Konur á pillunni þurfa B6 vítamín

B6-vítamín öðru nafni pýridoxin hjálpar til við myndun og umbrot kolvetna, fitu, amínósýra, kjarnsýra, próteina og hemóglóbíns í líkamanum.

Stundum eru skammtar af B6-vítamíni notaðir við fyrirtíðaspennu, við fjöltaugabólgu og einnig stundum sem krampastillandi meðferð. Svo er það notað við pýridoxín skorti og stundum með öðrum B-vítamínum hjá einstaklingum sem eru með B-vítamín skort.

Hvernig nýtir líkaminn B6-vítamín?

Öll B-vítamín eru tekin upp í þeim hluta smáþarmanna sem liggur næst maganum (á latínu jejunum).

Í hvaða mat er B6-vítamín?

Kjöti, fiski, kjúkling heilu korni, eggjum, grænmeti og fleiri fæðutegundum.

Hvað má taka mikið af B6-vítamíni?

Ráðlagður dagskammtur er u.þ.b. 1,2 milligrömm fyrir konur og 1,5 milligrömm fyrir karla. Meðaldagneysla er 1,3 millgrömm hjá konum og 1,7 milligrömm hjá körlum. Samkvæmt tölum frá Embætti Landlæknis.

Vítamínþörfin er mismunandi

B6-vítamínþörfin ræðst af því hve mikil próteinneyslan er. Í raun á að meta þörfina hjá hverjum og einum fyrir sig því B6-vítamínið er nýtt við búskap næringarefnanna sem við neytum.

  • Þörfin fyrir B-vítamín eykst með reglulegu millibili vegna veikinda, streitu og of mikillar vinnu.
  • Konur sem nota getnaðarvarnarpilluna, þurfa aukaskammt af B6-vítamíni.

Hvernig lýsir B6-vítamínskortur sér?

B6-vítamínskortur er fátíður og hans verður yfirleitt ekki vart nema í tengslum við skort á öðrum B-vítamínum en misnotkun áfengis getur einnig leitt til skorts. Einkennin geta verið:

  • flogaveikislegur krampi
  • breytingar í húð (t.d. sprungur, flagnandi húð eða bólga)
  • uppköst
  • taugabólgur
  • nýrnasteinar

Þungaðar konur geta þjást af B6-vítamín skorti en nauðsynlegt er að fóstrið fái þetta yfir fylgju frá móður.

Vítamínskortur hjá börnum getur valdið sams konar krampa og við flogaveikisköst, meltingartruflanir geta komið fram, þyngdartap og pirringur.

Hvað eykur hættuna á B6-vítamínskorti?

  • Geisla og lyfjameðferð við krabbameini.
  • Getnaðarvarnir með estrógeni geta ef til vill minnkað magn B6-vítamíns í líkamanum.
  • Elli í tengslum við einhæft mataræði.
  • Langvarandi, eftirlitslausir megrunarkúrar.
  • Misnotkun áfengis.

Langtímanotkun ýmissa lyfja getur einnig aukið hættuna á B6-vítamínskorti.

  • Hýdralazín við of háum blóðþrýstingi.
  • Isóníazíð við berklum
  • Penicillamín við nýrnasteinum og langvarandi liðagigt
  • Getnaðarvarnartöflur
  • Neomýcin við sýkingum
  • Einnig getur misnotkun áfengis leitt af sér B-vítamín skort

Hvernig er ráðin bót á B6-vítamínskorti?

B6-vítamínskortur er unninn upp með stórum skömmtum daglega, þar til bati fæst.

Þungun og B6-vítamín Stundum eru gefnir stórir skammtar af B6-vítamíni við mikilli morgunógleði, en þetta er alltaf gert í samráði við lækni.

Hvernig lýsir of mikið B6-vítamín sér?

Það er sjaldan að menn fái of mikið af B6-vítamíni því umframmagnið leysist upp í vatni og brotnar niður í lifrinni og skilst úr með þvaginu. Ef það hinsvegar gerist þá geta orðið taugaskemmdir sem lýsa sér með dofa í höndum og fótum. Yfirleitt gengur það tilbaka ef dregið er úr inntöku pýridoxíns. Varanlegar skemmdir eru þó þekktar.

Má taka vítamín/steinefni með öðrum lyfjum?

Ef lyfið Levodopa er tekið við Parkinsonsveiki að staðaldri er ekki mælt með þessu fyrir þá einstaklinga.

Greinin birtist fyrst árið 1999 en var uppfærð 21.apríl 2020

Höfundur greinar

Greinin birtist á Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

SHARE