Frábær föstudagsmatur frá Evabrink.com
Mig hefur lengi langað til að prufa að gera quesadillur þar sem ég er stór aðdáandi þeirra þegar kemur að því að fara út að borða. Ég ákvað loksins að láta verða að því í gærkvöldi og kom það mér á óvart hversu einfalt reyndist að útbúa þær. Bragðið var miklu betra en ég þorði að vona og fjölskyldan öll var himinlifandi með matinn. Fullkomin byrjun á langri viku!
Kjúklinga quesadillur (fyrir 3-4)
2 kjúklingabringur
3 tsk. Cajun krydd
4 stórar tortillur
Ca. ½ blaðlaukur
1 rauð paprika
1 græn paprika
150-200 grömm rifinn ostur (finnst rosalega gott að nota blöndu af Cheddar osti og venjulegum)
6 msk. rjómaostur
2 msk. steinseljukrydd
3 hvítlauksrif
Örlítið smjör
Skerið kjúklingabringurnar niður í bita og steikið upp úr olíu. Kreystið hvítlauksrifin yfir kjúklingabitana og kryddið svo með cajun kryddinu og pipar. Skerið paprikurnar í litla bita og bætið ofan í pönnuna þegar kjúklingabitarnir hafa lokast. Steikið saman í ca. 10 mínútur. Saxið blaðlaukinn og setjið ofan í skál ásamt rjómaostinum og steinseljukryddinu og hrærið vel saman. Takið tortillu og smyrjið aðra hliðina með örlitlu bræddu smjöri, snúið svo þeirri hlið niður. Smyrjið tortilluna með helmingnum af rjómaostsblöndunni, setjið helminginn af kjúklingablöndunni yfir og stráið svo rifnum osti yfir allt saman. Setjið svo aðra tortillu ofan á og smyrjið efri hluta hennar með örlitlu smjöri. Endurtakið fyrir hinn helming hráefnisins. Bakið við 200°C í 12-15 mínútur. Skerið hverja quesadillu í 6 bita (fínt að nota pizzaskera) og berið gjarnan fram með guacamole, sýrðum rjóma, salsa sósu og steinseljukryddi.