Krabbamein kemur öllum við!

Lífið er núna.

Ég dáist að unga fólkinu sem stendur fyrir herferð KRAFTS.
KRAFTUR er félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra.
Þau stíga fram og tala hreint út um sínar upplifanir af sjúkdómnum, sársaukann og gleðina, sorgina og sigrana.

Við í minni litlu fjölskyldu fengum fyrsta áfallið þegar greindist í fyrsta sinn 1996 og þá með sarkmein í bjóstvöðva, það var hægt að klára það með stórri skurðaðgerð en læknar undirbjuggu hann undir skerta starfsgetu, sögðu að hann myndi aldrei hjóla á mótorhjóli meira. Á þessum tíma erum við ung hann 34 og 28 ára en við fórum í gegnum þetta saman og hann afsannaði kenningu læknanna og byrjaði að hjóla 3 mánuðum eftir skurð.😉
2010 skall á okkur áfall aftur og hann greindist í annað sinn með sarkmein í fituvef í lærinu í þetta sinn. Áfallið var gríðalegt og læknarnir klóruðu sér í hausnum yfir því að þetta var önnur týpa, uppskurður, aftur stór og væn lærisneið tekin úr læri. Stór aðgerð en gekk vel, við eins og áður sigruðum þennan slag saman og hann var komin á ról fyrr en læknar reiknuðu með.
2012 skall áfall á í þriðja sinn og nú urðum við skelkaðri en áður, meinvarp í eitla í nára. Nú var lyfjameðferð og það var áfall en minn fór tiltölulega létt í gegnum meðferðina en annað sjokk reið yfir þegar sýnilegt var að meðferðin var ekki að skila tilætluðum árangri. Uppskurður og meinið var tekið og ekki neitt sem benti á að meira væri í kroppnum, þetta ár héldum við gleðileg jól með stærstu jólagjöfina hann var krabbameinslaus.
2017 alveg eins og blaut tuska fæ ég símtal frá honum eftir hefðbundið eftirlit, ” er komin með krabba aftur” stórt áfall og áfallið stækkaði þegar við fengum að vita meinvörp í lungum og hálsi, upprunaæxli finnst ekki en um ólæknanlega tegund að ræða!
Mjög öflug og erfið lyfjameðferð sett af stað, hann með mjög erfiðar aukaverkanir og ég sett í sjúkraleyfi til þess að sinna okkur báðum, mér í áfallinu og honum í meðferðinni. 6 mánuðum seinna er þetta okkar eðlilega tilvera.
Við vitum ekki hversu löng lyfjameðferðin verður og hvort það verða geislar á eftir, við vitum bara 3 mán í einu. Við höfum fengið að vita að lyfjameðferðin hefur minnkað æxlin svo það er jákvætt.

Þessi reynsla sem spannar yfir 21 ár hefur kennt okkur að Lífið er núna og núna er rétt að njóta þess sem er í boði.

Ég rita hér sögu okkar til þess að sýna samstöðu með KRAFTi því krabbamein kemur öllum við.

Hvet alla til að fjárfesta í Lífið er núna Armbandi og styrkja þannig ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra!

#lífiðernúna#

SHARE