skólanum vissu af þessu en gerðu ekkert

Ég var ósköp venjulegur krakki, kannski svoítið ör og athyglissjúk en annars frekar venjuleg. Ég átti margar vinkonur og var góð við alla, líka þá sem ekki áttu marga vini. Ég átti venjulega fjölskyldu, mamma var heimavinnandi og hugsaði vel um okkur systurnar.

Fjölskyldan flutti út á land

Svo kom að því að við fjölskyldan tókum þá ákvörðun að flytja út á land. Allir voru sáttir við þetta og mér fannst þetta mjög spennandi. Ég og vinkonurnar grétum þegar ég var að fara og ég var mjög dugleg við að heimsækja þær um helgar og fríum. Þær komu líka nokkrar til mín í heimsókn til að byrja með. Ég var 12 ára þegar ég flutti, að byrja í 7.bekk. Fyrsti skóladagurinn var spennandi og ég fékk mjög mikla athygli, þar sem ekki var mjög algengt að nýtt fólk flyttist í bæinn sem ég flutti í.
Þarna var ég 12 ára lífsglöð stelpa sem saknaði vinanna í Reykjavík, en var mjög spennt fyrir þessu nýja umhverfi. Þegar skólasetningin var búin voru krakkarnir mjög spenntir yfir því að kynnast mér og minnir mig að ég hafi farið beint að leika við krakkana. Það gekk svo að ég eignaðist fullt af vinum. Þarna út á landi voru krakkarnir svolítið „á undan“ því sem ég var vön. Það voru allir farnir að fara í leiki sem innihéldu kossa og krakkarnir voru farnir að „byrja saman“. Þar sem ég var ný í þessum bæ þá var ég auðvitað mjög spennandi og margir skotnir í mér, eins og vill verða þegar nýr einstaklingur flytur á svona stað.

Allir áttu að vera í Adidas galla

Allt gekk vel í byrjun, ég átti fullt af vinum. Mjög fljótlega fór það samt að verða þannig að það var farið að segja mér að „þessi stelpa væri leiðinleg og þessi ljót og ég ætti nú ekkert að vera að leika við hana.“ Ok, ég hlustaði (auðvitað vildi ég vera „inn“ hjá krökkunum.)

Þarna út á landi var það líka svoleiðis að allir þurftu að vera eins, mamma varð að gjöra svo vel að kaupa handa mér Adidas galla og sérstaka úlpu eins og allir hinir voru í. Það mátti enginn skera sig út, því fékk ég að finna fyrir þegar ég mætti í hjólabuxum og gulum cheerios bol í leikfimi, en ekki Nike eða Adidas stuttbuxum og bol. Það var það fyrsta sem ég man eftir. Allar stelpurnar tóku sig til og flissuðu út í horni yfir þessum fáránlega fatnaði mínum!!! Ég hef alltaf verið mjög litaglöð og vidi helst bara vera í skræpóttum neon lituðum fötum.

Ég byrjaði að æfa handbolta eins og hinir og gekk það bara vel, ég fékk Nike stuttbuxur og bol og íþróttaskó og stóð mig vel,var fljót að læra. En stelpurnar sem æfðu með mér fóru að ýta í mig og hrinda mér og létu mig vita að ég væri ekki velkomin þarna nálægt þeim. Eins gerðist það að í búningsklefunum var talað um mig svo ég myndi örugglega heyra!
Einhverntímann á þessum tíma kom svo upp mál þar sem ein stelpan sagði hinum frá að ég hefði sagt eitthvað um þær, um hárið á þeim, sem ég hef aldrei getað munað og held að það sé uppspuni frá rótum. EF ég hef sagt þetta þá hefur það ekki verið illa meint.

Kennarinn sagði þetta vera afbrýðissemi

ÞARNA fór allt af stað!!! Það var ráðist á mig og rifið í hárið á mér, Ég var uppnefnd og kastað ýmsum ljótum orðum að mér í skólanum. Ég fór svo á fund með kennaranum og mömmu og kennarinn gjörsamlega missti sig og talaði um að þetta væri bara helxxxxx afbrýðisemi í þessum stelpum og sagði mér að vera sterk. Ég er ekki að segja að ég hafi aldrei gert eða sagt neitt sem átti ekki við, en það sem að ég átti ekki sameiginlegt með hinum var að ég dæmdi ekki fólk út frá klæðnaði eða útliti. Jú jú ég hef alveg örugglega sagt eitthvað einhverntímann sem átti ekki við,en hvaða barn gerir það ekki?

Þegar þarna er komið sögu er ég farin að draga mig alveg í hlé, stelpurnar sem voru „vinkonur“ mínar, vilja ekki lengur tala við mig vegna þessa og ég er farin að leita til hinna stelpnanna sem voru ekki voru inn í „hópnum“. Það gekk svo, að ef ég fór að leika við eina af þeim og þá var hún tekin inn í „hópinn“ hjá stelpunum o.s.frv. Það var samt ein vinkona sem stóð með mér nokkuð lengi þar til að hún var tekin inn í hópinn. Þó svo ég hafi verið mjög sár þá skildi ég hana alveg og hefði örugglega gert það sama ef ég hefði verið í þessari aðstöðu. Ég skildi líka allar hinar sem voru teknar inn í hópinn vel. Auðvitað vildu þessar stelpur frekar eiga allar hinar vinkonurnar í hópnum, heldur en bara mig. Svo að ég skildi þetta vel. En reiðin inn í mér varð svakaleg.

