Alltaf er að koma betur og betur í ljós hversu heilnæm krydd geta verið fyrir heilsuna. Í þúsundir ára hefur krydd verið notað í læknisfræðilegum tilgangi en nýlega hafa komið fram vísindalegar sannanir fyrir virkni þess. Bent hefur verið á að löngum hefur tíðni krabbameins og hjartasjúkdóma verið lág í Indlandi þar sem krydd eru notuð í mjög miklu magni en minna af salti og sykri. Eftir því sem vestrænt mataræði ryður sér meira til rúms hjá þjóðinni hækkar tíðni sjúkdóma og hafa sérfræðingar tengt þetta saman.
Krydd geta vissulega ekki læknað sjúkdóma en rannsóknir benda til þess að þau geti hjálpað til við að halda niðri ýmsum einkennum. Hér eru dæmi um nokkur dásamleg krydd sem geta verið prýðileg heilsubót. Við mælum þó með því að fólk fái alltaf álit læknis áður en það fer í það að treysta alveg á kryddin til lækninga.
Salvía. Jurtasérfræðingar mæla með því að drekka salvíute við ólgu í maga og særindum í hálsi. Ein rannsókn sýndi fram á að salvíulausn sem spreyjað var í kverkarnar létti á sársaukafullri hálsbólgu. Einnig á salvía að hafa góð áhrif á heilann.
Rósmarín. Í Grikklandi til forna báru nemendur rósmarínkransa sem þeim fannst hjálpa til við einbeitingu. Rósmarín virðist bæta minni og eftirtekt. Rósmarín gerir máltíðina ekki bara bragðbetri heldur getur marínering með rósmaríni hjálpað til við varðveislu kjötsins þannig að það súrni síður.
Túrmerík. Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum hversu mikil vitundavakning hefur orðið að undanförnu varðandi virkni túrmeriks. Á Indlandi er túrmerikmauk borið á sár til þess að flýta bata. Túrmerik-te er víða notað til þess að slá á kvefeinkenni en virka efnið í túrmeriki er curcumin og er það talið hafa mikla andoxunar- og bólgueyðandi eiginleika. Verið er að rannsaka hvort curcumin geti möguleika minnkað æxli.
Engifer er bólgueyðandi og getur hjálpað gegn magavandamálum og jafnvel slegið á morgunógleði. Engifer hefur líka mjög góð áhrif á liði og vöðva.
Kanill var notaður meðal Forngrikkja og Rómverja til þess að auka matarlyst og við meltingartruflunum. Rannsóknir benda til þess að teskeið af kanil á dag geti jafnað út blóðsykur hjá þeim sem eru með sykursýki, týpu 2.
Saffran hefur verið notað gegnum aldirnir til þess að auka geðprýði. Saffran er einnig talið geta slegið á einkenni fyrirtíðaspennu og þunglyndis.
Heimild: eatingwell.com