Kjúklingabomba – Uppskrift

Fátt er betra en góður kjúklingaréttur. Kjúklingur er líka hráefni sem hægt er að leika sér endalaust með. Þessi frábæri réttur varð til í eldhúsinu hjá mér um helgina.  Sætan úr karamelluðum ávöxtunum mætir bragðsterkum ostinum og lauknum og niðurstaðan er hamingjunnar happiness fyrir bragðlaukana.
Undir kjúllanum lúrir spínatbeð og á toppnum karamellaðir ávextirnir, gráðaostur og kasjúhnetur. Slík blanda geeetur bara ekki klikkað.

Kjúklingurinn
–    1 bakki kjúklingabringur eða lundir
–    Ólífuolía
–    2 msk hunang
–    1 cm bútur engifer, smátt saxaður
–    1 tsk malaður engifer
–    2 pressuð hvítlauksrif
–    Safi úr ½ – 1 sítrónu
–    Salt og pipar

Gumsið í fatinu
–    1 rauðlaukur
–    ½ – 1 poki spínat
–    Ólífuolía
–    Gráðaostur (blue cheese)
–    Kasjúhnetur

Karamellunammi
–    1 gult epli
–    1 pera
–    2-3 msk kókosolía
–    2-3 msk hunang
–    1 tsk kanill
–    1/8 tsk múskat

Aðferð
1.   Hrærið saman hunangi, engifer (ferskum og möluðum), hvítlauk, sítrónusafa, salti og pipar. Veltið kjúllanum upp úr marineringunni og látið standa í 2 klukkutíma. Mér finnst flottast að skera bringuna í strimla eða nota kjúklingalundir.
2.   Saxið rauðlaukinn smátt og setjið á pönnu. Steikið í 5 mín upp úr olíu og bætið svo spínatinu saman við. Steikið áfram í smástund áður en þið færið þetta yfir í eldfast mót. Mér finnst gefa fatinu smá lit að setja ferskt spínat meðfram hliðunum á fatinu. Látið til hliðar.
3.   Skerið epli og peru (ég skolaði bæði og afhýddi). Hitið pönnu og bræðið kókosolíuna. Blandið hunangi, kanil og múskati við. Passið að hafa pönnuna ekki of heita og ekki fara í göngutúr meðan á þessu stendur svo hunangið brenni ekki.
4.    Bætið eplinu og perunni saman við og látið malla í 15-20 mínútur á vægum hita. Þetta á að verða frekar mjúkt og karamellað.
5.   Þegar kjúklingurinn hefur legið nógu lengi í marineringunni skuluð þið hita pönnu með olíu. Pannan á að vera vel heit þegar kjúllinn fer á.
Leggið kjúklinginn á og steikið í stutta stund á hvorri hlið eða þar til hann hefur náð að lokast og fengið ákveðna gyllingu. Hunangið gefur kjúllanum flottan lit við steikinguna.
6.    Leggið kjúklinginn á spínatbeðið og komið karamelluðum ávöxtunum fallega fyrir. Myljið gráðaostinn yfir og toppið með góðri lúku af kasjúhnetum.
7.    Setjið fatið inn í 170 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur.
8.    Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Höfundur: Birna Varðar.

birna
Birna er tvítug Reykjavíkurmær.  Hún er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á mataræði og heilbrigðum lífsstíl.  Birna stundar Boot Camp, hlaup og lyftingar af kappi.  Hún er dugleg að takast á við krefjandi áskoranir og leika lausum hala utan þægindarammans. Hvort sem það er utanvegahlaup, kraftlyftingar, þrekkeppnir eða annað í þeim dúr.  Birna mun deila uppskriftum úr eigin tilraunaeldhúsi með lesendum hún.is ásamt því að skrifa skemmtilega og upplífgandi pistla er snúa að heilbrigðum lífsstíl og sjálfsrækt.

 

SHARE