Kettir, kúr og kósý á kaffihúsi! – Kattakaffihúsið

Sem foreldrar tveggja barna reynum við Manni minn reglulega að gera okkur glaðan dag og finna spennandi staði fyrir skemmtilegar fjölskyldustundir. Nú er sumarið loksins farið að gera vart við sig og við því farin að fara meira út fyrir póstnúmerið okkar. Við höfum mikið verið að vinna með sundferðir og ferðir í bakarí en þarna fundum við fullkominn samverustað.

Það var bara núna rétt fyrir helgina að við fórum inn á Kattarkaffihúsið í fyrsta skiptið, en það er staðsett við Bergstaðastræti 10a. Eftir að hafa fengið okkur gómsætt snarl, dásamlega kakó/kaffibolla og fengið að dúllast í kisunum náði ég að plata eigendur staðarins til að leyfa mér að hitta þær og spurja þær spjörunum úr. Ég nefnilega elska að læra um áhugaverða staði og áhugavert fólk og ég fylltist því af forvitni um leið og ég kom inn á þennan stað.

Huggulegt afgreiðsluborð hlaðið gómsætum veitingum

Hvað er það sem að fær tvær konur til þess að ríða á vaðið og opna fyrsta kattarkaffihús Íslands?
Hvernig í ósköpunum í okkar dýraofnæmishrædda landi tókst þeim að gera þetta að veruleika?
Hvernig hefur þetta verið að ganga, hvernig voru viðbrögð fólks?
Ég hreinlega bara varð að fá að vita meira!

Við ákváðum því að hittast yfir kaffibolla rétt eftir hádegi á þriðjudeginum. Ragnheiður og Gígja eigendur kaffihússins og ég ofurforvitna, kaffisjúka, dýragellan (sem má ekki fá kött… útaf skrambans Manna, sem er ekki einusinni með ofnæmi..)

Þegar ég kem inn er frekar rólegt að gera, kisurnar fimm sem búa núna hjá þeim eru allar að taka hádegisblundinn og viðskiptavinirnir eru í rólegheitum með veitingarnar sínar, nokkrir með malandi kisu sér við hlið. Við settumst saman við borð og áttum ótrúlega skemmtilegt spjall þar sem þær bæði svöruðu öllum mínum spurningum og sögðu mér frá skemmtilegum hlutum varðandi kisurnar og kaffihúsið.

Kaffihúsið var opnað í Mars 2018, en þær vinkonurnar og nágrannarnir tengdust einmitt aðallega vegna kattar Gígju sem var tíður gestur heima hjá henni Ragnheiði!
Ragnheiður hafði farið á samskonar kaffihús árið 2014 í París og fóru þær að hugsa um að opna sitt eigið árið 2016. Þær gengu um með þessa hugmynd í maganum í smá tíma, eða þar til um haustið 2017 að þær fundu hið fullkomna húsnæði og ákváðu að kýla á þetta! Þær þurftu vissulega að ráða úr flóknum reglugerðum en tókst á endanum að fá leyfi og mega vera stoltar með flotta kaffihúsið sitt og jafnframt fyrsta kattakaffihús landsins!

Það er einhvernvegin betra að borða muffins með svona félagsskap!

Ragnheiður og Gígja eru báðar ótrúlega vingjarnlegar og hressar, Þær vinna greinilega vel saman og það sést vel á bæði kisunum og þeim sjálfum að þær hafa fundið sér rétta hillu. Þær leggja mikið upp úr því að köttunum líði vel og að allir bæði viðskiptavinir og kettir geti notið þess að vera saman í öruggu og friðsælu umhverfi. En þess má geta að frá því að þær opnuðu kaffihúsið hefur þeim tekist að finna góð framtíðarheimili fyrir rúmlega þrjátíu ketti sem hafa verið hjá þeim!

