Óþægileg tilfinning hríslast um bakið bara við það eitt að heyra orðin kláði, sviði, verkur, bólga og pirringur sem er titill sýningar þeirra Kristínar Gunnlaugsdóttur myndlistarmanns og Margrétar Jónsdóttur keramikers. Orðin eru tilkomin af sögu sýningarstaðarins, Nesstofu þar sem rekin var fyrsta læknastofa landsins og apótek. Jurtir voru notaðar til lækninga í Nesstofu, jafnt íslenskar sem innfluttar, en Urtagarðurinn í Nesi geymir einmitt safn sumra þessara lækningajurta.
Verk Kristínar og Margrétar eru öll unnin með sögu og andrúmsloft Nesstofu í huga og í texta sýningarskráar, segja listakonurnar m.a.:
„Mikil von hlýtur það að hafa verið fyrir veika Íslendinga að geta komið í Nesstofu og hitt fyrir Bjarna Pálsson sem skipaður var landlæknir árið 1763. Hér var rekin fyrsta læknastofa landsins og apótek og vel tekið á móti öllum. Átjánda öldin var sú erfiðasta í sögu landsins og fá úrræði til lækninga. Gerum okkur í hugarlund tíma án sýklalyfja, deyfinga og allra þeirra hátækniúrræða sem við þekkjum í dag og þykja sjálfsögð”.
Svört veggteppi Kristínar og dökkir leirmunir Margrétar bera vott um þjáningar forfeðra okkar. Þessa fátæka og duglega fólks sem oft á tíðum upplifði óheyrilegar sorgir, horfandi þögult á eftir veikburða ástvinum sínum í gröfina.
Fjölbreytt dagskrá verður í boði á meðan sýningunni stendur og er aðgangur ókeypis á alla þá viðburði sem haldnir verða í tengslum við sýninguna. Opnunartími er þó einungis um helgar frá 13.00-17.00 og sýningarlok verða 12. október nk.
Dagskrána má nálgast HÉR
Ljósmynd: Margrét Jónsdóttir
Heimild: Samband íslenskra myndlistarmanna
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.