Hér kemur önnur uppskrift frá Tinnu Björg en hún heldur úti matarblogginu tinnabjorg.com. Þar birtir hún allskonar gómsætar uppskriftir bæði af gómsætum kökum og allskonar sætindum og góðar og hollar mataruppskriftir. Við fengum að birta þessa einstaklega girnilegu uppskrift frá Tinnu. Það er tilvalið að prófa þessa um helgina! Þú getur nálgast Facebook síðu Tinnu Bjargar hér ef þú vilt fá allar girnilegu uppskriftirnar á fréttaveituna hjá þér.
Kleinuhringir með karamelluglassúr
25-30 stk
25-30 stk
3 msk þurrger
10 msk sykur
450 ml volg mjólk
675 g hveiti
1 tsk salt
150 g brætt smjör
3 tsk vanilludropar
3 þeytt egg
1000 ml sólblómaolía til djúpsteikingar
Leysið ger og 1 1/2 tsk af sykri upp í 6 msk af vel volgri mjólk.
Þeytið eggin í skál og leggið til hliðar.
Blandið saman hveiti, salti og 8 1/2 tsk af sykri í hrærivélarskál.
Mótið holu í miðja hveitiblönduna.
Hellið gerdeiginu ofan í ásamt rest af mjólkinni.
Hrærið saman og bætið þeyttum eggjum við, síðan eggjum og vanilludropum.
Leggið rakt viskastykki yfir hrærivélarskálina og látið hefast í 45 mínútur, þar til deigið hefur tvöfaldast.
Sáldrið vel af hveiti á borðið og hnoðið deigið upp úr hveitinu með höndunum í um 5 mínútur.
Fletjið deigið út þannig að það verði 2-3 cm þykkt og skerið út kleinuhringi með formum eða einhvers konar hringjum af tveimur mismunandi stærðum. Ég notaði hringlaga piparkökuform og lok af kryddstauk.
Setjið kleinuhringi og bollurnar, sem skornar eru út úr miðjunni, á smjörpappírsklæddar ofnskúffur. Látið hefast í 30 mínútur á heitum stofuofni eða öðrum hlýjum stað þar til kleinuhringirnir tvöfaldast.
Hitið olíu í stórum potti þar til hún hefur náð 190° hita.
Hægt er að prófa hana með því að láta brauðbita ofan í, ef hann verður gullinbrúnn eftir um það bil 30 sekúndur er olían tilbúin.
Passið að olían hitni ekki of mikið.
Leggið nokkra kleinuhringi varlega ofan í olíuna og steikið í 3-5 mínútur.
Takið upp úr pottinum með þar til gerðum djúpsteikingarspaða og leggið á eldhúspappírsklætt fat.
Karamelluglassúr
200 g smjör
200 g púðursykur
2 dl rjómi
3 tsk vanilludropar
2-3 dl flórsykur
Sjóðið saman smjör, púðursykur, rjóma og vanilludropa.
Látið krauma við vægan hita í nokkrar mínútur og kælið aðeins.
Hrærið flórsykri saman við, byrjið á 1 dl og bætið svo við þar til glassúrinn er orðinn hæfilega þykkur.
Smyrjið glassúrnum á kleinuhringina.
Við slógum tvær flugur í einu höggi og gerðu litlar kanilbollur úr miðjum kleinuhringjanna.
Kanilbollum verður svo auðvitað að fylgja vanilluglassúr til að dýfa í.
Kanilbollur
Miðjur kleinuhringjanna
sykur
kanill
Þegar bollurnar hafa hefast í 30 mínútur með kleinuhringjunum, djúpsteikið þær í 1-2 mínútur og veltið strax upp úr kanilsykri.
Vanilluglassúr
200 g flórsykur
4-5 msk nýmjólk
1 msk brætt smjör
vanilludropar eftir smekk.