Eignaðist kærasta 14 ára gömul

Ég lokaði mig af , byrjaði að drekka mjög kröftuglega, eignaðist kærasta og ekki minnkaði það öfundsýkina frá hinum. Þvílík hetja sem hann er að hafa „staðið í þessu“, að vera kærasti minn, hann fékk alveg að finna fyrir því greyið. Hann fékk sko alveg að heyra það hvað hann væri að gera með þessu ógeði sem ég var. Þó svo að það sé engum hollt að vera í föstu sambandi 14 ára gamall, þá er ég nokkuð viss um að þessi maður hafi bjargað lífi mínu þarna, ásamt nokkrum öðrum sem voru svo sterkir að vera vinir mínir. Ég get talið þá á annari hönd. Ég er mjög þakklát fyrir það sterka fólk og ég hef ennþá samband við það fólk í dag. Þau fengu sko alveg örugglega að finna fyrir því að vera vinir mínir. Takk!!!

Ég man líka að ég passaði mig á að vera ekki að trufla þetta fólk ef það var með hinum, ég passaði upp á að verða þeim ekki til skammar með að tala við þau. Ég man að ég varð rosalega reið út í skólann, kennarana, mömmu og pabba og alla í kringum mig. Ég passaði mig á því að labba rétt, talaði ekkert í skólanum svo ekki yrði hægt að gera grín af mér út af því. Ég mætti í skólann á hverjum einasta degi, sat ein á ganginum og reyndi að hverfa inn í vegginn. Talaði ekki og hreyfði mig varla. Beið eftir að tíminn myndi byrja. Svo beið ég eftir að frímínúturnar yrðu búnar, oft inní stofunni í felum.

Ég skil ekki hvernig ég lifði þetta af, það er bara svoleiðis. Að vera fastur í smábæ út á landi og geta ekki skipt um skóla, að verða að hitta og labba framhjá fólki sem að leggur mann í svona einelti á hverjum einasta degi er viðbjóður. Það var ekki nóg með það, heldur var líka kallaður einhver viðbjóður á eftir mér ef ég var að labba úti. Ég gat ekki labbað heim úr skólanum án þess að verða fyrir áreiti. Ég fann mér leið heim úr skólanum bakvið öll húsin svo að fæstir myndu sjá mig!

Kennararnir vissu þetta en gerðu ekkert

Kennararnir í skólanum vissu sko alveg af þessu en enginn gerði neitt, kannski vegna þess að ég var ekki grenjandi allan daginn út í horni. Ég bannaði mömmu og pabba að gera eitthvað í þessu. Ég byrgði þetta allt inni. Það sást ekkert utan á mér. En ég snarbreyttist andlega. Einkunnirnar fóru að lækka, ég hætti að tala, ég vildi ekki láta sjá mig með mömmu og pabba, né systur minni vegna þess að þá yrði kannski hægt að gera grín af mér út af þeim! Ég bjó til skjöld utan um mig. Ég hætti að hafa samband við vinkonurnar í Reykjavík, hætti að senda þeim bréf og hætti að hringja í þær, ég vildi ekki að þær vissu að ég ætti kærasta og og væri að drekka. Þær tóku því þannig, því miður, að ég væri of góð með mig til að tala við þær! Ég fór að rífa kjaft, aðalega við mömmu. Ég fékk þá spurningu frá foreldrum mínum, hvað hefði eiginlega orðið um ljúfu góðu mig!! Ég talaði eiginlega ekkert við foreldra mína og man nánast ekkert eftir litlu systir minni á þessum tíma. Þannig gekk þetta í 4 ár!

En sem betur fer þá á heilinn í fólki það til, að loka á minningar sem eru erfiðar. Ég man þennan tíma, þessi 4 ár í helvíti, ekkert mjög vel og það er fullt sem ég man ekki neitt.. En í gegnum árin þá hefur ýmislegt rifjast upp.
Nú eru að verða komin 17 ár síðan þetta byrjaði og 13 ár síðan ég fluttist frá þessum stað og ég er ENN að glíma við afleiðingarnar af þessu og verð líklega aldrei heil. Kannski vegna þess að ég var of sterk á þessum tíma til að leita mér hjálpar, kannski vissi bara enginn hvernig ætti að taka á svona málum , ég veit það ekki. En ég veit það að ALLIR geta lent í einelti , ALLIR. Ekki bara þeir sem eru með einhver útlitsleg frávik eða eru öðruvísi en hinir . ALLIR.

Ég er búin að ganga með það í maganum í mörg ár að segja mína sögu og vona að það geti hjálpað einhverjum. Kannski foreldrum barna sem eru að lenda í þessu.. Kannski krökkunum sjálfum!

SHARE