Kaffihúsið sjálft er hlýtt og notalegt, fallega skreytt listaverkum og fallegum húsgögnum. Þær bjóða upp á dásamlegar veitingar sem þær fá frá meðal annars frá 17 sortum og brauð&co og er flest allt á matseðlinum vegan eða grænmetisætu-vænt. Einnig eru þær með allskonar varning til sölu eins og til dæmis listaverk eftir Helgu Björnsson, móður Gígju og fatnað, taupoka og fleira – hægt er að versla og skoða allar vörurnar ->hér<-

Hér er snyrtilegt og þægilegt, afslappað andrúmsloft og það er gott að sitja hér og skrifa. Blanda af fölum litum og „vintage“ húsgögnum gefa staðnum skemmtilegt útlit og ég fæ það á tilfinninguna að ég sé komin erlendis. – En það gæti líka verið vegna þess að það eru kisur allt í kring um mig, á kaffihúsi, í Reykjavík!!. (Á dauða mínum átti ég nú von..)

Ég hafði rekist á það á facebook að þessi staður væri til og lengi ætlað að fara með stelpurnar hingað til þess að kenna þeim að umgangast ketti (og mögulega til þess að reyna að plata Manna til að samþykja kisuættleiðingu) og ég varð sko alls ekki fyrir vonbrigðum. (nema auðvitað með Manna, en ég er ekki búin að gefast upp!)

Um leið og við komum inn sáum við í reglur kaffihússins í ramma sem ég gat farið yfir með stelpunum áður en að við hittum loksins kisurnar. Stelpurnar voru spenntar og vildu ólmar vaða í knús og kelerí (og ég líka) en þökk sé girðingunni sem að afmarkar innganginn gátum við tekið okkur smá tíma til að gera þeim grein fyrir reglunum. Sem mér finnst fullkomið fyrir alla að gera þrátt fyrir að girðingin sé meira ætluð til þess að kettirnir fari ekki út.

Ég hugsaði með mér að það hlyti nú að vera strembið að vera bæði að reka kaffihúsið og að reyna að stýra hegðun viðskiptavina sinna gagnvart köttunum og spurði eigendurnar því hvað þeim þætti mikilvægast að viðskiptavinirnir hefðu í huga.
– „Það er ótrúlega mikilvægt að fólkið sem kemur hingað með börnin sín beri ábyrgð á þeim og hegðun þeirra því að ósátt og óörugg kisa getur auðveldlega klórað eða meitt! Kisurnar sem að búa hérna eru allar að koma úr mismunandi aðstæðum og eru í leit að framtíðarheimili. Þær eru ekki hérna til þess að passa börnin þín, þær búa hérna og geta það ekki nema að allir fylgi reglunum“

Var ég búin að minnast á það hvað það var notalegt að vera þarna??

Kisurnar sem að eru yfirleitt allt frá því að vera þrjár til fimm í einu á kaffihúsinu koma flestar beint frá eigendum þeirra sem geta ekki haft þær lengur en sumar koma þó frá dýrahjálp. Meðal tíminn sem að hver kisa dvelur á kaffihúsinu er allt frá 6-8 vikur. En þó er enginn tímarammi sem að eigendurnir setja fyrir kettina.

-„Við erum ekkert að flýta okkur að losna við þær, við viljum miklu frekar að þær finni sitt fullkomna framtíðarheimili. – Sama hvað það tekur langann tíma“

Í gegn um heimasíðu þeirra er hægt að sækja um að ættleiða kettina sem búa hjá þeim á kaffihúsinu og spurði ég þær út í hvað hefði áhrif á val umsækjendanna?
-„Það sem okkur finnst mikilvægast er auðvitað að sjá að kötturinn og umsækjandinn eigi vel saman en svo er það auðvitað líka að við sjáum að umsækjandinn geri sér grein fyrir því hvað það þýðir að ættleiða kött. okkur finnst líka mikilvægt að fólkið komi hingað og kynni sér kisurnar og svo sig fyrir okkur“

Kettir lifa lengi og kettir hafa vissulega mismunandi persónuleika. Það er því mikilvægt að þeir sem vilja fá sér kött geri sér bæði grein fyrir því að þeir verða að vera tilbúnir að leggja undir bæði kostnaðinn og tímann sem fylgir dýrinu. Það að fá sér kött er ekkert flókið, enda virkilega auðvelt að finna kött sem er því miður í heimilisleit. Það að eiga kött er hinsvegar ekkert grín ef fólki langar að vera ábyrgir eigendur- en mikið sem það er yndislegt og gott þegar það tekst.

