Kína kann að vera eitt helsta iðnríki heims, en heimsókn í húsagnaverslanir IKEA getur innifalið nærandi setu og þess utan, nestisbox, tepoka og lítinn lúr.
Það er rétt; kínverskir viðskiptavinir eru óhræddir við að leggjast til svefns í útstillingum IKEA og svo algengt er uppátækið að um allar trissur, ganga og útstillingar lúra örmagna kínverskir viðskiptavinir í húsgögnum verslunarinnar frá morgni til kvölds.
Ljósmyndarinn Kevin Frayer átti leið um IKEA verslun í Kína og rak upp stór augu þegar hann steig fæti inn í húsgagnadeildina; hóf myndavélina á loft og tók svo margar ljósmyndir að serían fyllti að lokum heilan myndaþátt. Myndirnar hér að neðan eru teknar í einni fyrstu IKEA versluninni sem reis í Beijing, en svo virðist sem kínverskur almenningur flýji stórborgarstreituna inn í húsgagnaverslunina og leggi aftur augun – hvíli lúin bein og sofni einfaldlega með nestispakka í töskunni og skónna snyrtilega til hliðar við hvílustað dagsins.
Ljósmyndarinn, sem var svo undrandi að hann hóf linsuna á loft, sagðist í viðtali við netmiðilinn Mashable hafa rekið upp stór augu.
Þetta fer ekki framhjá neinum sem heimsækir verslunina í fyrsta sinn. Fólk liggur bara á víð og dreif um allar útstillingar og mér kom mest á óvart hversu þægilega kaupendur höfðu hreiðrað um sig inni í versluninni. Þessu má líka við reynsluasktur bíla – nema hvað að þarna eiga sófar, skrifborðsstólar og hjónarúm í hlut.
Kevin sagði einnig að ekki væri óalgengt að viðskiptavinir kæmu strax við opnun verslunarinnar, veldu sér þægilegt húsgagn til að hvílast í og svæfu í versluninni allt þar til lokað væri að kvöldi til. Tilgangurinn með seríunni var alls ekki sá að gera lítið úr hegðun viðskiptavina, heldur öllu fremur sá að festa á filmu þetta undarlega fyrirbæri, sem hann sagðist hafa verið sem heillaður yfir.
Jâ, mér kom verulega á óvart hversu djúpri slökun viðskiptavinir IKEA virtust ná að viðhalda meðan á opnunartíma stóð. Verslunin iðar af fólki og umhverfið er virkilega lifandi, ef ekki bara hávaðasamt. Þrátt fyrir allt þetta náðu fjölmargir að festa svefn. Ég var sem heillaður og það er aldrei að vita nema ég prófi þetta sjálfur – að því gefnu að ég finni laust pláss.
Í meðfylgjandi myndsafni má sjá brot úr seríunni sem Kevin festi á filmu í verslun IKEA í miðri Beijing.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.