Það er alltaf hægt að finna girnilegar uppskriftir inni á Allskonar.is. Kjúklingavængir eru ótrúlega ódýrt hráefni og það má útbúa úr þeim algert sælgæti. Þessir woksteiktu vængir eru með asísku ívafi og eru í miklu uppáhaldi hér á heimilinu, fljótlegir og einfaldir en ofboðslega góðir.
Klístraðir Kjúklingavængir
- 1 pk kjúklingavængir
- salt og pipar
- 1 msk chiliflögur
- 3 hvítlauksrif, marin
- 2 msk púðursykur
- 2 msk limesafi
- 1-2msk fiskisósa
- 3 vorlaukar
Undirbúningur: 10 mínútur
Eldunartími: 25 mínútur
Hitaðu ofninn í 180°C.
Byrjaðu á að höggva vængina í tvennt, þú gerir það með góðum þungum hníf og ferð varlega. Þú skerð vængina í tvennt við olnbogann, það er óþarfi að höggva eins og slátrari í teiknimynd, það er nóg að leggja hnífinn á liðamótin og setja höndina ofan á hnífinn og ýta þéttingsfast.
Raðaðu vængjabitunum á bökunarpappír á bökunarplötu og kryddaðu vel með salti og pipar. Þú þarft ekki olíu, það er næg fita í vængjunum sjálfum. Bakaðu í ofninum í 20 mínútur.
Á meðan vængirnir eru að bakast þá útbýrðu sósuna. Maukaðu saman chili, hvítlauk, sykri, limesafa og fiskisósu. Smakkaðu til og bættu sykri eða fiskisósu í eftir smekk.
Þegar vængirnir eru bakaðir þá tekurðu Wok pönnu eða mjög stóra steikarpönnu, hitar í henni olíu og skellir vængjunum út í, steiktu á miklum hita í 2-3 mínútur. Helltu nú rúmlega helmingnum af sósunni yfir og hrærðu stöðugt í á meðan þú steikir vængina. Settu sneiddan vorlauk út í og hrærðu vel.Þú getur bætt meiru af sósunni við ef þú vilt, passaðu þig bara að hræra vel í, það er auðvelt að brenna allt þar sem pannan er mjög heit og sykur í sósunni. Slökktu undir þegar allt er orðið klístrað og dásamlegt og flyttu yfir í stóra skál.
Borið fram eitt sér með sósunni í sér skál til að dýfa í, eða með fullt af salati og hrísgrjónum.
Endilega smellið einu like-i á Allskonar á Facebook.