Söngkonan Kesha, sem slegið hefur í gegn með smellum á borð við Crazy Kids, hefur lagt fram kæru á hendur umboðsmanns síns Dr. Luke. Kesha sakar manninn um að hafa beitt sig andlegu og líkamlegu ofbeldi allt frá upphafi samstarfsins sem hefur varað síðastliðin tíu ár, eða frá því að hún var 18 ára gömul. Einnig kærir hún hann fyrir kynferðislega misnotkun.
Dr. Luke, sem heitir fullu nafni Lukasz Sebastian Gottwald, hefur ákært Keshu á móti fyrir meiðyrði og samningsbrot. Samkvæmt heimildum heldur Dr. Luke því fram að Kesha hafi ásamt móður sinni hótað lögsókn ef hann myndi ekki rjúfa útgáfusamninginn. Dr. Luke hefur áður unnið með stjörnum á borð við Britney Spears og Katy Perry
Kesha hefur ásamt móður sinni ítrekað kvartað undan því að hafa lítið sem ekkert listrænt ákvarðanavald yfir tónlist sinni og að lög sem hún sé spennt fyrir hafi ekki fengið að komast á framfæri. Sem dæmi nefnir hún samstarf sitt við Flaming Lips sem átti sér stað í fyrra en sem fékk ekki grænt ljós hjá Dr. Luke.
Samkvæmt ákærunni sakar Kesha Dr. Luke um að ítrekað hafa áreitt sig kynferðislega með því að ota að henni bæði áfengi og fíkniefni. Hún ásakar hann um að hafa gortað sig af athæfinu við aðra en að hann hafi ekki lagt eins mikinn metnað í að huga að tónlistarferlinum hennar. Hún segir hann hafa gefið sér fíkniefnið GBH og að hún hafi vaknað daginn eftir á hótelherbergi, nakin og með meiðsli á líkamanum. Hann hafi hótað því að enda tónlistarferil hennar ef hún myndi segja frá.
Þá fullyrðir Kesha að Dr. Luke hafi eitt sinn ráðist á sig á heimili sínu í Malibu og að niðrandi ummæli um líkamsþyngd hennar hafi seinna leitt til átröskunnar.
Heimild: Mashable.com