Á meðan ég sat með kaffibollann minn varð ég vitni af því að fjölskyldur komu með börnin sín, foreldrarnir fengu sér kaffi og slökuðu á og börnin léku við kisurnar. Flestir fylgdust með börnunum sínum en margir sátu og skiptu sér ekkert að því hvað börnin gerðu. Svo gerðist það, eitt barnið elti og togaði í skottið á ketti sem varð augljóslega ósáttur. Kötturinn varð reiður og gerði sig líklegann til að klóra eða að bregðast við (eins og allir venjulegir kettir myndu gera) en afgreiðslukonan sem var við afgreiðsluborðið var nógu snögg og stöðvaði barnið.

Ég spurði því hvort það væri ekki erfitt að vera ekki bara að afgreiða viðskiptavinina heldur að þurfa líka að stíga svona inn í aðstæður þar sem að foreldrarnir ættu í rauninni að sjá um
-„Jú, það er frekar erfitt, en það gerist eiginlega oft á dag – alla daga! Foreldrar koma með börnin sín og eru svo bara að slaka á með kaffið sitt og jafnvel í símanum á meðan að krakkarnir skoða kisurnar og flest þessara barna kunna bara einfaldlega ekki að umgangast ketti. Það er því frekar leiðilegt að þurfa oft að „skamma“ eða að skipta sér af börnum sem maður þekkir alls ekkert. En auðvitað viljum við fá alla hingað inn og okkur finnst æðislegt að hitta þetta frábæra fólk sem kemur! Við höfum líka fengið að kynnast ótrúlega mörgum skemmtilegum aðilum í gegn um þetta kaffihús – en það er samt alltaf erfitt að þurfa að vera að skipta sér að“

Ragnheiður og Gígja leggja mikla vinnu í að kynnast kisunum vel, bæði til að geta auðveldað leitina að hinum fullkomna eiganda og til þess að geta hjálpað kisunum sem mest. Þær fara með allar kisurnar í bólusettningar, ormahreinsun og geldingu og passa vel upp á að þær séu hraustar og heilbrigðar – þær vanda sig því líka mikið við val á framtíðareigendum.

Á meðan við spjölluðum skrifaði ég hjá mér eitt og annað eins til þess að sjá hvernig hinn „fullkomni“ umsækjandi gæti verið og það sem mér tókst að komast að var til dæmis þetta;

  • Umsækjandinn þarf að sýna fram á raunverulegann áhuga á því að eignast kött og að gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem að því fylgir!
  • Umsækjandinn þarf að koma og kynna sér köttinn sem það langar að sækja um að ættleiða, tala við starfsfólkið og fræðast um köttinn
  • Að lokum er mikilvægt að umsækjandi sýni fram á að hann sé tilbúinn að standa undir þeim kostnaði sem kann að fylgja kettinum og því að þetta er vissulega skuldbinding til margra ára.

    -„það eru ótrúlega margir sem sækja um sem tala um að þeim langi svo að taka að sér kött í neyð, sem er virkilega fallegt – en! Kisurnar hérna eru ekki í neyð. Þær eru saddar, sáttar og öruggar hjá okkur. Kisur sem eru í neyð eru til dæmis kisurnar sem eru í umsjá Villikatta eða þær sem að urðu óheppnar með aðstæður og á að lóga af ástæðulausu“

 

Það er ekki hægt að segja að það fari illa um neinn þarna inni!

Kisurnar sem búa á kaffihúsinu koma allar frá eigendum sem að þær Gígja og Ragnheiður eru í góðu sambandi við, upplýsingarnar sem þær fá frá fyrri eigendum hafa því einnig verulega mikil áhrif á valið á framtíðareigendunum. Kisurnar eru því í rauninni ekki í neinni neyð, það er engin pressa á að þær fari hratt á heimili og það er virkilega vel hugsað um þær og margir verða ansi hissa þegar þeir komast að því að það þarf að borga fyrir kettina.

