Og enn flögrar tískuvikan eða Fashion Week eins og hún útleggst á frummálinu, milli alþjóðlegra hátískuborga og stendur nú yfir í London, en tískuvikan í New York þótti einkar glæsileg og fékk almenningur þar fyrsta forsmekkinn af því sem koma skal næsta vor.
Þó tískuvikan í London sé langt gengin, er enn ekki úr vegi að líta pallana augum í beinni útsendingu á netinu, en dauðlangi þér á hátískusýningu og eigir erfitt um vik með að bregða undir þig betri fætinum til bæjar – eða alla leið til London – í þessu tilfelli, er vert að líta á endursýningar af pöllunum, sem nálgast má hér.
Margra kynlegra grasa gætir á tískuvikunni í London, en hæst bar tískusýning Top Shop Unique, en það var engin önnur en ofurfyrirsætan Cara Delevingne sem þar fór fremst fyrir fríðum flokki stúlkna og kynnti látlausa en kvenlega vorlínu tískurisans nú fyrir nokkrum dögum.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði, verður rauði liturinn nokkuð áberandi þegar vora tekur, sterkar og stílheinar línur einkenna kventískuna og sportleg tennistískan sækir í sig veðrið, en hér má sjá sýningu Top Shop á tískupöllunum í London, sem beðið var með eftirvæntingu. Takið sérstaklega eftir yfirveguðu og frjálslegu fasi Cara Delevingne, sem eignar sér pallinn með kæruleysislegri bendingu:
Vivienne Westwood fetar ekki tŕoðnar slóðir fremur en fyrri daginn, en fyrirsætur hennar kynntu velflestar ögrandi blazerjakka, skyrtur með voldugum bryddingum og skemmtilega pönkuðum samkvæmiskjólum. Rauði liturinn er mildari í hönnun Westwood en skín í gegn, hér má sjá sýningu Westwood í London:
Geislandi fallegir samkvæmiskjólar sem segja sex; logagylltir og eldrauðir, kvenleg sniðin og stelpulega stuttir samkvæmisbolir verða einkennisorð Emilio de la Morena á komandi vori. Augljóst er að sumarið 2015 verður árstíð sem umfaðmar kvenlegar línur, gælir við sterka liti og fellir allar fyrri reglur; allt verður leyfilegt á komandi ári.
Endursýningar af Tískuvikunni í London má horfa á HÉR en framundan er tískuvikan í Milanó.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.