„Þetta er keppni sem er á vegum snyrtivörumerkisins NYX og hefur verið haldin í Bandaríkjunum í nokkur ár undir nafninu NYX Face Awards. Núna er hún haldin í fyrsta skipti víða um Evrópu og í fyrsta sinn á Norðurlöndunum undir yfirskriftinni NYX Nordic Face Awards, “ segir Birna Jódís Magnúsdóttir förðunarfræðingur, betur þekkt sem Birna Magg.
Birna, sem búsett er á Hornafirði, hefur vakið mikla athygli fyrir bæði vídeóblogg á YouTube og líflegt Snapchat þar sem hún farðar sjálfa sig af stakri snilld. „Nordic Face Awards snýst í raun um vídeóblogg og er á milli vídeóbloggara. Keppendur þurfa að framkvæma förðun byggða á ákveðnu þema sem þeir fá hverju sinni og skila inn myndbandi. Sigurvegarinn fær svo titilinn Nordic Beauty Vlogger of the Year,“ segir Birna.
Keppnin hófst í byrjun apríl og verður sigurvegari krýndur þann 22. júní næstkomandi. Yfir 300 manns reyndu við þátttöku og sendu inn myndband. Birna Magg var ein af þeim. „Ég átti nú ekkert von á að komast áfram en ákvað að slá til og senda inn krúttlegt myndband. Svo var ég allt í einu komin í 30 manna úrslit og þá tóku við stífar æfingar til þess að verða ein af 15 manna hópnum,“ segir Birna en keppnin snýst ekki eingöngu um förðun heldur þarf að taka upp myndband, klippa það og gera frambærilegt.
Þemað fyrir 30 manna úrslitin var Nordic Tales og útbjó Birna frumlegt myndband þar sem hún var í gervi sjávargyðjunnar Ránar úr norrænni goðafræði. „Ég er búin að taka nokkur brjálæðisköst við æfingar og undirbúning. Þetta er ekkert búið að vera auðvelt, ég hef alveg verið nálægt því að fara að grenja stundum,“ segir Birna og hlær.
Birna í gervi sjávargyðjunnar Rán, sem kom henni í 15 manna úrslit.
Sjávargyðjan Rán dugði til þess að koma Birnu í 15 manna úrslit og hún vinnur nú hörðum höndum að næsta myndbandi sem hún þarf að skila á miðvikudaginn. „Næsta takmark er að komast í lokahópinn sem telur 5 manns. Þar þarf ég svolítið að treysta á Íslendinga en hann er valinn með netkosningu. Það væri auðvitað gaman að vinna en sá eða sú sem stendur uppi sem sigurvegari fær ferð til Los Angels á bandarísku keppnina og peningaverðlaun.“
Hægt er að fylgjast með Birnu Magg á Facebooksíðu hennar, birnamagg.com. Þar má horfa á myndbönd frá henni og fylgjast með upplýsingum um kosninguna í fimm manna úrslit.
Birtist fyrst í amk… fylgiriti Fréttatímans.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.