-„Fólki sem er virkilega alvara með að ættleiða og að veita kisu gott heimili ætti að vera alveg sama um að borga smá gjald fyrir það!“

Það er líka góður punktur! Eftir svolitla rannsóknarvinnu tók ég eftir því að nærri því hvergi nema hérna á Íslandi er fólki mögulegt að fá gefins gæludýr – og í fullri hreinskilni þykir mér það algjörlega FÁRÁNLEGT! Auðvitað finnst mér að allir sem vildu og væru hæfir ættu að geta eignast gæludýr, en sannleikurinn er bara því miður sá að það er ekki mögulegt! Ef þú telur þig hafa efni á því að halda uppi gæludýri í 15-20 ár þá ættir þú svo sannarlega að hafa tök á því að greiða fyrir dýrið!

Á kaffihúsinu er tilvalið að kynnast köttum, að læra um þá og hvernig best er að umgangast þá. Þar hefur þú tækifæri til þess að verja tíma með þeim ketti sem þig langar í og þú getur komist að því hvort þið eigið samleið. Þar er einnig frábær aðstaða fyrir fólk sem ekki getur haft gæludýr að fá að umgangast kisur og hvað þá börn til þess að læra um þessi dásamlegu dýr!
Þar er ofboðslega notalegt að sitja og vinna/læra og virkilega skemmtilegt að fá að leika við kisurnar þegar að þær eru í stuði.

Það er mikilvægt að þeir sem ætla sér að taka að sér gæludýr geri sér raunverulega grein fyrir því hvað það þýðir! Hér eru því örfáar spurningar sem gott er að fara yfir ef þú ert að hugsa um að fá þér kött!

  • Ert þú tilbúin/n og í aðstöðu til þess að bæta við útgjöld heimilissins?
  • Ert þú í öruggu húsnæði þar sem að kisa er velkomin?
  • Ert þú tilbúin/n að gefa kettinum þann tíma sem hann þarf til að læra að treysta þér?
  • Ert þú búin/n að kanna það hvort að það sé ofnæmi hjá þér eða öðrum í fjölskyldunni/á heimilinu?
  • Ef að fleiri eru búsettir á heimilinu, eru hinir íbúar heimilissins vel undirbúnir og tilbúnir í þessa viðbót?
  • Ert þú búin/n að kynna þér allt sem þú þarft að vita um umhirðu katta?
  • Ert þú tilbúin/n að veita ketti heimili þó að það hagi sér ekki eins og þú óskaðir þér að dýrið myndi haga sér? (þig langaði í kött sem elskar að kúra, en kötturinn sem þú fékkst kærir sig ekki um kúr)
  • Hefur þú tök á að fá einhvern til að hugsa um köttinn ef þú ferð til dæmis erlendis eða lendir í aðstæðum þar sem þú getur ekki hugsað um hann sjálf/ur?

    Hvernig er bara hægt að vera svona sætur??

í lokin vil ég bæði þrýsta á Manna á þetta með að ættleiða (kommooooon!! Plííííís!!) og þakka þeim Ragnheiði og Gígju fyrir að hafa farið af stað með þetta frábæra verkefni og gefið bæði okkur viðskiptavinunum og köttunum sem þær hýsa svona dásamlegt tækifæri til að kynnast! Kettirnir sem þið takið að ykkur eru óskaplega heppnir og við sem fáum að heimsækja ykkur verulega lánsöm. Dætur mínar tala mikið um ykkur og kisurnar og ég er þakklát því að geta komið og kennt þeim að umgangast ketti og frætt þær um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir bæði kisum og öllum öðrum dýrum.

Ég mæli með því að allir sem geta geri sér ferð á þetta frábæra kaffihús og hvet ykkur að fylgja bæði þeim og okkur á samfélagsmiðlunum okkar hér fyrir neðan!

Smelltu hér til að læka við facebooksíðu kattakaffihússins.
Smelltu hér til að fylgja instagram síðu kattakaffihússins.
Smelltu hér til að finna heimasíðu kattakaffihússins.
Smelltu hér til að fylgja mér á instagram.
Smelltu hér til að fylgja hun.is á instagram.
Addaðu okkur á snapchat með notendanafninu: Hun_snappar
(Hey.. og hjálpaðu okkur mæðgum að eignast kisuna sem okkur langar svo í með því að þrýsta á Manna gamla í kommentunum undir þessari færslu á facebooksíðu hun.is – hann vill nefnilega ekki fá kött á heimilið bara útaf lyktinni af kattasandinum! – WHAT??!?!) 

SHARE